Veislur voru haldnar á þriðjudag Degi til heiðurs, til dæmis í Höfða þar sem borgarfulltrúum meirihlutans var boðið og oddvitum minnihlutans. Þá sóttu veisluna gamlir samstarfsmenn Dags og embættismenn úr borginni, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Í leiðara Morgunblaðsins kemur fram að á sérstökum borgarstjórnarfundi á þriðjudag þegar skiptin fóru fram hafi margar ræður verið haldnar. Þá einkum af fulltrúum meirihlutans sem lýstu mikilli ánægju með störf Dags og söknuðu brotthvarfi hans.
„Enginn var þó ánægðari með störf Dags en Dagur sjálfur sem fór yfir afrek sín í borginni og tíndi til flesta málaflokka sem hann taldi standa í miklum blóma, enda hefur hann ítrekað lýst stolti yfir árangrinum,“ segir leiðarahöfundur sem fer yfir það sem Dagur gleymdi að nefna að hans mati.
„Þar láðist honum alveg að geta þess að borgin ætti í alvarlegum fjárhagskröggum eftir borgarstjóratíð hans, eða að leikskólamál væru sífelld vonbrigði og vandamál foreldra. Hann nefndi ekki heldur að borgin hefði sprengt upp íbúðaverð með samfelldum skipulagsmistökum í áraraðir og þéttingarstefnu sem hefði leitt af sér skort á hagkvæmum íbúðum fyrir borgarbúa. Hann minntist ekki heldur á að samgöngumál í borginni eru vaxandi vandamál og orðin algerlega óviðunandi eftir áralanga atlögu meirihlutans í borginni gegn þeim ferðamáta sem almenningur velur helst, einkabílnum. Langvarandi tafir á uppbyggingu hjúkrunarrýma, þrátt fyrir samkomulag við heilbrigðisyfirvöld, komust ekki heldur að í kveðjuræðu borgarstjóra, hvað þá að sorphirðumálin, sem líkt og ýmislegt annað hafa verið vaxandi vandamál í borginni, væru tekin fyrir. Borgarstjóri hefði getað nefnt margt annað sem hann ætti að sjá eftir að hafa ekki sinnt sem skyldi en við því var svo sem ekki að búast.“