fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Eyjan

Björn Jón skrifar: Biskup, drottning, kóngur

Eyjan
Sunnudaginn 7. janúar 2024 18:00

Þyrí drottning greinir bónda sínum, Gormi gamla, frá dauða Knúts, sonar þeirra. Málverk August Carl Vilhelm Thomsen.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á því ári sem nú er gengið í garð verður hvort tveggja kjörinn nýr forseti og biskup og engin leið að segja fyrir um það hverjir muni veljast til þeirra embætta. Biskups- og forsetakjör verða þó að teljast harla lítil tíðindi í samanburði við þau sem bárust frá Amalienborgarhöll á gamlárskvöld, þegar Margrét Þórhildur drottning tilkynnti þegnum sínum að hún hygðist láta af völdum á ríkisráðsfundi sem haldinn verður í Kristjánsborgarhöll að réttri viku liðinni. Að fundinum loknum mun Mette Frederiksen forsætisráðherra ganga út á svalir hallarinnar og gera lýðum heyrinkunnugt að Friðrik X sé nýr konungur Dana.

Þessi viðburður er sögulegur í meira lagi, en seinast henti það 1146 að þjóðhöfðingi Dana léti af embætti af fúsum og frjálsum vilja. Það ár lagði Eiríkur III, eða Eiríkur lamb eins og hann er kallaður, niður völd og gekk í klaustur í Óðinsvéum. Ekki liggur fyrir í heimildum hvers vegna konungur settist í helgan stein — en þar lést hann alltént skömmu síðar. Hann kann að hafa þjáðst af einhverju meini en þegar þarna var komið sögu var algengt orðið að heldra fólk sem þarfnaðist aðhlynningar settist að í klaustrum og nyti þar hvort tveggja í senn uppihalds og traustrar sáluhjálpar. Klaustrin voru fimm stjörnu hjúkrunarheimili þess tíma.

Danabót

Engin hefð er fyrir afsögn konunglegra þjóðhöfðingja á Norðurlöndum, en ef við höldum örlítið sunnar og vestar þá lifir Beatrix, fyrrum Hollandsdrottning, enn í hárri elli, en hún lét af völdum af fúsum og frjálsum vilja, líkt og móðir hennar og amma, Júlíanna og Vilhelmína, höfðu gert svo hægt yrði að hleypa næstu kynslóð í hásætið. Þetta hefur og orðið reyndin á seinustu árum í Belgíu, Lúxemborg og á Spáni.

Í þýska miðlinum Welt var því velt upp hvort ákvörðun Margrétar verði hugsanlega til þess að frændur hennar, Haraldur V Noregskonungur og Karl XVI Gústaf Svíakonungur, kjósi að láta af embætti. Sá fyrrnefndi er rétt að verða 87 ára og síðarnefndi verður 78 ára í vor. Sérfræðingur sænska ríkisútvarpsins í málefnum konungsfjölskyldunnar taldi þetta hreint ekki ósennilegt. Alltént hefur verið gefið fordæmi fyrir því að konunglegur þjóðhöfðingi á Norðurlöndum setjist í helgan stein.

Athyglisvert hefur verið að lesa skrif um drottningartíð Margrétar. Emma Rønberg Paaske, sagnfræðingur og sérfræðingur í málefnum konungsfjölskyldunnar, benti á það í samtali við danska ríkisútvarpið að í kveðjum til drottningarinnar í byrjun nýs árs birtist mikil væntumþykja. Það standi í sambandi við að Margrét drottning hafi boðið þjóðinni „inn fyrir“ og talar hún í þessu sambandi um „nærværende kongehus“. Drottningin fráfarandi njóti mikils traust og hún hafi staðið sem „en rolig, stærk moderlig støtte for vores land“. Paaske segir hugmyndina um „þjóðarmóður“ ævaforna í danskri menningu, og eigi rætur að rekja til sagna um Þyrí Danabót, drottningu Gorms gamla er ríkti á tíundu öld, og kölluð hefur verið formóðir Danakonunga.

Þessi tenging við ævafornar sögupersónur (jafnvel goðsögulegar) er merkilegt fyrirbrigði. Ólafur helgi Noregskonungur hlaut á miðöldum titilinn Rex Perpetuus Norvegiae – eilífur konungur Noregs. Hann er samhengið í sögunni og trúnni fram á okkar daga í einhverjum skilningi. Raunar var hann í svo miklum metum hér á landi líka að alls voru um sjötíu kirkjur helgaðar honum, þar á meðal kirkjan á Þingvöllum.

Heilagir menn

En hvað með okkur Íslendinga, hvaða persónur okkar sögu komast næst því að vera tignaðar með þessum hætti og hafa orðið mönnum fyrirmynd um breytni fram eftir öldum? Um Íslendinga ritar Adam frá Brimum á ofanverðri elleftu öld: „… episcopum suum habent pro rege“ — biskup sinn hafa þeir fyrir konung. Um Gissur biskup Ísleifsson var sagt í Hungurvöku að hann hafi notið slíkrar virðingar „og svo vildi hver maður sitja og standa sem hann bauð, ungur og gamall, sæll og fátækur, konur og karlar, og var rétt að segja að hann var bæði konungur og biskup yfir landinu meðan hann lifði“. Í Morkinskinnu segir að Haraldur harðráði Noregskonungur hafi komist svo að orði að úr Gissuri mætti gera þrjá menn: víkingahöfðingja, konung og biskup. Ekki amaleg mannlýsing það.

Þá var Jón Ögmundsson Hólabiskup tekinn í heilagra manna tölu, en honum eru ekki bara eignuð yfirnáttúruleg verk heldur virðist hann af sögu hans að dæma hafa notið óvenju ríkra mannkosta. Hann amaðist mjög við leifum heiðindómsins, allri „fjölkynngi og fordæðuskap, göldrum og gerningum og öllum sjónhverfilegum kuklaraskap“. Hann hafði þar erindi sem erfiði og útrýmdi meðal annars vikudaganöfnunum Týsdegi, Óðinsdegi, Þórsdegi og Freysdegi (nýju nöfnin verða þó að teljast harla rislítil). Við jónarnir erum margir og líklega hefur átrúnaður á Jón helga haft mikið um það að segja að fram á okkar daga er Jón eitthvert vinsælasta karlmannsnafnið. Á dögum Jóns biskups virðist hafa orðið trúarleg vakning meðal landsmanna, en hann mælti svo fyrir um að hver sá maður í Norðlendingafjórðungi er hefði fóta sinna forráð skyldi vitja höfuðkirkjunnar á Hólum einu sinni á ári. Þangað streymdu menn víðs vegar að — sér í lagi á páskum þegar hundruð manna dvöldu þar til að hlýða á kenningu biskups og tíðagerð.

Eigum að gera ríkar kröfur til forystumanna

Í áramótablaði Morgunblaðsins birtist áhugaverður pistill Halldórs Armand Ásgeirssonar rithöfundar þar sem hann gerði að umtalsefni þörfina á forystumönnum sem sinntu starfi sínu af einlægri köllun. Hann nefndi þar að rétt væri að gera ríkar siðferðiskröfur til þeirra sem bjóða sig fram í valdastöður, ekki nægi að krefjast þess að ásetningur manna sé góður heldur að þeir hafi beinlínis í heiðri „klassískar dyggðir á borð við fórnfýsi, fyrirgefningu og visku“.

Biskupinn yfir Íslandi og forseti Íslands eru einu embættismennirnir sem enn eru ávarpaðir með formlegum titli, herra og frú, jafnvel þó Íslendingum séu titlar ótamir. Þessi embætti eiga margt fleira sammerkt — hvorugu þeirra fylgja mikil eiginleg völd en veljist til þeirra réttir menn getur áhrifavald embættisins orðið mikið, landi og þjóð til heilla. Slíkt áhrifavald er mikilvægt sem aldrei fyrr á tímum rótleysis; andlegrar og menningarlegrar upplausnar. Óhætt er að gera ríkari siðferðiskröfur til biskups og forseta en annarra manna og í því sambandi rétt að gefa gaum að sögulegum fyrirmyndum — gleyma ekki samhenginu í sögunni — því í krafti óslitinnar hefðar ritmálsins eigum við enn sálufélag við þá Gissur og Jón.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Talaði Trump af sér?

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu