Svarthöfði er í hópi þeirra sem finnast jólin vera búin að kvöldi annars dags jóla og vill þá helst fjarlægja sem mest af skrauti af heimilinu, þótt hann geti horft í gegnum fingur sér með hóflegar utanhússljósakeðjur, sérílagi ef hvítri birtu stafar af þeim. Svarthöfða hefur ekki enn tekist að afla fylgis við þessa sérvisku meðal nákominna þrátt fyrir töluverða eftirgangsmuni.
Jólin standa því til loka Þrettándans þar sem víðast annars staðar. Arnarnesið virðist þar ekki vera undantekning því í gær steig fram Arnar Þór Jónsson sem fullburða arftaki Ástþórs Magnússonar sem frambjóðandi til embættis forseta landsins.
Margir voru orðnir uggandi um að enginn væri í sjónmáli sem tekið gæti að sér það vandasama hlutverk. Ástþór hefur ítrekað reynt fyrir sér í forsetakosningum, síðast árið 2016, og sætir nokkurri furðu að honum hafi ekki lánast að eiga erindi sem erfiði.
Svarthöfða var því létt þegar Arnar Þór steig fram í stofu sinni og lýsti því að hann hefði ákveðið að taka eigin áskorun um að gefa kost á sér. Það hlýtur að teljast lofsverð fórnfýsi, sérstaklega ef litið er til árangurs fyrirrennarans, Ástþórs.
Og það er sérstaklega heppilegt að ekki hafi þurft að leita víða fanga eftir áskorunum og því mögulegt að bregðast skjótt við, aðeins tæplega tveimur sólarhringum eftir að sitjandi forseti skýrði frá áformum sínum að bjóða sig ekki fram á ný.
Arnar Þór Jónsson væri vel að embætti forseta kominn, löglærður, vanur rúmgóðum húsakynnum og hefur notið ámóta barnaláns og fráfarandi forseti. Þótt hann hafi nefnt ljóð sinn helstan, þegar hann kynnti áform sín, að hann væri hlédrægur og liði illa á sviði, þá eru ótal sjálfshjálparaðferðir á netinu sem geta bætt úr þeim annmörkum – gott ef Bréfaskóli Sambandsins býður ekki einhver álíka úrræði.
Svarthöfða brá þó heldur í brún síðdegis í gær þegar sjálfur Ástþór Magnússon lýsti yfir framboði, líklega í fimmta sinn. Reyndar þýðir það að hann hefur algera yfirburði í hópi þeirra sem í framboði varðar, hvað reynslu sem forsetaframbjóðandi varðar.
Svarthöfða sýnist að nú sé úr vöndu að ráða. Kjósendur verði þá að gera upp við sig hvort kjósa eigi frumrit eða afrit.
Eina lausnin sem virðist vera í sjónmáli á vandanum er að leggja saman atkvæðin sem greidd verða Arnari Þór annars vegar og Ástþóri hins vegar. Það gæti farið langt með að tryggja öðrum hvorum kosningu – eða jafnvel báðum.