Ottó von Bismarck kanslari mun einhverju sinni hafa látið svo um mælt að fyrsta kynslóðin skapaði auð, sú næsta ráðstafaði honum, þriðja kynslóðin legði stund á listasögu en sú fjórða missti fótfestuna og glataði sjálfri sér. Í kjölfar þess að bandamenn gersigruðu Þýskaland 1945 var stofnað Sambandslýðveldi á hernámssvæðum Vesturveldanna þar sem lagður var grunnur slíkri velmegun á skömmum tíma að vart á sér hliðstæðu í sögunni enda nefnt „efnahagsundur“ (þ. Wirtschaftswunder). En nú er svo komið að Þjóðverjar sem áður voru í fararbroddi iðnaðar, tækniþróunar og almennrar velmegunar dragast hratt aftur úr öðrum vestrænum ríkjum. Sitthvað er nefnilega til í söguspeki Bismarcks; mannkynssagan geymir ótal dæmi þess hversu mikinn aga og hversu mikla þrautseigju og vitsmuni það krefst að byggja upp traustan efnahag ríkis og um leið hversu auðvelt er að glutra niður slíkum árangri.
Fyrr í sumar átti ég spjall suður í Frakklandi við þarlendan vin sem starfar á vegum einnar þyrlusveitar hersins. Þessi franski vinur minn er með aðsetur í Þýskalandi þar eð rekstur umræddra þyrlna er samstarfsverkefni nokkurra Evrópuríkja. Hann kvaðst hafa orðið meira en lítið undrandi eftir um ársdvöl í Þýskalandi. Frá unga aldri hefði hann haft þá ímynd af Þjóðverjum að þeir væru sérdeilis agaðir, skipulagðir og tæknivæddir en eftir stutta veru í landinu áttað sig á að veruleikinn væri talsvert annar. Þýski herinn stæði til að mynda langt að baki þeim franska að afli og búnaði, stafræn tækni væri komin skammt á veg í opinberri stjórnsýslu, járnbrautarkerfið svifaseint, tímaáætlanir verklegra framkvæmda stæðust illa og svo mætti lengi telja.
Við blasir að Þjóðverjar, sem áður voru í fararbroddi á flestum sviðum, eru að ýmsu leyti orðnir eftirbátar Frakka og annarra þjóða í vesturhluta álfunnar. Hagtölur tala sína máli. Því er jafnvel spáð að landsframleiðsla dragist saman á þessu ári og áætlanir um hagvöxt á næstu fimm árum gera ráð fyrir mun minni vexti í Þýskalandi en öðrum vestrænum ríkjum. Kannski er táknrænt fyrir höktið í aflvélinni að Annalena Baerbock utanríkisráðherra varð í tvígang að fresta för sinni til Eyjaálfu í fyrra mánuði vegna bilunar í Airbus A430-þotu flughersins sem komin er til ára sinna. Hvers kyns opinber fjárfesting hefur setið á hakanum um langt árabil.
Þýskur iðnaður, sér í lagi bifreiðaiðnaðurinn, hefur mjög reitt sig á útflutning til Kína undangengna tvo áratugi en á nú í harðvítugri samkeppni eystra við vaxandi þarlendan bifreiðaiðnað. Þá er ódýrt rússneskt gas er ekki lengur í boði sem orkugjafi og á sama tíma hefur síðustu kjarnorkuverunum verið lokað.
Hinar fjölmennu kynslóðir sem uxu úr grasi á árunum eftir síðari heimsstyrjöld eru farnar á eftirlaun eða óðum að nálgast eftirlaunaaldur, fæðingum hefur fækkað mjög og þrátt fyrir mikinn innflytjendastraum kveðjast um fjörutíu af hundraði atvinnurekenda eiga í basli með að laða til sín sérhæft starfsfólk. Að sama skapi gengur víða afleitlega að ráða í kennarastöður svo dæmi sé tekið en vandi skólakerfisins hefur mjög verið til umfjöllunar í þýskum miðlum undanfarin misseri.
Í umfjöllun Economist á dögunum kom fram að Þjóðverjar væru ekki einu sinni hálfdrættingar á við Frakka og Bandaríkjamenn þegar vegnir væru þeir fjármunir hlutfallslega sem færu til fjárfestinga í upplýsingatækni. Í sama blaði var þess getið að 120 daga tæki að meðaltali að stofna til atvinnurekstrar í landinu — slík væri skriffinskan — en meðaltal ríkja Efnahags- og framfararstofnunarinnar liggur nærri 60 dögum. Carsten Linnemann, framkvæmdastjóri Kristilegra demókrata, höfuðstjórnarandstöðuflokksins, orðaði það svo í viðtali við Welt á dögunum að þörf væri á skýrri stefnumótun til framtíðar og gagngerri hugarfarsbreytingu. Þjóðverjar væru ekki einungis orðnir „sjúki maðurinn“ í álfunni (þ. kranke Mann Europas) heldur hefði nýlega verið komist svo að orði í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að Þýskaland væri „sjúki maður“ heimshagkerfisins.
Í áðurnefndri umfjöllun Economist eru nauðsynleg verkefni tíunduð; skapa þurfi fyrirtækjum hagfellt rekstrarumhverfi, sér í lagi til nýsköpunar og stórauka opinbera fjárfestingu. Aukin notkun stafrænnar tækni í þjónustu ríkis og sambandslanda geti dregið stórlega úr skriffinsku. Þá séu alltof miklar hindranir í vegi þess að erlendir sérfræðingar fái atvinnuleyfi í Þýskalandi. Mikilvægt sé að laða til landsins útlendinga með sérþekkingu en á hinn bóginn hafi of mikil áhersla hafi verið á komu flóttafólks. Þau mál og málefni ólöglegra innflytjenda er til að mynda eitt aðalumræðuefnið nú í aðdraganda kosninga til sambandsþings Bæjaralands sem fram fara 8. október nk.
Núverandi ríkisstjórn mun ólíklega auðnast að taka á vandanum af nægilegri festu — til þess eru flokkarnir of ólíkir en Olaf Scholz kanslari er í forystu samsteypustjórnar sósíaldemókrata, græningja og frjálsra demókrata. Síðastnefndi flokkurinn aðhyllist frjálshyggju í efnahagsmálum, hinir tveir fyrrnefndu eru vinstra megin við miðju.
Vitaskuld er ekki við stjórn Scholz að sakast nema að hluta til. Verulega skorti á stefnufestu í ýmsum grundvallarmálum á langri valdatíð Angelu Merkel og mikilvægir málaflokkar sátu á hakanum. Þessi dapurlega staða ætti að vera okkur Íslendingum umhugsunarefni. Þrátt fyrir mikinn hagvöxt hér á landi undanfarin misseri skortir á skýra sýn stjórnvalda í ýmsum grundvallarmálum — við stöndum til að mynda nágrannaþjóðum langt að baki þegar kemur að því að skapa viðskiptalífinu hagfellt rekstrarumhverfi. Á lista IMD-viðskiptaháskólans yfir samkeppnishæfni ríkja er Danmörk í fjórða sæti, Svíþjóð í fjórða en Ísland því 21. Þá hafa athuganir Efnahags- og framfarastofnunarinnar leitt í ljós að regluverk er mun meira íþyngjandi hér en á hinum Norðurlöndunum. Og úr því að minnst var á rafmagnsskortinn í Þýskalandi þá stefnir í orkukreppu hérlendis sem mun vitaskuld hamla atvinnuuppbyggingu og þar með verðmætasköpun. Ástæðan er fyrirhyggjuleysi misviturra stjórnmálamanna. Engin teikn eru á lofti um að bætt verði úr þeim málum meðan núverandi ríkisstjórn situr að völdum.
Í Ódysseifskviðu lætur Hómer Ódysseif mæla svo við Amfínómus í 18. þætti: „Ekkert af öllu því, sem á jörðu andar og bærist, er ístöðuminna, en maðurinn. Meðan guðirnir veita honum velgengni og líkamsfjör, hugsar hann, að hann muni aldrei nokkuru illu mæta framvegis.“ En hvað sem líður ístöðuleysi mannskepnunnar er fyrirhyggjuleysi ekki náttúrulögmál og til þess eru vítin að varast þau. Stefnuleysi þýskra stjórnvalda undangenginn hálfan annan áratug er áminning um mikilvægi þess að fylgt sé skýrri stjórnarstefnu til framtíðar — í stað þess að mál séu látin reka á reiðanum.