fbpx
Mánudagur 11.desember 2023
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Færum Borgarbókasafnið í Safnahúsið

Eyjan
Sunnudaginn 24. september 2023 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Miðnæturskýin svört af sorg

svífa yfir Egyptans höfuðborg,

orti Davíð Stefánsson í hinu harmþrugna kvæði „Caesar við bókhlöðurústirnar í Alexandríu“. Þar eru enn fremur þessi vísuorð:

Þeir segja brunnar þær bækur, það starf,

sem börnunum sínum þeir létu í arf

Gríski sagnaritarinn Plútarkos (46–127 e. Kr.) skráði hina víðfrægu frásögn af því er herlið Júlíusar Caesars brenndi bókhlöðuna í Alexandríu fyrir slysni árið 48 f. Kr. Hún var líklega þekktasta bókasafn fornaldar og mun hafa verið hluti þyrpingar safna sem nefndust Mouseion (gr. Μουσεῖον) og komið var á laggirnar skömmu eftir að borgin reis sem kennd er við stofnanda hennar; fræknasta herforingja sögunnar, Alexander mikla. Einn hershöfðingja hans, Ptólemeos, varð konungur Egyptalands en síðasti afkomandi hans á konungsstóli var hin nafnfræga Kleópatra sem andaðist árið 30 f. Kr. Davíð lætur hana mæla í fyrrnefndu kvæði: „Hví grætur þú, Caesar? Hví gleymdirðu mér? / Ég gat ekki sofið og leita að þér …“ Og síðan horfir Caesar í augu henni „hlær og grætur / í húmi egypskrar nætur“.

Hugmynd Ptólemeosar var að koma á fót menningarstofnun þar sem saman kæmu helstu hugsuðir hins helleníska heims og að safnað yrði á einn stað öllum þekktum bókum veraldar. Mouseion þýddi staður sem tileinkaður var músunum, menntagyðjunum, einkum gyðjum hljómlistar og ljóðlistar, og þarna er vitaskuld komið alþjóðaorðið museum. Með endurreisninni gekk hin forna hugsun um söfnin í endurnýjun lífdaga — að safna saman visku á einn á stað — og hvarvetna risu menningarmusteri. Þessi hugmynd um söfnun þekkingar birtist okkur líka í alfræðibókunum sem litu dagsins ljós á upplýsingaröld og með veraldarvefnum á vorum dögum.

Veglegasta hús landsins

Sérhvert menningarríki þarf að eiga sín höfuðsöfn; bókasafn, skjalasafn, forngripasafn og náttúruminjasafn og það var mikilsverður áfangi í menningarlegri sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar er þessum söfnum var reist vandað hús við Hverfisgötu í byrjun síðustu aldar — sem þó var sér í lagi helgað Landsbókasafninu. Líklega var það veglegasta hús landsins á þeirri tíð og því stórbrotinn minnisvarði um þann sess sem menningin skipaði í vitund ráðamanna þess tíma, já og líklega þjóðarinnar allrar. Þegar tímar liðu sprengdi húsið öll söfnin utan af sér svo sem vonlegt var.

Mér er húsið talsvert kunnugt. Þar vann ég eitt sumar er ég var í Menntaskóla — sem starfsmaður Þjóðskjalasafns er enn hafði þá aðsetur í húsinu. Ég var settur í það ásamt tveimur sagnfræðinemum að flokka gömul skattframtöl uppi í risi hússins, tæma geymslur af alls kyns gömlu dóti (ótrúlegt hvað þar mátti finna) og aðstoða við flutning á skjalakössum úr húsinu upp í gömlu Mjólkurstöðina þar sem Þjóðskjalasafnið er enn — þó ekki sjái fyrir endann á viðgerðum á því húsnæði. Ég man að ég fann til mín þarna sautján ára þegar ég bar út fundargerðarbækur Alþingis, þar á meðal bókina þar sem skráð var frásögnin af þjóðfundinum 1851.

Annars stóð Safnahúsið að mestu tómt á þessum tíma, enda Landsbókasafnið nýverið flutt vestur á Mela. Þetta var ævintýraheimur og gaman að þvælast um ranghala hússins, þröng stigaop og hálftóma sali frá kjallara upp undir rjáfur sem höfðu verið stúkaðir niður í ótal rými með hillum svo koma mætti fyrir sem allra mestu magni skjala og bóka.

Ég man að þá var að störfum nefnd stjórnvalda sem fengið hafði verið það verkefni að finna húsinu verðugt hlutverk og ákveðið var að þarna yrði eitthvað sem kallað var „þjóðmenningarhús“ — sem síðan var hvorki fugl né fiskur og eiginlega hefur þetta verið hálfgert vandræðahús síðan. Þar hafa samt verið haldnar prýðilegar sýningar á stundum, aðalmeðferðin í landsdómsmálinu fór þar fram (en líklega vilja flestir gleyma þeirri sögu) og svo hefur af og til verið efnt til mannfagnaða þarna, sér í lagi á vegum stjórnvalda.

Borgarbókasafnið skortir veglegri umgjörð

Það er samt enn eins og þetta stóra og óvenju veglega hús, sem á engan sinn líka í borginni, skorti hlutverk. Á dögunum voru kynntar hugmyndir þess efnis að ýmsar stofnanir ríkisins hefðu skipti á húsum, meðal annars að Landsréttur flyttist í hús Hæstaréttar við Lindargötu og Hæstiréttur fengi á móti Safnahúsið sem stendur rétt fyrir sunnan. Egill Helgason fjölmiðlamaður gagnrýndi þessi áform í stuttum pistli á fésbókinni í vikunni sem leið og minnti á að Safnahúsið hefði á sínum tíma hýst heil fjögur söfn. Nú hefði hluti Listasafns Íslands þar aðsetur og þar væru haldnir hljómleikar og fundir. Egill skrifar: „Þetta er hús fyrir almenning að njóta, upplifa, tengjast því besta sem hefur verið gert í okkar byggingasögu. Þetta er sannkallað menningarhús.“ Ásýnd Hverfisgötunnar hefði líka batnað stórum í seinni tíð og hún hefði menningarsvip. Safnahúsið væri menningarhús og þar ætti að iðka menningarstarfsemi og vera meira líf en dómshús gæti boðið upp á. Við þetta má því bæta að líklega yrði of þröngt um Landsrétt í húsi Hæstaréttar sem var sérhannað fyrir æðsta dómstól ríkisins, og er vel að merkja ákaflega vandað og fallegt hús.

En svo ég víki aftur að vangaveltum Egils, þá eru þær ágætar. Hann nefndi menningarhús — en ganga mætti enn lengra í því efni og flytja aðalsafn Borgarbókasafns Reykjavíkur í húsið. Aðalsafnið var lengst af í einu glæsilegasta einbýlishúsi bæjarins, Esjubergi við Þingholtsstræti. Snemma fór að þrengja að safninu þar og á sjöunda áratugnum var farið að ræða um byggingu nýs aðalsafns Borgarbókasafnsins í því sem þá var kallað Nýi miðbærinn í Kringlumýri.

Á lóðinni norðan við þar sem Borgarleikhúsið stendur nú var gert ráð fyrir að safnið risi en tveir af færustu arkitektum síðustu aldar, Gunnlaugur Halldórsson og Guðmundur Kr. Kristinsson, teiknuðu myndarlegt stórhýsi sem orðið hefði sannkölluð borgarprýði, ekki bara bókasafn, heldur menningarhús með ráðstefnusal og stórri kaffistofu. Raunar var húsið fullhannað á sínum tíma og útboðsgögn tilbúinn en nýr meirihluti borgarstjórnar sem tók við völdum 1978 ákvað illu heilli að hverfa frá áformum um bygginguna.

Seinna var aðalsafnið flutt í svokallað Grófarhús sem er gömul vörugeymsla á hafnarbakkanum og að mörgu leyti óhentugt — og heldur ekki eins glæsileg umgjörð um safnið og stórbyggingin í Kringlumýri hefði orðið.

Musteri ljóða og lista

Úr þessu mætti bæta með því að ríki og borg hefðu makaskipti á húseignum, Borgarbókasafnið flytti í Safnahúsið en ríkið gæti til að mynda nýtt Grófarhús undir Listaháskólann sem áformað er að verði staðsettur í Tryggvagötunni.

Safnahúsið fengi þá verðugt hlutverk á ný — sem menningarhús þangað sem margir legðu leið sína. Sífellt minni bóklestur er eitt stærsta vandamál samtímans (en alltof sjaldan rætt, enda feimnismál). Íslendingar telja sig vera sérstaka bókaþjóð og það má til sanns vegar færa hvað útgefna titla áhrærir — en almennur bóklestur er skammarlega lítill. Þessa sér stað í hnignun tungumálsins og almennri menningarlegri hnignun. Ein áhrifaríkasta leiðin til að auðga andann er að gera bókinni hærra undir höfði og efla almenningsbókasöfn. Liður í því gæti verið að nýta húsið sem eitt sinn var hið veglegasta á landinu sem bókasafn eins og því var upphaflega ætlað. Það hefur líka sannarlega táknrænt gildi.

Og úr því að ég minntist á Davíð Stefánsson hér að framan þá starfaði hann lengst af sinni starfsævi sem bókavörður á Amtsbókasafninu á Akureyri og í áðurnefndu kvæði um bókhlöðurústirnar í Alexandríu segir hann þar hafa staðið „heilagt musteri ljóða og lista, / lind — til að svala hinum þyrsta“. Það er einmitt það sem bókasöfn eru.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitík einfaldleikans

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitík einfaldleikans
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Djöfullinn sjálfur

Óttar Guðmundsson skrifar: Djöfullinn sjálfur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Gaman að vera ráðherra

Svarthöfði skrifar: Gaman að vera ráðherra
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Óhófsandi og skattasýki

Björn Jón skrifar: Óhófsandi og skattasýki
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Landslag hjartans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Landslag hjartans
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Hið sérstaka vináttusamband sem var

Björn Jón skrifar: Hið sérstaka vináttusamband sem var
EyjanFastir pennar
04.11.2023

Sigmundur Ernir skrifar: „Sagðirðu árás?“

Sigmundur Ernir skrifar: „Sagðirðu árás?“
EyjanFastir pennar
04.11.2023

Óttar Guðmundsson skrifar: Ísrael

Óttar Guðmundsson skrifar: Ísrael