Páll Magnússon, fyrrverandi alþingismaður, er afar ósáttur við stöðu Sjálfstæðisflokksins í núverandi ríkisstjórn og segir hann hafa það eitt upp úr krafsinu að glata forystu hlutverki sínu í íslenskum stjórnmálum. Þetta kemur fram í aðsendri grein Páls í Morgunblaðinu í dag.
Ríkissstjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknarflokks er núna á sínu öðru kjörtímabili. Páll telur vera grundvallarmun á fyrri og síðari samstjórn flokkanna. Stjórnin sem mynduð var 2017 hafi haft það skýra erindi að koma á stöðugleika og hafi síðan fengið það stórverkefni í hendurnar að tækla Covid-faraldurinn.
Núverandi ríkisstjórn hafi hins vegar ekkert erindi og afleiðingarnar séu fylgishrun flokkanna:
„Seinni ríkisstjórn þessara flokka sem mynduð var 2021 – núverandi stjórn – á sér hins vegar ekkert slíkt yfirgrípandi erindi eða tilgang. Hún var eiginlega ekki mynduð um neitt. Hún varð bara til af því að það var hægt að mynda hana; af því bara. Þegar lesnar eru saman niðurstöður flokksráðsfunda VG og Sjálfstæðisflokksins nýverið – og umræður um stefnuræðu forsætisráðherra á dögunum – kemur þetta berlega í ljós: ríkisstjórnin á ekkert sameiginlegt erindi við þjóðina. Einstakir ráðherrar eru auðvitað að bauka eitthvað í sínum málum, hver á sinni skrifstofu, en það er líka allt og sumt. Og þess vegna eiga ágreiningsmálin sér ekkert skjól í einhverjum „æðri“ tilgangi lengur. Þau dúkka bara upp – eitt af öðru – og standa berskjölduð fyrir allra augum. Varla hægt að ná samstöðu um neitt nema kyrrstöðu.“
Sjálfstæðisflokkur og VG hafi þurft að víkja svo mörgum af grunngildum sínum til hliðar í þágu málamiðlana að „akkerisfestarnar við grunngildi þessara flokka hafa slitnað“. Hugsjónir Sjálfstæðisflokksins séu grátt leiknar í þessu ríkisstjórnarsamstarfi:
„Ef litið er á stöðu þeirra málefna sem flokkurinn ber helst fyrir brjósti þessi misserin þá er hún þessi: Umsvif hins opinbera halda áfram að þenjast út og með fjárlögum yfirstandandi árs var sett nýtt Íslandsmet í aukningu ríkisútgjalda milli ára; málefni hælisleitenda eru áfram í fullkomnum ólestri og útgjaldaaukningin í þessum málaflokki stjórnlaus; eina virkjunin sem komin var á framkvæmdastig, Hvammsvirkjun, var stöðvuð í sumar því aðdragandinn samræmdist ekki tilskipun Evrópusambandsins. Sjálfstæðisflokkurinn er einhvern veginn búinn að láta vefja sér inn í þá óskiljanlegu þversögn VG að tala í síbylju um orkuskipti – en það má samt ekkert virkja til að hægt sé að skipta um orku.“
Páll bendir á að samkvæmt skoðanakönnunum hafi Samfylkingin farið fram úr Sjálfstæðisflokknum í nær öllum kjördæmum landsins. Forystuhlutverk Sjálfstæðislflokksins sé að tapast:
„Ef við lítum sérstaklega á stöðu Sjálfstæðisflokksins í þessu samhengi er auðvelt að rökstyðja þá staðhæfingu að hún hafi líklega aldrei, í rúmlega 90 ára sögu flokksins, verið verri en einmitt núna. Í síðustu borgarstjórnarkosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn minnsta fylgi sem hann hefur fengið frá stofnun. Í síðustu alþingiskosningum fékk flokkurinn næstminnsta fylgi frá stofnun – og missti forystuhlutverkið í tveimur af þremur landsbyggðarkjördæmum. Raunar munaði innan við hundrað atkvæðum á að flokkurinn missti forystuna í þeim öllum. Í öllum könnunum um langt skeið hefur flokkurinn verið botnfastur í kringum 20% fylgi og Samfylkingin mælist ítrekað miklu stærri. Og það sem kannski er enn alvarlegra fyrir Sjálfstæðisflokkinn er að Samfylkingin hefur mælst stærri í öllum kjördæmum landsins; líka í Suðvesturkjördæmi þar sem menn töldu ekki unnt að hagga forystuhlutverki flokksins.“