fbpx
Miðvikudagur 04.október 2023
Eyjan

Þingmenn meirihlutans sáu rautt þegar Þórhildur Sunna steig í pontu í gær

Eyjan
Fimmtudaginn 14. september 2023 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingmaður Pírata, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, er tilbúinn í þingvetur og mætti segja að hún hafi látið þingmenn meirihlutans sjá rautt þegar hún steig í pontu með stefnuræðu sína á Alþingi í gærkvöldi, en Þórhildur Sunna hefur nú skipt út ljósa hárlitnum fyrir eldrauðan sem átti vel við innihald ræðu hennar.

Hún sagði ákveðið leikrit vera í gangi sem megi kalla „Hin stórkostlegu lífskjör almennings á Íslandi“ en í því leikriti sé því  haldið fram að á Íslandi séu lífskjör best í  heimi, hér sé mesti jöfnuðurinn, besta velferðarríkið, hæstu launin og verðlag með besta móti.

„Verðbólga sé bara tímabundin boðflenna sem fer alveg að fara og kemur örugglega aldrei aftur vegna þess að íslenska krónan er frábær gjaldmiðill sem þarf bara smá stöðugleika og styrka hendi Sjálfstæðisflokksins til að jafna sig. Vondu karlarnir í þessu leikriti eru vanþakkláta launafólkið sem skilur ekki hvað það hefur það ógeðslega gott, þykist ekki sjá veisluna og heimtar enn þá hærri laun. Það er frekjunni í þeim að kenna að Seðlabankinn neyðist til að hækka stýrivexti 14 sinnum í röð“

Þetta leikrit sé stöðugt spilað fyrir landsmenn en leikararnir séu úr röðum fjársterkra og valdamikilla. En á bak við tjöldin blasi raunveruleikinn við. Ísland sé eitt dýrasta land í heimi og þó svo launin séu há þá sé launakostnaður íslenskra fyrirtækja ekki hár í alþjóðlegum samanburði. Hagnaðarhlutfall fyrirtækja sé svo hátt að flest bendi til þess að verðbólgan sé fremur þeim fyrirtækjum að kenna sem hækkuðu verð upp úr öllu valdi í COVID og hafa svo haldið því áfram. Misskipting auðs fer vaxandi og kaupmáttur rýrnar. Tæplega 50 þúsund Íslendingar búi við fátækt á meðan ríkustu 10 prósentin hagnast sem aldrei fyrr.

Ísland er nefnilega velferðarríki fyrir fjármagnseigendur. Hvar annars staðar en á Íslandi fengi Samherji, sem græddi 14,3 milljarða í fyrra á nýtingu á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, líka 110 millj. kr. gjöf frá sömu skattgreiðendum til að skipta um vél í einum bát?

Ríkisstjórnin hafi brugðist því að takast við áhrif sprengingar í  komu ferðafólks og áhrifa þess á húsnæðismarkað og verðlag. Ríkisstjórnin hafi strandað á eigin stefnuleysi og formenn séu komnir í björgunarbátana og rói sitt í hvora áttina til að fela hlut ríkisstjórnarinnar í hækkun verðbólgu, en ríkisstjórnin hafi eytt gífurlegum peningum í að auka eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði en lítið sem ekkert gert til að auka framboðið. Á meðan reyni ríkisstjórnin að sannfæra fólkið í landinu að það megi ekki hækka skatta á þá sem mest græða, að það megi ekki skattleggja þá sem keyra áfram þensluna og verðbólguna, það megi alls ekki því það myndi draga úr samkeppnishæfni Íslands.

„Samkeppni, já, það er nú eitt. Í þessu leikriti er nefnilega frjáls markaður á Íslandi með öflugri og heilbrigðri samkeppni sem tryggir hag neytenda. Samkeppniseftirlitið er svo í liði með vanþakkláta launafólkinu, vonda fólkinu, vonda karlinum í þessu leikriti. Það er einn helsti óvinur hins óskeikula heilaga markaðar og þarf að hverfa enda þvælist það bara fyrir góðu strákunum sem þurfa að græða á daginn og sigla burt með gámafylli af peningunum okkar á kvöldin. Einhvers staðar þurfa peningarnir jú að vera.

Forseti. Þetta er orðið mjög þreytt leikrit. Drögum tjöldin frá og loftum út.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Krefst þess að forsætisráðherra fordæmi misnotkun VG-liða á hatursorðræðu – „Vinstri grænir vilja fyrst og fremst auka eigin völd“

Krefst þess að forsætisráðherra fordæmi misnotkun VG-liða á hatursorðræðu – „Vinstri grænir vilja fyrst og fremst auka eigin völd“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru