Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og segir að samkvæmt frumvarpinu verði gistináttaskattur tekinn upp á nýjan leik og sé reiknað með að tekjur af honum verði 1,5 milljarðar. Einnig eru uppi áform um að breyta gildissviði skattsins og leggja hann á í tengslum við komur skemmtiferðaskipa.
Lagt er til að mat á tekjum af erfðafjárskatti hækki um 3,5 milljarða en það byggist á mikilli hækkun erfðafjárskatts á þessu ári og hefur það áhrif á áætlun næsta árs.
Gert er ráð fyrir að útgjöld vegna málefna útlendinga verði rúmlega 15 milljarðar og hækki um 7 milljarða á milli ára. Þessi útgjöld eru meðal annars vegna fæðis- og húsnæðiskostnaðar, endurgreiðslur til sveitarfélaga og vegna samninga um samræmda móttöku flóttafólks.
24 milljarðar verða settir í byggingu nýja Landspítalans og er það 10,5 milljörðum meira en á þessu ári. Útgjöld til heilbrigðismála aukast um 14 milljarða að raungildi á milli 2023 og 2024.