Sjálfstæðisflokkurinn sat samfellt á valdastóli árin 1991–2009, lengst af þeim tíma, eða árin 1995–2007 í samstarfi við Framsóknarflokkinn. Því fór fjarri að jafnræði væri með flokkunum, enda stórveldistími Davíðs Oddssonar. Í alþingiskosningunum 1999 hlutu sjálfstæðismenn 40,7% atkvæða á landsvísu (og raunar 45,7% í Reykjavík þar sem það var mest) en framsóknarmenn töpuðu aftur á móti þremur þingsætum frá kosningunum fjórum árum fyrr. Flokkur þeirra fór enn halloka í sambúðinni og september 2002 lét Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, þau ummæli falla í helgarviðtali í DV að Framsóknarflokknum hefði
„hugnast það vel að vera eins konar hjálpartæki Sjálfstæðisflokksins, vera kúgaður þar og auðmýktur í samskiptum, stundum daglega. Ég neita því ekki að ég hef stundum velt því fyrir mér hvort langlundargeð Halldórs [Ásgrímssonar] sé óþrjótandi. Hann hefur með mjög skörulegum hætti fyrir hönd síns flokks sett Evrópuspurninguna á dagskrá en lætur það samt líðast að forsætisráðherrann snoppungar hann eins og ótíndan skóladreng og segir þjóðinni að það sé ekkert að marka orð utanríkisráðherrans.“
Össur kvaðst myndu undireins yfirgefa ríkisstjórn fengi hann slíka „snoppunga“ en hann hefði sjálfur frá svipaðri reynslu að segja:
„Ég var ungur ráðherra í ríkisstjórn fyrir flokk sem var — eins og Framsóknarflokkurinn núna — auðmýktur og beygður aftur og aftur síðasta árið sem við vorum í ríkisstjórn. Það skildi eftir ákaflega óþægilegt bragð og ég mun aldrei ganga í gegnum slíkt aftur. Það var alveg á mörkunum, fannst mér, að við félagarnir, ráðherrar Alþýðuflokksins, héldum sjálfsvirðingunni í þeim darraðardansi.“
Nú er öldin önnur. Nú eru það ekki samstarfsflokkar sjálfstæðismanna sem eru auðmýktir og niðurlægðir heldur Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur. Brynjar Níelsson, fyrrv. alþingismaður, gerði þær píslir að umtalsefni í grein á vefritinu Viljanum í vikunni sem leið. Sjálfstæðismenn létu það yfir sig ganga að ráðherra Vinstri grænna stöðvaði heila atvinnugrein með einu pennastriki, andartaki áður en vertíð skyldi hefjast. En í stað þessa að stinga niður fæti heyrðust aðeins „ámótleg andmæli“ frá örfáum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, eins og Brynjar orðar það.
Brynjar nefndi enn fremur að lítið sem ekkert hefði gerst í orkumálum á sex ára valdaskeiði undir forystu Vinstri grænna sem hefðu fagnað innilega þegar „umboðslaust fólk út í bæ felldi virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun úr gildi“. Vinstri grænir væru á móti öllum virkjunum og toguðu í alla hemla sem fyndust. Brynjar tíndi fleira til. Málefni hælisleitenda væru í megnum ólestri. Engin móttökustöð væri fyrir fólk sem sækti um hæli og fólki hleypt inn í landið
„eftirlitslaust án þess að við vitum jafnvel hver viðkomandi er. Fæstir uppfylla skilyrði til að teljast flóttamenn og þegar umsókn hefur verið hafnað finnast þeir ekki eða íslenskir aktivistar koma í veg fyrir að hægt sé að framfylgja úrskurðum“
Þar, líkt og í virkjanamálunum, hefði valdið til að taka ákvarðanir verið fært til umboðslausra manna úti í bæ. Brynjar sagði sjálfstæðismenn hafa takmarkaða þolinmæði fyrir „stefnuleysi og innantómri froðu“. Menn gætu ekki haldið þessu samstarfi óbreyttu bara því þeim væri svo annt um stólana.
Brynjar bætti um betur í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins og lét meðal annars svo um mælt að sér fyndust engin átök eiga sér stað á Alþingi um hugmyndafræði, sýn og stefnu. Þingið snerist aðallega um „upphlaup og yfirlýsingar um að pólitískir andstæðingar séu vondir og óheiðarlegir. Það er mjög þreytandi pólitík.“ Þá væru reynsla og þekking ekki lengur lykilatriði í pólitíkinni heldur ytri ásýnd. Sjálfstæðismenn töluðu ekki nægilega fyrir sinni stefnu, heldur flytu bara með.
Ég tek undir með Brynjari, þó svo að gagnrýni hans hefði mátt koma jafnskýrt fram meðan Jón Gunnarsson sat enn á sínum stóli. Sjálfstæðisflokkurinn fær engu framgengt í stjórnarsamstarfinu — ekki einu sinni í ríkisfjármálunum þar sem útgjöldin stóraukast með hverju árinu — á kostnað komandi kynslóða, því ekki hillir undir hallalaus fjárlög. Sú spurning er löngu orðin áleitin hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn eigi yfir höfuð að vera í ríkisstjórn ef hann vinnur ekki að — hvað þá talar fyrir — eigin stefnumálum. Heimildin birti á föstudaginn var nýjustu könnun Prósents á fylgi flokkanna. Fengi Sjálfstæðisflokkurinn 16,1% ef kosið yrði nú en aldrei hefur stuðningur við flokkinn mælst jafnlítill. Kjósendur flokksins hafa fengið meira en nóg.
Mér hefur á seinni árum fundist æ algengara að kjörnir fulltrúar sjálfstæðismanna líti svo á að erindi þeirra í stjórnmálum sé umfram allt að milda áhrif vinstriflokkanna í stað þess að berjast í nafni eigin hugmyndafræði. Og stundum finnst mér sem hugmyndafræðin hjá sjálfstæðismönnum birtist vart í öðru en baráttunni fyrir áfengi í matvöruverslanir (sem samt er verðugt mál út af fyrir sig). Við bætist að andstaða kjörinna fulltrúa flokksins er jafnan máttlítil þegar skýr hugmyndafræðilegur ágreiningur ætti að vera lýðum ljós.
Brynjar kemur í áðurnefndu viðtali inn á rétthugsunina í samtímanum, menn taki sér vald til að refsa fólki fyrir það sem það telur vera rangar skoðanir. Vandinn væri sá að borgaralega sinnað fólk hörfaði undan ofstækinu og þar með fengju spellvirkjarnir að vinna samfélaginu skaða óáreittir. Menn yrðu að stinga niður fæti og leggja til atlögu við ofstækisöflin og eitthvað væri farið að örla á því sem betur fer.
Brynjar kemur vel orðum að vatnaskilum sem orðið hafa meðal sjálfstæðismanna síðustu vikur. Þannig er mál með vexti að hinn almenni sjálfstæðismaður hefur talsvert meira langlundargeð til að bera félagsmenn í vinstriflokkunum (þeir eru reyndar ekki margir eftir í Vinstri grænum). Viðkvæði sjálfstæðismanna gagnvart stjórnarsamstarfinu síðustu árin hefur gjarnan verið eitthvað á þá leið að láta það yfir sig ganga að fá stefnumál þeirra flokks hljóti brautargengi og þess í stað sé dekrað við öndverð sjónarmið. Þetta séu bara fórnir sem verði að færa í stjórnarsamstarfi — en nú er runnið upp fyrir hinum harða kjarna flokksmanna að þetta gengur ekki lengur; flokkurinn á ekkert erindi í þetta samstarf.
Orð Össurar fyrir 22 árum um hinn kúgaða og auðmýkta formann Framsóknarflokksins eiga í reynd mun betur við um forystu Sjálfstæðisflokksins nú. En á ráðherrum hans virðist ekkert fararsnið þrátt fyrir vanmáttug köpuryrði formannsins í garð Vinstri grænna. Forsætisráðherrann og formaður Vinstri grænna veit sem er að hann þarf ekkert að óttast slík ummæli, þau eru bara ætluð til heimabrúks gagnvart bálreiðum flokksmönnum. Langlundargeð formanns Sjálfstæðisflokks virðist óþrjótandi. Segir mér þó hugur að hinn almenni flokksmaður muni ekki sitja undir kúgun og auðmýkingu til frambúðar.