fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Tjáningarfrelsið og fjötur ósjálfræðisins

Eyjan
Fimmtudaginn 8. júní 2023 13:42

Þorsteinn Siglaugsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ef ég segði opinberlega það sem ég er að segja við ykkur núna, þá yrði ég umsvifalaust rekinn úr vinnunni,“ sagði kunningi minn fyrir skömmu, sérfræðingur hjá stóru fyrirtæki. Það sem var til umræðu tengdist ekki einu sinni starfi hans neitt. En krafan var sú að starfsmenn tækju ekki þátt í umræðu á opinberum vettvangi. Þessi krafa er nánast algild. Sá sem starfar sem sérfræðingur á einhverju sviði hjá viðurkenndu fyrirtæki eða stofnun, eða jafnvel bara á eigin vegum, á einfaldlega ekki að tjá sig á opinberum vettvangi um eigin skoðanir. Sá sem brýtur þessa reglu heldur ekki starfi sínu eða viðskiptavinum lengi. Fólkið sem velst til slíkra starfa er gjarna meðal best menntaða og greindasta fólksins og gæti lagt svo margt mikilvægt til umræðunnar um málefni samfélagsins. En raddir þess mega ekki heyrast.

Vítahringur ósjálfræðisins

“Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á. Ósjálfræði er vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra. Maðurinn á sjálfur sök á þessu ósjálfræði.” Þannig farast heimspekingnum Immanúel Kant orð í frægri grein árið 1784, Svar við spurningunni: “Hvað er upplýsing?”, sem út kom í íslenskri þýðingu í Skírni, 1993. Forsenda upplýsingarinnar að mati Kants er fullt og óskorað tjáningarfrelsi, ” … og þá er átt við frelsið í sinni skaðlausustu mynd, þ.e.a.s. frelsi til óskertrar notkunar skynseminnar á opinberum vettvangi”. Til að frjáls umræða eigi sér stað verður að tryggja tjáningarfrelsi með lögum, en jafnframt verður að vinna bug á inngrónum ótta fólks við að nota eigið hyggjuvit. Kant rekur þetta ástand til leti og ragmennsku, sem orðið hafi til þess “hve öðrum reynist hægt um vik að gerast forráðamenn meðbræðra sinna.” Forráðamennirnir hræða fólk frá tilraunum til að hugsa sjálfstætt segir hann, og heldur áfram: “Það reynist því hverjum einstökum manni erfitt að losa sig úr viðjum þess ósjálfræðis sem orðið er allt að því eðlislægur þáttur í fari hans. Hann er meira að segja farinn að kunna vel við það og er í raun og veru ófær um að nota eigið hyggjuvit, þar sem honum hefur aldrei gefist kostur á því.”

Forráðamennirnir sem Kant talar um eru ekki aðeins stjórnvöld, heldur einnig embættismenn og sérfræðingar af ýmsum toga, til dæmis liðsforingjar, skattheimtumenn, prestar og læknar. Þeir viðhalda ósjálfræði almennings með því að hræða hann frá því að hugsa sjálfstætt. Til séu einstaklingar, einnig meðal sérfræðinganna, sem hugsa sjálfstætt, en einnig þeir séu færðir undir ok ósjálfræðisins: “Það undarlega við þetta er, að fólkið sem þeir færðu undir þetta ok, þvingar nú þá sjálfa til þess að bera það áfram, ef fólkið er eggjað til þess af öðrum úr röðum forráðamanna sinna, sem sjálfir eru ófærir um alla upplýsingu.”

Meirihluti sérfræðinganna leitast við að hindra að almenningur hugsi sjálfstætt. Almenningur forðast þá sjálfstæða hugsun og krefst leiðsagnar. Sérfræðingarnir hafa þá ekki önnur úrræði en að festast í dogmatískum skoðunum, því víki þeir frá þeim þvingar almenningur þá til fylgis við þær aftur. Þannig viðheldur ósjálfræðið sjálfu sér.

“Sjálfgerðir fjötrar eru traustastir fjötra”

Lýsing Kants á því ástandi sem upplýsingarstefnunni var beint gegn minnir óþægilega á ástandið nú, en þróunin nú er því miður í öfuga átt. Ósveigjanlegar kennisetningar ná æ sterkari fótfestu, tjáningarfrelsið á undir högg að sækja í löggjöf flestra ríkja, sér í lagi þeirra sem í orði teljast til hinna frjálslyndustu. Þeir sem andæfa kennisetningunum og kalla eftir rökræðu eru gjarna útilokaðir og þaggað niður í þeim. Háskólarnir hafa breyst í andhverfu sína; í stað þess að vera öruggt athvarf frjálsrar rökræðu eru þeir nú fremur athvarf þeirra sem hatast við alla rökræðu. Í stað heitstrengingarinnar sem oft er eignuð Voltaire; “þótt ég fyrirlíti skoðanir þínar mun ég fórna lífinu fyrir rétt þinn til að tjá þær” kemur heitstrenging 21. aldar: “Ef skoðun þín er andstæð minni er hún hatursorðræða og ég mun sjá til þess að þú farir í fangelsi”.

Við reyrumst nú sífellt fastar í fjötur ósjálfræðisins. Honum svipar til fjötursins Gleipnis, sem einn dugði til að fjötra Fenrisúlf; nánast ósýnilegur, líkt og nýju fötin keisarans, og ofinn úr fjarstæðum; “dyn kattarins, skeggi konunnar, rótum bjargsins, sinum bjarnarins, anda fisksins og hráka fuglsins”. Kannski hringja slíkar fjarstæður einhverjum bjöllum þegar við horfum á umræðuna um sum helstu hitamál dagsins? Og fjöturinn höfum við sjálf ofið: “Sjálfgerðir fjötrar / eru traustastir fjötra” segir skáldið Sigfús Daðason í Borgum og ströndum, “… hálsinn sem sjálfkrafa laut undir okið / var tryggilegast beygður.”

Krafan um samhljóm er krafa um kyrrstöðu

Lykillinn að raunverulegri upplýsingu er sá að dómi Kants að við gerum greinarmun á tjáningu á opinberum vettvangi og á einkavettvangi: “Með notkun skynseminnar á opinberum vettvangi á ég við að sérfróður maður beiti skynsemi sinni frammi fyrir almenningi …” segir Kant. “Með notkun skynseminnar á einkavettvangi á ég við þá notkun skynseminnar sem þeim hinum sama er leyfileg í sinni borgaralegu stöðu eða embætti sem honum hefur verið falið.” Presturinn verður vissulega að ganga út frá kennisetningum kirkjunnar í predikunarstólnum: “Sem sérfróður maður hefur hann hinsvegar frjálsar hendur, og jafnvel má telja það köllun hans, að setja fram á opinberum vettvangi yfirvegaðar og velviljaðar hugleiðingar sínar um það sem ábótavant má teljast við kennisetningar kirkjunnar …” Fullt og óskorað tjáningarfrelsi sérfræðinganna á opinberum vettvangi er þannig grundvöllur upplýsingarinnar; aðeins í krafti þess geti þeir rofið þann fjötur sem ósjálfræðið leggur, ekki aðeins á þá heldur á allan almenning.

Þegar við horfum á þá ritskoðun, útilokun og hatursáróður sem gjarna var beitt gegn þeim sem efuðust um kennisetningar kóvíttímans, sjáum við glöggt vítahringinn sem Kant lýsti. Við sjáum hvernig sérfræðingarnir þröngva tilteknum viðhorfum upp á almenning, sem tekur þau upp á sína arma og líður engin frávik. Rótin er sú að við krefjumst þess af sérfræðingunum að meðal þeirra sé samhljómur. En með því krefjumst við kyrrstöðu, því vísindi og fræði snúast ekki um samhljóm, þau grundvallast á ágreiningi um skoðanir og rök, á sífelldum efa um það sem haft er fyrir satt.

Tjáningarfrelsið er forsenda framfara. En atlögurnar að því verða sífellt harðari og telja má víst að aukin höft á tjáningarfrelsi í nafni baráttu gegn “hatursorðræðu” og “rangupplýsingum”, muni enn styrkja þennan hættulega vítahring. Kant varar raunar við því að án sannrar upplýsingar fái frjálst lýðræðissamfélag aldrei náð fótfestu til frambúðar. Kannski er það einmitt þetta sem við erum að sjá nú.

Greinarmunur hins opinbera og einkalega er grundvallaratriði

Það eru 240 ár síðan Immanúel Kant benti á mikilvægi greinarmunarins á þeim skoðunum sem settar eru fram á opinberum vettvangi og á einkavettvangi. Samt er það svo enn, að margt okkar best menntaða og greindasta fólk er útilokað frá þátttöku í samfélagsumræðunni. Þau fáu sem neita að beygja sig undir okið mæta oftar en ekki árásum og útilokun, lífsviðurværið er jafnvel tekið frá þeim. Hugrekki og sjálfstæð hugsun eru refsiverð, en heigulsháttur og blind hlýðni ríkulega verðlaunuð. Í augum forráðamannanna er frjáls tjáning stórhættuleg, á hana þarf að leggja fjötur líkt og á Fenrisúlf forðum, ósýnilegan fjötur ofinn úr fjarstæðum. Og við beygjum okkur sjálfviljug undir okið.

Sérfræðingarnir brugðust á kóvíttímanum, ekki í fyrsta, og örugglega ekki í síðasta sinn. Þeir litu viljandi framhjá augljósum afleiðingum þess að leggja samfélagið á hliðina, sem við upplifum nú á eigin skinni, þeir ýktu vísvitandi margfalt ógnina sem stafaði af veirunni til að skapa ofsahræðslu meðal almennings, og þeir reyna enn sitt besta til að fela gögn um öfug áhrif bólusetningaherferðanna, sem nú liggja ljós fyrir. En við verðum samt að átta okkur á að þessir sérfræðingar eru ekki allir sérfræðingar. Því meðan þeir sem tjáðu sig fylgdu í blindni fyrirskipunum stjórnvalda, sem þeir áttu raunar sjálfir ríkan þátt í að móta og viðhalda, þá efuðust margir í hljóði. En þeir þögðu, til að forðast árásir og atvinnumissi.

Samkvæmt Kant er það þöggun sérfræðinganna sem viðheldur ósjálfræðinu og hindrar þannig upplýsinguna; það er því í gegnum fullt og óskorað tjáningarfrelsi þeirra sem leiðin til upplýsingar liggur. Sé rökleiðsla Kants gild er það mikilvægasta verkefni samtímans að rjúfa þennan fjötur. Mikilvægasta spurningin er þá, hvaða leiðir eru færar til þess.


Greinin er byggð á fyrirlestri höfundar á ráðstefnunni “Endalok þjóðveldis – endalok lýðveldis” sem haldin var í Reykholti 3. júní. Hún birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. júní og samdægurs á ensku á vef Brownstone Institute.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Enn sérstakt áhættuálag á Ísland hjá erlendum fjárfestum – krónan þjóðhagslegt vandamál?

Guðjón Auðunsson: Enn sérstakt áhættuálag á Ísland hjá erlendum fjárfestum – krónan þjóðhagslegt vandamál?
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Rétthugsun?

Óttar Guðmundsson skrifar: Rétthugsun?