Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, hefur lagt fram fyrirspurn til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem tengist málefnum Kristjáns Hreinssonar, en Endurmenntun rifti snögglega samstarfi við hann vegna umdeilds pistils sem hann skrifaði um trans-málefni.
Sigurjón óskar eftir skriflegu svari ráðherra við fyrirspurn sinni en hann spyr hvort stjórnendum Háskóla Íslands sé heimilt að segja upp starfsmönnum vegna tjáningar persónulegra skoðana þeirra.
Fyrirspurnin er í fjórum liðum og er orðrétt eftirfarandi:
1. Er stjórnendum Háskóla Íslands heimilt að segja upp starfsmönnum eða rifta verktakasamningum við leiðbeinendur vegna tjáningar persónulegra skoðana þeirra?
2. Hefur starfsmönnum eða leiðbeinendum í verktöku við Háskóla Íslands eða Endurmenntun Háskóla Íslands verið sagt upp vegna tjáningar persónulegra skoðana sinna?
3. Taka stjórnendur Háskóla Íslands eða Endurmenntunar Háskóla Íslands tillit til skoðana eða persónulegra skrifa starfsmanna og verktaka þegar teknar eru ákvarðanir um ráðningu þeirra, endurráðningu eða uppsögn?
4. Hvaða skoðanir eða tjáning þeirra geta haft áhrif á ráðningu eða samningssamband starfsmanna og verktaka við Háskóla Íslands eða Endurmenntun Háskóla Íslands?