fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Ingibjörg gagnrýndi slaufunarmenningu í þingræðu – „Vopn sem hefur snúist í höndunum á okkur“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 8. júní 2023 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„En slaufunarmenning er vopn sem hefur snúist í höndunum á okkur og grafið undan trausti og samkennd í samfélaginu með því að skapa ógn og ala á ótta. Staða sem er hvorki lausn né sigur fyrir neinn,“ sagði Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gærkvöld.

Ingibjörg ræddi málið við DV í morgun og segist hafa fengið mjög góð viðbrögð við ræðunni. Rætt er við Ingibjörgu neðar í fréttinni.

Framan af ræðu sinni lofaði Ingibjörg metoo byltinguna og sagði umræðuna sem skapast hefði um kynferðislegt ofbeldi hafa verið tímabæra:

„Metoo boðaði breytingar til hins betra. Í henni fólust róttækar og nauðsynlegar umbætur hvað varðar viðhorf og menningu og opnaði augu okkar fyrir því hversu algengt vandamálið er  í öllum lögum samfélagsins. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er ein af hverjum þremur konum beitt kynferðisofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni. Of lengi höfðu konur fundið fyrir máttleysi samfélagsins og löggæslu- og ákæruvaldsins í þeirra málum ef þeim yfir höfuð var trúað. Reiði yfir óásættanlegum aðstæðum og eldmóður samstöðunnar kyntu undir byltingu sem átti eftir að breyta heiminum.“

Ingibjörg rakti síðan hvernig þolendur hefðu skilað skömminni með opinni tjáningu á samfélagsmiðlum og hvert málið á eftir öðrum hefði komist í hámæli. Umbætur hefðu átt sér stað innan löggæslu- og dómkerfisins en enn væri langt í land traust á löggæslu- og ákæruvaldinu hefði verið endurheimt.  „Rannsóknar- og ákærutími er rúmt ár að meðaltali, ef kæran lifir það lengi. Það er því vel skiljanlegt hvers vegna þolendur leita annarra leiða.“

Þolendur missa stjórn á atburðarásinni og dómstóll götunnar tekur yfir

Ingbjörg lýsti yfir þungum áhyggjum af þeirri þróun sem átt hefur sér stað í kjölfar metoo-byltingarinnar og þeirri slaufunarmenningu sem hefði tekið við. Samfélagsmiðlaumræða um meint brot geti tekið á sig mjög skaðlegar myndir og þolendur sem tjái sig missi stjórn á atburðarásinni. Meintir gerendur fari mjög illa út úr fárinu:

„Samfélagið hafnar þeim, vinnustaðir hafna þeim, skólar hafna þeim og jafnvel vinir og vandamenn hafna þeim. Grimmd umræðunnar er slík að bæði stjórnendur vinnustaða og  -skóla veigra sér við að beita faglegum vinnubrögðum jafnvel þó eingöngu sé um orðróm að ræða þar sem atvik eru umdeild og óljós.“ 

Þá segir hún að dómur samfélagsins yfir ásökuðum mönnum sé sá sami þó að brotin séu mismunandi. Segir hún slaufunarmenningu vera jafnvel farna að breiðast út á meðal barna:

Dómur samfélagsins er almennt sá sami þrátt fyrir að brotin séu mismunandi. Útskúfun úr samfélaginu og fá sem engin tækifæri til endurkomu inn í samfélagið. Slaufun beinist ekki eingöngu gagnvart þekktum einstaklingum, hún er því miður í öllum lögum samfélagsins. Það sem sárast er að börnin og ungmennin okkar fylgja fordæmi sinna fyrirmynda ,taka í síauknu mæli upp þetta vopn í samskiptum og beita útskúfun og jafnvel líkamlegu – eða stafrænu ofbeldi. Við heyrum jafnvel af ásökunum í garð ungs fólks á grunnskólaaldri, sem hefur varla hafið líf sitt, fari fjölgandi. Slík mál valda bæði meintum gerendum og þolendum miklum skaða.

Ingibjörg sagði að slaufun hefði mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þá sem fyrir henni verða og þeir væru útskúfaðir úr samfélaginu. Þeir misstu af samfélaginu og samfélagið missti af þeim. Hún kallar eftir annarri nálgun í umræðu um kynferðisbrot. Jafnframt sagði hún:

„Við þurfum að axla ábyrgð á því sem við segjum, okkar svæði á samfélagsmiðlum er opið öllum og fjölmiðlar grípa gjarnan efnið, afrita og líma á sínum síðum án ábyrgðar.“ 

Viðkvæm mál sem verði að ræða

Ingibjörg segir þessa umræðu vera viðkvæma, hún sjái sig knúna til að taka hana og að hún sé skuldbundin æsku landsins til að takast á við málefnið. Heyra mátti á ræðu hennar að í vændum væru aðgerðir til að stuðla að breyttri nálgun í umræðu um kynferðisbrot:

„Ég hef átt samtöl við fjölda aðila bæði innan og utan stjórnmála og við ráðherra ólíkra málaflokka. Við ætlum að taka höndum saman, kalla alla aðila til fundar næstkomandi haust um breytta nálgun í þessum málum og semja handrit til framtíðar þar sem raddir allra fá að heyrast. Með skýrri umgjörð getum við stuðlað að því mikilvægasta sem er mannvænt samfélag þar sem öryggi fólks er í fyrirrúmi.“

Skilaboðin streymdu í gærkvöld

Ingibjörg segist í viðtali við DV hafa fengið mikil og góð viðbrögð við ræðunni. „Fólk byrjaði strax í gærkvöld að senda mér skilaboð og eingöngu jákvæð. Þökkuðu mér fyrir að hafa tekið þessa þörfu umræðu.“

Hún undirstrikar mikilvægi þess að þolendur hafi rödd og geti sagt frá. „Hins vegar er það sem oft gerist eftir að þolandi hefur tjáð sig, að atburðarásin fer úr höndum þolandans, sagan breytist, mikil dómharka einkennir umræðuna og þetta verður ekki til þess að þolanda líði betur og þetta verður ekki heldur til þess að meintur gerandi fái betrun. Slaufunarmenning er hugsuð til að jákvæðu áhrifin verði meiri en neikvæðu áhrifin en sú hefur ekki verið raunin.“

Ingibjörg segir sönnunarbyrði vera gífurlega þunga í kynferðisbrotamálum en það sé mikilvægt að þolendur geti komið strax fram og sagt frá því sem þau hafa orðið fyrir.

„Síðan er það dómskerfið, málsmeðferðin er þung og tekur langan tíma. En dómstóll götunnar hefur tekið völdin í þessum málum sem eru eins misjöfn og þau eru mörg. Ég ætla ekki sjálf að setjast í dómarasæti en vil benda á að við þurfum að líta í eigin barm, dómstóll götunnar er vopn sem er að snúast í höndunum á okkur og er engum til gagns. Eins og ég upplifi þetta þá hef ég einna mestar áhyggur af börnum og ungmennum sem eru farin að spegla þessa menningu, í grunnskólumn, framhaldsskólum, íþróttalífinu og víðar.“

Óharðnaðir unglingar fari yfir mörk án þess að gera sér grein fyrir því

Ingibjörg bendir á að óharðnaðir unglingar, sem eru að stíga sín fyrstu skref í nánum kynferðislegum samskiptum, hafi haft óheftan aðgang að alls kyns myndefni sem getur brenglað sýn á raunveruleikann. „Svo þegar þessi samskipti verða náin og þau fara haga sér í samræmi við það sem þau hafa horft á þá stíga þau oft yfir mörk án þess að átta sig á þessu. Þegar maður síðan sest niður með þessum einstaklingum og bendir þeim á hvað þeir hafa gert þá er þeim oft illa brugðið,“ segir hún og bendir  á nauðsyn þess að ungmenni sem fara yfir mörk fái tækifæri til að horfast í augu við gjörðir sínar og bæta fyrir án þess að verða fyrir dómhörku og útskúfun úr nærsamfélagi sínu.

„Í ræðunni var ég ekki endilega að vísa til þessara þekktu einstaklinga sem hafa verið í umræðunni vegna meintra brota heldur eru þetta mál sem eru að koma upp í öllum lögum samfélagsins, til dæmis á vinnustöðum, sem vita ekki hvernig á að taka á svona málum en treysta sér ekki til að hafa fólk í vinnu sem verður fyrir ásökunum án þess að málin séu rannsökuð, eða að nokkuð liggi fyrir um sekt þeirra.“

Ingibjörg bendir á að metoo-tengd mál séu sjaldan svarthvít heldur oft á mjög gráu svæði. Aðspurð segist hún vilja stuðla að því að þolendur fái annan vettvang en þá stjórnlausu samfélagsmiðlaumræðu sem hafi verið í gangi.

„Þetta á alls ekki að vera flokkspólitískt mál. Þess vegna hef ég rætt við forsætisráðherra, barna- og menntamálaráðherra, ráðherra háskóla og atvinnumálaráðherra, um að kalla saman fund í  haust með öllum helstu aðilum sem láta sig þessi mál varða. Það sem ég vona að komi út úr því er að við mótum nýjan vettvang til að koma þessum málum í sanngjarnan farveg.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna