fbpx
Þriðjudagur 26.september 2023
Eyjan

„Lítið annað en hlandvolgt og illa lyktandi piss í lakkskóinn“

Eyjan
Miðvikudaginn 31. maí 2023 18:00

Rétt er að geta þess að myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birgir Örn Guðjónsson, lögreglumaður og betur þekktur sem Biggi lögga, segir óþolandi að fylgjast með ráðamönnum og hátt settum embættismönnum íslenska ríkisins predika ofan í landsmenn að sætta sig við lægri launahækkanir og fara í færri utanlandsferðir en ella, allt til að hjálpa til við að vinna bug á verðbólgunni, en á sama tíma séu þessir sömu predikarar ekki að fara eftir eigin tilmælum.

Biggi er nefnilega ekki bara lögga heldur líka samfélagsrýni og hafa pistlar hans oft vakið töluverða athygli. Hann ritar á Facebook í dag að líklega hefði Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, betur sleppt því að skamma landsmenn fyrir utanlandsferðir og skella sér svo sjálfur í slíka, en seðlabankastjóri er sem stendur staddur erlendis eftir að til hans sást á flugvellinum. Unnusta hans hefur birt af sér myndir frá sólskininu í Króatíu og telja flestir að Ásgeir sé þar ekki langt undan.

Skammar þjóðina fyrir að vilja gera það sama

„Auðvitað fer seðlabankastjóri til útlanda í frí. Í sjálfsbjargarviðleitni hafa sumarþyrstir Íslendingar með alvarlegan d-vítamínskort eðlilega legið dreymandi á netsíðunum í leit að geðhjálpar fríi úr grámyglunni. Seðlabankastjórinn hefði því að sjálfsögðu átt að sleppa því að skamma þjóðina fyrir að vilja gera það sama og hann vill sjálfur. Við lifum á afskekktri eyju norður í ballarhafi og fólk mun ferðast, jafnvel þótt það hafi ekki efni á því.“

Vissulega þurfi að vinna bug á verðbólgunni en slíkt þurfi að gera undir réttum formerkjum frekar en að hækka vexti úr öllu valdi til að koma í veg fyrir að þeir tekjulægri geti aflað sér fasteigna. Slíkt muni bara leiða til þess að þegar vextir svo lækka aftur muni þeir sem þurftu að bíða hlaupa strax á næstu fasteignasölu og þar með verði verðbólgan keyrð af stað aftur.

„Stíflugerð á húsnæðismarkaði er samt lítið annað en hlandvolgt og illa lyktandi piss í lakkskóinn. Þessi skítredding með því að reyna að binda húsnæðismarkaðinn með teygju er óþolandi fyrir alla.“

Hærri vextir leiði ekki bara til þess að húsnæðismarkaðurinn kólni heldur eins til þess að þeir sem ekki geta keypt, neyðast til að leigja. Hækkandi vextir á húsnæðislánum skili sér engu að síður til þessara aðila í hærri leigu, auk þess sem eftirspurn verður umtalsmeiri en framboð.

„Allir tapa. Nema bankinn. Að sjálfsögðu.“

Hlýdd til hlýðni og sagt að þegja

Eins sé galið að ekki hafi verið sett þak á launahækkanir ráðamanna, þeirra sömu og tilkynntu almenningi að þeir yrðu að sætta sig við minna en þeir vildu í ljósi aðstæðna. Ráðamenn þurfi að átta sig á því að þeir séu, eftir sem áður, hluti af sama samfélagi og aumur pöpullinn. Eins bendir Birgir á að það komi heldur ekki vel út að á meðan almenningur berst í bökkum sökum vaxta og verðbólgu hafi stjórnvöld ákveðið að halda risasamkomu fyrir leiðtoga heimsins, með tilheyrandi veseni og kostnaði. Hafi fundurinn ekki verið merkilegri en svo að maður stundarinnar, sjálfur forseti Úkraínu, hafi kosið að vera heldur heima.

„Það er magnað að segja almúganum að halda að sér höndum en halda um leið dýrustu sýningu Íslandssögunnar í hans boði.“

Það sé niðurdrepandi fyrir almenning að heyra að lausnin á efnahagsástandinu sé alfarið á okkur. Ef almenningur bara fórni sér, verði allt betra. .

„Það eru tvær þjóðir í þessu landi og þið vitið hver á að fórna sér. Það er orðið pínu þreytt.“

Í ljósi þessa ættu ráðamenn eins ekki að þurfa að furða sig á því vantrausti sem þjóðin ber til þeirra. Enn og aftur eigi að senda reikninginn til þeirra sem ekki eigi fyrir honum.

„Auðvitað er fólk reitt og fullt af vantrausti. Heimilin eru hýdd til hlýðni og sagt að halda sig á mottunni sem stjórnvöld sitja sveitt við að vefa í stað þess að vinna að raunverulegum lausnum. Við höfum öll verið hér áður. Við þekkjum þetta handrit. Því miður virðumst við vera með ráðamenn sem þora ekki öðru en að senda reikninginn á þá sem eiga ekki fyrir honum. Það er óþolandi. En samt kannski örlítið skárra ef við gerum það af sólbekk á Tene eða úr brúðkaupi á Ítalíu. Auðvitað.“

Skilaboð Bigga löggu eru því nokkuð skýr. Ljóst sé að ráðamenn séu meira en til í að taka upp veskið þegar það varðar þeirra eigin hagsmuni, eða fyrir pólitískt tildur, enda líti þeir svo á að það sé á öðrum, en ekki þeim að bæta úr stöðunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Vilhjálmur vill efla rannsóknir á notkun hugvíkkandi efna í lækningaskyni

Vilhjálmur vill efla rannsóknir á notkun hugvíkkandi efna í lækningaskyni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jakob Frímann: Látum útlenska ferðamenn borga fyrir hraðlest milli Reykjavíkur og Keflavíkur – fjármögnum innviði með því að láta notendur greiða

Jakob Frímann: Látum útlenska ferðamenn borga fyrir hraðlest milli Reykjavíkur og Keflavíkur – fjármögnum innviði með því að láta notendur greiða