fbpx
Fimmtudagur 01.júní 2023
Eyjan

Tollfrelsi Úkraínu: Ólafur spyr hvort Bjarni ætli að lúffa undan hagsmunaðilum í landbúnaði

Eyjan
Föstudaginn 26. maí 2023 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 31. maí lýkur tollfrelsi hér á landi á innfluttu vörum frá Úkraínu. Í gildi eru bráðabirgðaákvæði í tollalögum sem fellir niður tolla af öllum vörum frá Úkraínu en ákvæðið var sett inn í lög síðastliðið vor að tillögu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra en hann flutti frumvarp um málið sem var samþykkt. ESB og Bretland hafa framlengt slíkt tollfrelsi, til stuðnings útlflutnings frá Úkraínu á erfiðum stríðstímum. Íslendingar hafa ekki framlengt tollfrelsið. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, gerir því skóna að fjármálaráðherra sé undir þrýstingi frá hagsmunaaðilum í landbúnaði um að framlengja ekki tollfrelsið.

Ólafur fer yfir málið í aðsendri grein á Vísir.is í dag og rifjar upp aðdragandann:

„Tilefni lagasetningarinnar var beiðni Úkraínu til EFTA-ríkjanna um niðurfellingu tolla á úkraínskum vörum. Í beiðninni kom fram að innrás Rússa hefði leitt til þess að lokazt hefði fyrir útflutning frá Úkraínu um hafnir landsins við Svartahaf. Í þeim tilgangi að halda efnahag landsins gangandi þrátt fyrir stríðsátök leituðu stjórnvöld í Úkraínu leiða til að auka útflutning yfir þau landamæri ríkisins sem liggja að ríkjum í Evrópu og styrkja þannig efnahag landsins, sem hefur orðið fyrir miklum áföllum vegna innrásar Rússa. Til að greiða fyrir þessu felldi Úkraína sjálf niður alla tolla á innflutningi.“

Segir að 2-3% af kjúklingamarkaði valdi hagsmunaþrýstingi

Ólafur heldur því fram að Bjarni og ríkisstjórnin séu undir þrýstingi vegna hagsmuna kjúklingaframleiðenda. Kjúklingur frá Úkraínu sé þó með mjög litla markaðshludeild. Ljóst er að samtök fyrirtækja í landbúnaði hafa lagst gegn framlengingu tollfrelsisins. Ólafur skrifar:

„Samtök fyrirtækja í landbúnaði sendu Bjarna formlegt erindi í byrjun þessa mánaðar og lögðust gegn framlengingu tollfrelsisins. Ástæðan er einkum sögð sú að ódýr kjúklingur frá Úkraínu geti veitt íslenzkum kjúklingaframleiðendum samkeppni.

Í drögum að minnisblaði matvælaráðuneytisins um áhrif niðurfellingar tollanna undanfarið ár kemur fram að innflutningur frá Úkraínu hafi aukizt um 50% á milli áranna 2021 og 2022. Meirihluti innflutningsins er iðnvarningur. Hlutfall búvara af innflutningnum var 9% og tvöfaldaðist á milli ára. Frá miðjum júní í fyrra, þegar tollarnir voru felldir niður, og þar til í marz síðastliðnum, voru fluttar inn úkraínskar búvörur fyrir heilar 93 milljónir króna, aðallega kjúklingur. „Á tímabilinu hefur úkraínskur kjúklingur verið innan við 10% af heildarinnflutningi og ef gera má ráð fyrir svipaðri þróun á magni næstu mánuði væri markaðshlutdeild kjúklingakjöts frá Úkraínu í kringum 2-3% á innlendum markaði yfir 12 mánaða tímabil,“ segir í plaggi matvælaráðuneytisins.

Þar er jafnframt sett fram það mat að ólíklegt sé að innflutningurinn hafi mikil áhrif á verð á innlendu kjúklingakjöti, enda sé um hlutfallslega lítið magn að ræða. Það breytir ekki því að neytendur hafa á undanförnum mánuðum séð úkraínskt kjúklingakjöt í frystiborðum stórmarkaða á verði sem ekki hefur sézt áður – vegna tollfrelsisins.“

Hefur ráðherra ekki bein í nefinu?

„Það má undrum sæta ef fjármálaráðherrann hefur ekki meira bein í nefinu en svo að hann lúffi fyrir þrýstingi frá hagsmunaaðilum í landbúnaði og láti hjá líða að leggja til endurnýjun á löggjöf, sem hefur bæði falið í sér stuðning við okkar stríðshrjáða vinaríki Úkraínu og bættan hag neytenda. Og það vegna viðskipta, sem nema 2-3% af markaði fyrir kjúklingakjöt!,“ segir Ólafur jafnframt og spyr hvernig íslenskir ráðamenn hyggist útskýra það fyrir Úkraínumönnum að fallið hafi verið frá þessum stuðningi vegna þrýstings frá litlum hagsmunahópi.

„Er virkilega svona auðvelt að beygja íslenzk stjórnvöld í öðru eins prinsippmáli?“ spyr Ólafur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt