fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

„Tapist slíkt skaðabótamál er það fórnarkostnaður sem ráðherra mætti vera stolt af að hafa stofnað til“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 25. maí 2023 10:14

Kristján Þorsteinsson og Ólafur Valsson gagnrýna hvalveiðar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Valsson dýralæknir og Kristján Þorsteinsson veitingamaður eru meðal fjölmargra sem gagnrýna hvalveiðar en umræðan um hvaladráp hefur verið hávær undanfarnar vikur eftir að eftirlitsskýrsla Matvælastofnunar um hvalveiðar kom út. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og MAST hafa verið talsvert á milli tannanna á fólki en ákvörðun um heimild til hvalveiða á næsta ári hefur ekki verið tekin.

Stjórnvöld standa nú fyrir víðtækri gagnaöflun til að ákvarða framtíð hvalveiða, eins og hvaða efnahagslegu áhrif það mun hafa ef veiðunum verður hætt og hvaða áhrif hvalveiðar hafa á loftslagið og vistkerfi landsins.

Rúmlega fimmtán þúsund manns hafa nú þegar skrifað undir áskorun um að stoppa hvalveiðar. 

Rán Flygenring tók hvalveiðar saman í myndskýrslu sem hefur slegið í gegn. Sjá hér.

Segir að banna ætti drápin tafarlaust

Ólafur Valsson dýralæknir spyr hvort lögfræðingar séu sérfræðingar í sársaukaskyni dýra, sem þeir eru ekki, heldur séu dýralæknar meðal þeirra sem geta talist til sérfræðinga um það.

„Matvælaráðherra og MAST vísa til ákvæða laga og bera fyrir sig lögfræðinga sem telja sig ekki þess búna að kveða á um hvenær dauðastríð langreyða sé innan marka laga sem segja að veiðar skuli valda villtum dýrum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taka sem skemmstan tíma,“ segir hann í pistli á Vísi.

„Ljóst er að dýrin sem um ræðir eru með jafn þróað sársaukaskyn og við mannfólkið. Þetta vita flestir. Það liggur alveg ljóst fyrir að dýrin kveljast svona álíka eins og ef spjóti væri skutlað í okkur og svo togað í af afli […] Margra klukkutíma dauðastríð, og reyndar þó ekki væri nema nokkurra mínútna dauðastríð, er algjörlega óásættanlegt og það vitum við öll sem eitthvað þekkjum til sársaukaskyns dýra. Dýrið á að drepast samstundis og aðferðin verður að ná því í nánast öllum tilfellum, ella er hún ekki tæk.

Ef aðferðir sem notaðar eru drepa ekki öll dýr sem skotin eru því sem næst samstundis þá uppfylla þær einfaldlega ekki skilyrði laga um dýravelferð og af því einu leiðir að drápin ætti að banna tafarlaust.“

Sérfræðingar verða að slá í borðið

Það er kominn tími til að sérfræðingar í dýrum setji mörkin um hve lengi og mikið veiddur hvalur má þjást. Við sem sérfræðingar verðum að slá í borðið. Ég geri það hér með. Margra klukkutíma dauðastríð rúmast vitaskuld alls ekki innan þess sem kallað er „sem skemmstur tími“. Drápsaðferðin uppfyllir á engan hátt ákvæði um að valda sem minnstum sársauka og er með öllu óásættanleg,“ segir Ólafur.

Hann skorar á Svandísi Svavarsdóttur að banna veiðar strax.

„Það er ósómi af því dýraníði sem hér viðgengst. Hræðsla virðist við skaðabótamál. Kannski, en það má ekki verða til þess að murkað sé lífið úr tugum ef ekki hundruðum hvala á villimannslegan hátt. Tapist slíkt skaðabótamál er það fórnarkostnaður sem ráðherra mætti vera stolt af að hafa stofnað til. Hvernig væri að láta hvalina njóta vafans!“

Viðskiptavinum var misboðið

Kristján Þorsteinsson, veitingamaður í borginni, tekur í sama streng og Ólafur.

„Sem veitingamaður til áratuga bauð ég lengi vel upp á hvalkjöt á mínum stöðum. Fyrir nokkrum árum tók ég svo upp á að hætta því. Aðallega því afskaplega fáir vildu kaupa það. En líka því það var í engu sérstöku uppáhaldi hjá mér sjálfum og vegna þess að reglulega var kúnnum misboðið yfir því að hvalkjöt væri yfir höfuð á matseðlinum og sagði frá því á netinu. Sem þýddi að ég tapaði viðskiptum,“ segir hann.

„Nokkuð hefur verið rætt og skrafað um hvalveiðar undanfarnar vikur eftir að út kom skýrsla sem sýnir svart á hvítu að hvalir við Íslandsstrendur eru drepnir með mjög ógeðfelldum hætti og sennilega í trássi við lög um dýravernd. Það þykir mér ekki sérlega geðslegt.“

Kristján segir að ofan á það hafi birst fréttir um að veiðarnar hjá eina fyrirtækinu sem stundar það hér á landi væri rekið með tapi.

„Síðan hafa komið upp fjölmörg önnur rök sem öll hníga að því að það sé einfaldlega kominn tími til að hætta þessu. Til að mynda þau rök að hvalir séu mjög verðmætir loftslaginu. Og að það sé meira og minna enginn markaður fyrir hvalkjöti lengur. Og að þetta hafi vond áhrif á ferðaþjónustuna í landinu vegna neikvæðrar fréttaumfjöllunar í útlöndum. Svo mætti áfram telja,“ segir hann og bætir við:

„Er ekki mál til komið að við hættum að rífast um þetta og föllumst á það að hvalveiðar eru einfaldlega barn síns tíma? Hættum þessu bara.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2