fbpx
Laugardagur 03.júní 2023
Eyjan

Sakar Svandísi um tvískinnung – Hefur áhyggjur af kvölum hvala en ekki vítiskvölum fólks

Eyjan
Fimmtudaginn 25. maí 2023 09:45

Myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stefán Einar Stefánsson, siðfræðingur og fyrrum fréttastjóri Morgunblaðsins, sakar Svandísi Svavarsdóttir, matvælaráðherra, um að hafa meiri áhyggjur af velferð dýra en velferð samlanda sinna og segir hana gerast seka um hróplegan tvískinnung. Ástæðan eru hugmyndir Svandísar um að banna hvalveiðar hérlendis á grundvelli þeirra þjáninga sem dýrin eru sögð ganga í gegnum við veiðarnar en Stefán Einar bendir á að andstaða Svandísar við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu hafi kostað fjölmarga Íslendinga vítiskvalir á meðan beðið var eftir liðskiptaaðgerðum hérlendis.

Í aðsendri grein í Morgunblaði dagsins bendi Stefán Einar á að í tíð Svandísar sem heilbrigðisráðherra árin 2017 – 2021 hafi biðlistar vegna mjaðmaskiptaaðgerða lengst til muna hérlendis og það sé ábyrgð hennar.

Kreddufestan kostaði kvalir samborgaranna

„Vegna kreddufestu ráðherrans var með handafli komið í veg fyrir að sárþjáð fólk gæti fyrir milligöngu hins opinbera leitað sér lækninga hjá skurðlæknum utan opinberra sjúkrahúsa. Þegar fólk hafði beðið nógu lengi, við mjög skert lífsgæði, gat það leitað sér lækninga í Svíþjóð og bar hið opinbera margfaldan kostnað af því, miðað við það sem verið hefði með inngripi hér á landi,“ skrifar Stefán Einar.

Segir hann Svandís hafi þannig ollið því að ríkissjóður sólundaði fjármunum í þjónustukaup erlendis sem sækja hefði mátt hér heima og haldið um leið fólki oft og tíðum frá vinnu og undir stöðugum og illviðráðanlegum verkjum svo mánuðum skipti. „Ráðherrann lét
sér þetta í léttu rúmi liggja, enda á móti einkarekstri í heilbrigðisþjónustu!“

Taki dýravelferð fram yfir velferð fólks

Setur hann þessa afstöðu Svandísar í samhengi við þann vilja hennar að banna hvalveiðar vegna kvala dýranna.

„Nú vill hún banna hvalveiðar. Þá skoðun sína segist hún grundvalla á nýlegri skýrslu Matvælastofnunar, sem hún þó játar að lagaleg óvissa sé um. Samkvæmt skýrslunni tekur það oft og tíðum óviðunandi langan tíma að deyða dýrin sem veidd eru til manneldis. Þau kveljist að óþörfu. Kannski væri ráðherrann á því að réttlætanlegt væri að blessuð dýrin liðu hinar miklu kvalir ef fyrirtæki
í opinberri eigu stæði að veiðunum,“ skrifar Stefán Einar og sakar Svandísi um hrópandi tvískinnung.

„Það má láta hundruð Íslendinga líða vítiskvalir svo mánuðum skiptir, jafnvel þótt lina mætti þjáningarnar með einföldu inngripi og fyrir tiltölulega lítinn tilkostnað. En hvalirnir mega ekki kveljast. Engu er líkara en að ráðherrann taki dýravelferð fram yfir velferð samlanda sinna,“ skrifar siðfræðingurinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Umdeildi stiginn í Breiðholti kostaði 36 milljónir króna

Umdeildi stiginn í Breiðholti kostaði 36 milljónir króna
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Enn stafar mikil hætta af öfgahægrimönnum í Bandaríkjunum – Beina sjónum sínum á nýjar slóðir

Enn stafar mikil hætta af öfgahægrimönnum í Bandaríkjunum – Beina sjónum sínum á nýjar slóðir