fbpx
Laugardagur 03.júní 2023
Eyjan

Heiftarhugur meðal lurkum laminna landsmanna eftir tíðindi dagsins – „Höfum við ekkert lært?“

Eyjan
Miðvikudaginn 24. maí 2023 14:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brá mörgum við í morgun þegar greint var frá ákvörðun Seðlabanka Íslands að hækka stýrivexti um 1,25 prósent á einu bretti, en eftir hækkunina eru stýrivextir 8,75 prósent sem fer nú að slá upp í hefðbundna yfirdráttarvexti. Vissulega höfðu margir búist við hækkun, en svörtustu spákaupmenn höfðu þó aðeins ímyndað sér heila prósentu, en ekki ríflega slíka.

Hafa landsmenn og netverjar lýst yfir gífurlegum vonbrigðum á samfélagsmiðlum í dag þar sem Seðlabankinn og ríkisstjórnin eru sökuð um að sækja fjármagn til almennings í landinu til að borga undir hagvöxtinn hjá fyrirtækjum í landinu, sem er með besta móti. Nú horfi fjármagnseigendur fram á að græða sem aldrei fyrr á meðan landsmenn sem eiga minna milli handanna gætu horft fram á að missa heimili sín. Unga fólkið í landinu veigri sér við að eignast börn í þessu ástandi, enda þurfi helst lottóvinning eða kraftaverk til að hjálpa þeim að komast inn á fasteignamarkaðinn.

Fjöldi fólks hefur velt upp spurningunni hvar ríkisstjórnin sé, og hvers vegna hún sé ekkert að gera til að vega upp á móti þeim skaða sem vaxtahækkanir valda almenningi. Eins hefur seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, verið gagnrýndur fyrir að horfa ekkert til annarra leiða til að berjast við verðbólguna, enda hafi vaxtahækkanir ekki skilað árangri til þessa en engu að síður er það eina tólið sem seðlabankinn beitir. Athugasemdir Ásgeirs um að vinnumarkaðurinn í landinu þurfi að koma til móts við Seðlabankann hafa ekki vakið vinsældir og hefur fólk bent á að auðvitað þurfi hagsmunaaðilar vinnandi fólks að berjast fyrir hærra kaupi þegar laun eru étin upp í verðhækkunum verðbólgunnar og vaxtahækkunum.

Friðrik Jónsson, formaður BHM, skrifar á Facebook að vísitala hafi lækkað milli mánaða. Ný vísitala verði birt á föstudag og ef talan sé sú sama og síðast eða lægri þá sé þá sé vaxtahækkunin í dag áfellisdómur yfir stjórnvöldum.

„Að ætla að kenna um launafólki sem sætti sig við launahækkanir sem ná ekki að bæta hvorki fyrir kaupmáttarbruna síðasta árs né þann sem fyrirsjáanlegur er næstu mánuði ef ekki tekst að ná böndum á verðbólgu er sérkennilegt svo ekki sé meira sagt. Skattamál og skaðleg gróðasókn í skjóli fákeppni er hér að leika mun stærra hlutverk en kjaramálin.“

Hörður Kristjánsson, fyrrum ritstjóri Bændablaðsins, segir að stýrivextir upp á 8,75 prósent sé „hreinræktuð glæpamennska gagnvart heimilum landsins,“ en hann veltir fyrir sér hversu lengi almenningur landsins muni láta berja sig niðurí svaðið fyrir verðbólgu og verðbólguviðbrögð sem séu matreidd að hætti bankastofnana og fjármagnseigenda. Almenningur hafi lítið sem ekkert að gera með verðbólguaukningu heldur sé um að ræða skort á fasteignum og aukin eftirspurn eftir húsnæði. Öðrum löndum hafi tekist að berjast við verðbólguna án verulegra stýrivaxtahækkana.

„Er ekki kominn tími til að þeir sem stýra þessari glæpsamlegu aðför að almenningi beri raunverulega ábyrgð?“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, sagði í samtali við mbl.is að verið sé rústa íslenskum heimilum á meðan bankastjórarnir halli sér aftur því þeir séu tryggðir í bak og fyrir í gegnum verðtrygginguna.

„Þetta er al­gjör­lega orðið óþolandi.“

Samfélagsrýnirinn og ellilífeyrisþeginn Björn Birgisson segir að staðan sé svört og tveir kostir séu í stöðunni. Annað hvort gangist ríkisstjórnin við vanmætti sínum og getuleysi áður en kjörtímabilnu lýkur, eða þá að stjórnin fellur í næstu kosningum.

Þingkona Flokks fólksins, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, skrifar að um glæp gegn heimilunum sé að ræða og að enginn seðlabanki í heiminum sé jafn grimmur og sá íslenski. Hún býður fram aðstoð í gegnum Hagsmunasamtök heimilanna fyrir þá sem horfa fram á erfiða tíma vegna vaxtahækkana og bendir á netfangið heimilin@heimilin.is

„Guð blessi Ísland“

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir ljóst að Alþingi þurfi að nýta næstu vikur fram að þinglokum vel.

„Ríkisstjórnin ber sig aumlega. En þótt gerð hafi verið mistök við efnahagsstjórnina þá þýðir ekki bara að dæsa og gefast upp.“

Sindri Viborg, formaður Tourette-samtakanna, bendir á að ef landsmenn fengu 7 prósent launahækkun, í 9,9 prósent verðbólgu, þá hafi þeir í reynd verið að taka á sig launalækkun. Hvernig sé þá hægt að kenna launþegum um verðbólguna.  Svo virðist sem að fyrirtæki, við verðhækkanir, hafi hækkað verð til að mæta auknum launakostnaði og þá að sama bragði hækkað krónutöluna sem þau fá í ágóða.

„Fyrirtæki sem seldi vöru á 100 krónur (þar sem 50 krónur af því er kostnaður við laun, efniskostnaður, húsnæðiskostnaður og þessháttar) en lendir í launahækkunum sem hækkar grunnkostnað upp í 52 krónur, heldur áfram að selja vöruna á 100% álagningu og selur því vöruna á 104 krónur. Þarna, í þessari einfölduðu mynd, er orsök verðbólgunnar. Fyrir launahækkun var fyrirtækið fullkomlega hamingjusamt með 50 krónu hagnað, en eftir hækkun er 52 krónur lágmarkið.“

Þannig þurfi launþegar að taka ábyrgð á verðbólgunni og dæmin séu fleiri. Lán til almennings séu verðtryggð og skattar og gjöld til atvinnureksturs hafi verið felld niður sem neyði ríkisstjórnina til að sækja tekjur annað, þá helst frá almenningi.

„Þetta er orðið þreytt. Getum við vinsamlegast hætt þessu.“

Þingmaður Viðreisnar, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, segir að tvennt sé fært til að berjast við verðbólgu, vaxtahækkanir og sparnaður hjá ríkisstjórninni. En núverandi ríkisstjórn virðist ómögulegt að spara.

„Þetta þarf ekki að vera svona“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir vaxtahækkunina falleinkunn fyrir ríkisstjórnina.

„Þeirra ábyrgð í efnahagsmálum er greinilega ekki að virka þannig að seðlabankinn þarf að bæta í.“

Eins og sjá má hafa tíðindi morgunsins vakið töluverða úlfúð og valdið verulegum áhyggjum af stöðu heimila á landinu. Netverjar á Twitter hafa verið duglegir að láta í sér  heyra og má hér fyrir neðan sjá smá brot af þeim ummælum sem þar hafa fallið í dag.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Aðalsteinn kveður sáttur með útsaumi – „Anda inn…anda út“

Aðalsteinn kveður sáttur með útsaumi – „Anda inn…anda út“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Aðalsteinn vill ekki lengur vera ríkissáttasemjari og lætur af embætti á morgun

Aðalsteinn vill ekki lengur vera ríkissáttasemjari og lætur af embætti á morgun
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Brimborg og e1 í samstarf um hraðhleðslunet fyrir alla rafbílanotendur

Brimborg og e1 í samstarf um hraðhleðslunet fyrir alla rafbílanotendur
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jóhann Páll birtir nokkuð sláandi tölur um hækkun óverðtryggðra lána og vöruverðs – Sendir Bjarna sneið

Jóhann Páll birtir nokkuð sláandi tölur um hækkun óverðtryggðra lána og vöruverðs – Sendir Bjarna sneið
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Stefán svarar Þorsteini fullum hálsi – „Hrokafullur og algerlega á skjön við staðreyndir”

Stefán svarar Þorsteini fullum hálsi – „Hrokafullur og algerlega á skjön við staðreyndir”
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Vilhjálmur ætlar að bíða með fagnaðarlætin – „Margoft búið að lofa þessu og ekkert gerist“

Vilhjálmur ætlar að bíða með fagnaðarlætin – „Margoft búið að lofa þessu og ekkert gerist“