Fyrr í dag á Alþingi mælti Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fyrir þingsályktunartillögu um þróunaráætlun og tilraunaverkefni fyrir ræktun lyfjahamps og notkun kannabislyfja í lækningaskyni.
Tillagan var lögð fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga og er því lögð fram í annað sinn. Ásmundur er fyrsti flutningsmaður en ellefu aðrir þingmenn eru meðflutningsmenn og koma þeir úr Sjálfstæðisflokknum, Pírötum og Flokki fólksins.
Kveður tillagan á um að Alþingi feli heilbrigðisráðherra, í samráði við menningar- og viðskiptaráðherra, að setja á fót starfshóp sem hafi það hlutverk að útbúa frumvarp sem heimili fyrirtækjum að sækja um leyfi fyrir ræktun lyfjahamps til kannabisræktunar og fyrir framleiðslu og dreifingu á kannabislyfjum í lækningaskyni. Um verði að ræða fjögurra ára tilraunaverkefni sem hefjist 1. janúar 2024. Heilbrigðisráðherra leggi fram frumvarp þessa efnis fyrir 31. desember 2023.
Í greinargerð með tillögunni segir að stefna stjórnvalda og heilbrigðiskerfisins varðandi kannabisefni hér á landi þarfnist talsverðar umræðu. Segir enn fremur að álit flutningsmanna sé að tilraunaverkefni áþekkt því sem stendur yfir í Danmörku myndi skapa opinskáar umræður hér á landi.
Flutningsmenn segja að verkefnið í Danmörku hafi snúist einkum um þróunaráætlun um ræktun hamps í því skyni að vinna úr honum lyf og síðan notkun efna úr hampjurtinni í lækningaskyni. Úttekt á verkefninu hafi sýnt fram á það hafi borið nokkuð góðan árangur og veitt góða og örugga umgjörð um notkun kannabis sem lyfs í læknisfræðilegum tilgangi. Í greinargerðinni kemur einnig fram að það sé hluti af verkefninu í Danmörku að læknar hafi heimild til að ávísa kannabislyfjum til sjúklinga sem glími við langvarandi verki og aðra kvilla ef viðkomandi sjúklingar hafi þegar prófað hefðbundin lyf án árangurs.
Leggja flutningsmenn til að heilbrigðisráðherra skipi starfshóp sem ætlað verði að gera drög að frumvarpi um m.a. skilgreiningu leyfa til ræktunar, framleiðslu og dreifingar á kannabis í lækningaskyni og vinna þróunarætlun til fjögurra ára um þessi viðfangsefni.
Í greinargerðinni er sérstaklega tekið fram að ekki sé verið að leggja til lögleiðingu á kannabis eða afglæpavæðingu kannabisefna. Það sé þó ekki réttlætanlegt að meina sjúklingum um aðgang að kannabisvörum til að vernda þá sem hugsanlega geti misnotað þær.
Umræðan sem fór fram á Alþingi í dag á að vera fyrri umræða sem fram fer um tillöguna. Fer hún nú til meðferðar í velferðarnefnd þingsins og það kemur í ljós hvort hún stoppar þar eins og hún gerði á síðasta þingi.
Enginn þingmaður tók til máls í umræðunni fyrir utan Ásmund. Hann las þingsályktunartillöguna og greinargerðina upp í heild sinni. Ásmundur bætti því einnig við ræðu sína að margir þingmenn þekktu til einstaklinga sem glímdu við erfiða sjúkdóma sem fylgdu miklir verkir.
Ásmundur sagði að einstaklingur sem væri í slíkri stöðu hefði haft samband við sig og hvatt eindregið til þess að þessu máli yrði komið áfram. Enn fremur sagðist Ásmundur vita til þess að læknar vissu til þess að kannabisefni væri eina von sumra sjúklinga til að lina þjáningar þeirra vegna mikilla verkja. Ásmundur sagði marga sjúklinga ekki treysta sér til að nýta sér önnur lyf á markaði, sem geta linað þjáningar þeirra, þar sem um væri að ræða sterk lyf sem væru afar ávanabindandi. Í umræðu undanfarið, meðal annars í þingsal, hafi heyrst sögur af því hvernig ópíóðar geti dregið fólk inn í „svarthol fíkninnar.“
Þar sem þingsályktunartillagan er lögð fram af hópi þingmanna sagðist Ásmundur vonast til þess að heilbrigðisráðherra tæki þetta mál upp á sína arma þar sem reynslan sýndi að þingmannamál ættu oft erfitt uppdráttar á Alþingi sem Ásmundur sagði að væri miður.