fbpx
Mánudagur 05.júní 2023
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Hvers virði er íslenskan?

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 2. apríl 2023 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„En þetta er nú að segja ungum skáldum, þeim er girnast að nema mál skáldskapar og heyja sér orðfjölda með fornum heitum eða girnast þeir að kunna skilja það er hulið er kveðið, þá skilji hann þessa bók til fróðleiks og skemmtunar.“ 

Þannig kemst Snorri Sturluson að orði í Skáldskaparmálum Eddu, rituðum á 13. öld. Sérhvert orð er skýrt og hugsunin berst óbrengluð til lesenda átta hundruð árum síðar. Samhengið í íslensku ritmáli er nefnilega óslitið frá fyrstu tíð. Bækur Snorra Sturlusonar og Yrsu Sigurðardóttur eru skrifaðar á sömu tungu. Þetta er nánast einstakt meðal ritmála álfunnar. Fornir textar vefjast lítið fyrir nútímaíslendingum. Enn er dæmt eftir ýmsum skilmerkilegum ákvæðum Jónsbókar frá 1281 og mörg þeirra eiga sér miklu fornari rætur. 

Lagakerfi þjóðveldisins var furðulega þróað og lagatextinn mun meitlaðri og fræðilegri en slíkir textar í nálægum löndum á miðöldum. Ritmenningin sem birtist okkur í konungasögum og Íslendingasögum fór saman við blómlegt löggjafarstarf. Íslendingar varðveittu líka fornar germanskar bragreglur í ljóðlistinni og þær eru lifandi fram á okkar dag. Það að öll þessi sérkenni í menningunni — og ekki hvað síst tungumálinu — hafi viðhaldist skapar sérstöðu Íslendinga. 

Að eiga erindi við heiminn 

Í efnahagslegu tilliti er vægi Íslendinga hverfandi og hernaðarlega geta engin. Sem menningarþjóð eigum við aftur á móti erindi við heiminn. Menningarleg fjölbreytni á heimsvísu er undirstaða fegurðar í öllu mannlífi. Við bætist að það hefur gildi fyrir einstaklinga að vera hluti af þjóð sem á sér sögu og menningu og það hefur gildi fyrir heimsmenninguna að menning lítilla þjóða sem Íslendinga varðveitist. Hverfi tunga og menning á braut verður heimurinn fátækari og við sem einstaklingar horfum á bak hamingju sem við hefðum ella fengið notið. 

Fyrir því hafa margoft verið færð efnahagsleg rök að skynsamlegt væri fyrir Íslendinga að leggja af móðurmál sitt og taka upp ensku til að mynda en nánari athugun leiðir okkur í allan sannleika um að hlutlægir efnahagslegir mælikvarðar verða ekki lagðir á gildi einstakra tungumála. Vitundin um eigin tungu, sögu og menningu er með engu móti hægt að meta til fjár. 

Vitaskuld þarf að varast að þjóðmenning snúist upp í þjóðrembing og menning og tunga þarf að hafa eiga tækifæri til vaxtar og umbreytingar — í stað þess að tréna. Einn mikilvægasti þáttur í viðgangi lifandi tungumáls er starfræksla öflugra fjölmiðla. Í ljósi þess hversu fámennir við erum þurfum við að hafa okkur alla við að semja daglega vandað frétta-, menningar- og afþreyingarefni — í miklu magni. Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í viðgangi tungumálsins. 

Brotthvarf eins öflugasta fjölmiðils landsins í liðinni viku hefur vakið upp áleitnar spurningar um stöðu fjölmiðla. Við blasir að stjórnmálamenn skortir metnað til að skapa þeim hagfellt rekstrarumhverfi. Það segir sína sögu að opinberar stofnanir auglýsa fyrir milljónir á milljónir ofan á erlendum samfélagsmiðlum en ekkert hefur verið aðhafst til að skattleggja samfélagsmiðlana svo hægt verði að jafna samkeppnisstöðu innlendra miðla.  

Þá er ekki nóg með að 5,7 milljörðum úr sjóðum skattgreiðenda sé varið til Ríkisútvarpsins á þessu ári heldur tekur ríkismiðillinn til sín tvo milljarða af auglýsingamarkaði, það er um helmingur alls auglýsingafjár sjónvarps og um fjörutíu af hundraði þess fjár sem varið er til auglýsinga í útvarpi. Þessi hlutföll hafa hækkað ört síðustu ár. Ríkisstjórnin valdi þá leið að „rétta“ hlut einkareknu fjölmiðlanna með því að gera þá að ölmusuþegum ríkisvaldins og er til þeirra varið 400 milljónum á ári. Þegar umræðan beinist að hnignandi einkamiðlum eru mörgum hugstæð lýðræðisrök. Beinir styrkir ríkisvaldsins til fjölmiðla gera þá alltént ekki óháðari valdhöfunum en að minni hyggju er bág staða miðlanna enn ein birtingarmynd sinnuleysis ráðamanna gagnvart tungumálinu. Rétt væri að lækka verulega opinberar álögur á fjölmiðla í krafti þess mikilvæga menningarhlutverks sem þeir gegna. 

Við hugsum á íslensku 

„Tungan hefur ekki einungis verið undirstaða menningar vorrar, heldur líka sjálfstæðis út á við og jafnaðar inn á við,“ skrifaði Sigurður Nordal árið 1926. Hér á landi hefur ekki ríkt stéttamunur í tali manna svo nokkru nemi og sameiginlegt tungumál einn hyrningarsteinn þess félagslega hreyfanleika sem Íslendingar hafa lengi stært sig af. Þess vegna skýtur skökku við að jafnaðarmenn skuli ekki á okkar tímum leggja höfuðáherslu á að innflytjendum sé kennd íslenska — svo þeir og afkomendur þeirra verði gjaldgengir í samfélaginu, öðlist hlutdeild í okkar menningu, og njóti sömu tækifæra og innfæddir. 

Ég sat á dögunum fund Sagnfræðingafélags Íslands þar sem rætt var um hnignandi sögukennslu. Stór hluti nemenda brautskráist með stúdentspróf án þess að hafa lært nokkra Íslandssögu (eða sögu yfir höfuð) í framhaldsskóla og jafnvel sáralitla sem enga í gagnfræðaskóla. Þá höfðu prófessorar í sagnfræði á orði á fundinum að stór hópur nýstúdenta hefði svo lítið vald á eigin móðurmáli að viðkomandi væru sendir á „ritleikninámskeið“ til að reyna að bæta nokkuð þar úr.  

Í sjálfu sér þarf þetta ekki að koma á óvart þar sem íslenskunámskeið til stúdentsprófs eru mun færri nú en voru fyrir styttingu námsins. Það er enn ein birtingarmynd sinnuleysis stjórnmálanna gagnvart tungumálinu. Í þessu sambandi gleymist líka að íslenskukennsla er öðrum þræði kennsla í hugsun. Móðurmálsnám er ekki aðeins nám í reglum tungumálsins heldur ekki síður nám í aðferðum til hugsunar; við þörfnumst orðaforða og málfærni til geta hugsað og vont málfar ber gjarnan vott um óskýra, ófágaða og óagaða hugsun. 

Það hvort tungumálið lifi er pólitísk ákvörðun 

Við myntbreytinguna 1981 voru teknir upp nýir peningaseðlar. Tíu króna seðilinn prýddi teikning af Arngrími Jónssyni lærða. Seðillinn var tekinn úr umferð aðeins þremur árum síðar, enda harla lítið eftir af upprunalegu verðgildi hans eftir misseri mestu dýrtíðar Íslandsögunnar — sem var tilkominn vegna slælegrar hagstjórnar. Arngrímur lærði var ef til vill fyrstur til að benda á mikilvægi þess að Íslendingar legðu rækt við hreinleika tungumálsins. Það mátti heita afar framsækin hugmynd um aldamótin 1600 — löngu fyrir daga þjóðernisstefnu. Til málverndunar lágu nefnilega menningarleg og söguleg rök umfram allt. Við sem nú lifum eigum sálufélag við Arngrím — í krafti hinnar fornu tungu — en líka við Ara, Snorra og aðra sagnaritara miðalda.   

Menn skilja betur gildi eigin menningar þegar þeir kynnast menningu annarra þjóða sem tala aðrar tungur, eiga aðra forfeður og aðra sögu. Eftir því sem við kynnumst fólki af fleira þjóðerni verður okkur ljóst að gildi heimsmenningarinnar er fólgið í fjölbreytninni — að þjóðirnar rækti eigin menningu. 

Það að íslenskan er ríkismál og eina opinbera tungumálið hér gerir það að verkum að það er fyllilega í okkar höndum hvort hún lifi af og fái dafnað — en til að svo megi verða þarf pólitískan vilja á öllum sviðum. Einn lykilþáttur í því efni er að skapa einkareknum fjölmiðlum hagfellt rekstrarumhverfi. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Innflytjendur fá óblíðar móttökur

Björn Jón skrifar: Innflytjendur fá óblíðar móttökur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar – Silfur Egils og konungar fyrr og nú 

Björn Jón skrifar – Silfur Egils og konungar fyrr og nú 
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Ríkið er víða

Sigmundur Ernir skrifar: Ríkið er víða
EyjanFastir pennar
23.04.2023

Sigmundur Ernir skrifar – Ólíkir foringjar

Sigmundur Ernir skrifar – Ólíkir foringjar
EyjanFastir pennar
16.04.2023

Sigmundur Ernir skrifar – Röddunum fækkar

Sigmundur Ernir skrifar – Röddunum fækkar
EyjanFastir pennar
03.03.2023

Yfirlýsing Öfga: Hinn raunverulegi dómstóll götunnar

Yfirlýsing Öfga: Hinn raunverulegi dómstóll götunnar
EyjanFastir pennar
26.02.2023

Björn Jón skrifar: Ofsafengið scherzó 

Björn Jón skrifar: Ofsafengið scherzó 
EyjanFastir pennarFréttir
29.01.2023

Björn Jón skrifar – Hefja þarf stjórnmálin á hærra plan

Björn Jón skrifar – Hefja þarf stjórnmálin á hærra plan
EyjanFastir pennar
22.01.2023

Björn Jón skrifar: Skessa, skyggna og gildi menntunar

Björn Jón skrifar: Skessa, skyggna og gildi menntunar