fbpx
Mánudagur 20.mars 2023
Eyjan

Helga Vala býr yfir upplýsingum um vanvirðandi framkomu í garð starfsmanna ráðuneyta – Einelti, andlegt ofbeldi, harka, ósanngirni og fólk hrakið frá störfum

Eyjan
Laugardaginn 4. mars 2023 12:05

Helga Vala Helgadóttir. Ljósmynd: Sigtryggur Ari/Fréttablaðið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helga Vala Helgadóttir, þingman Samfylkingarinnar, hefur vakið athygli undanfarið með fyrirspurnum sem hún hefur sent á öll ráðuneyti þar sem hún falast eftir upplýsingum framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra og sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn ráðuneyta.

Hún óskaði einnig eftir svörum um hver útlagður kostnaður Stjórnarráðsins hafi verið af kaupum af sálfélagslegum stuðningi við starfsfólk vegna vanlíðunar og/eða álags á vinnustað sl. fimm ár.

Fyrirspurnina orðar hún þannig svo að upplýsingar taki einnig til þeirra verkefna sem áður var sinnt í öðrum ráðuneytum, fyrir uppstokkun ráðuneytanna sem átti sér stað í kjölfar síðustu Alþingiskosninga.

Þykir ljóst að Helga Vala býr yfir einhverjum upplýsingum sem hún vill að fái að líta dagsins ljós. Hún var til viðtals í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær þar sem hún útskýrði mál sitt.

Margar ábendingar utan úr bæ

„Við hérna, það er þingmenn, erum svo heppnir að fá allskonar ábendingar utan úr bæ frá bara fólki sem að treystir okkur fyrir ýmsum verkefnum og það er nú uppsprettan að þessum fyrirspurnum sem ég lagði þarna fram,“ sagði Helga Vala og því ljóst að fyrirspurnirnar byggja á ábendingum sem hún hefur hlotið.

Helga Vala vildi þó ekki nefna nein ráðuneyti á nafn en sagði að ábendingarnar hafi verið „svolítið margar“ og varði bæði núverandi og fyrrverandi starfsmenn ráðuneyta.

Upphaflega hafi Helga Vala farið þá leið að óska eftir því að forsætisráðherra myndi taka saman upplýsingar fyrir öll ráðuneytin.  Þá fyrirspurn hafi hún lagt fram í nóvember og fengið svör frá Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í desember.

Katrín hafi kannast við máli og kannast við að til hennar hafi verið leitað vegna þess. Hún líti þó svo á að um trúnaðarsamtöl hafi verið að ræða og geti því ekki upplýst um þau. Hún geti svo ekki svarað fyrir önnur ráðuneyti.

Þá hafi Helga Vala lagt fram fyrirspurn til hvers ráðuneytis fyrir sig og sé nú komin með fjögur svör.

Helga Vala segir að nýlega hafi komið niðurstöður úr ánægjukönnun starfsmanna sem gerð voru í ráðuneytum og þar hafi niðurstöður verið misjafnar.

Hún segir að það skipti máli fyrir almenning að hafa tilfinningu fyrir því hvernig starfsfólk, sem er að vinna fyrir ráðuneyti, líði í vinnunni.

Harka, einelti, ósanngirni og andlegt ofbeldi

Helga samþykkti að svara ögn til um eðli þeirra ábendinga sem hún hefur hlotið:

„Já ég bara heyrði af mjög harkalegum viðbrögðum, einelti, andlegu ofbeldi – töluverðu – og já, mikilli ósanngirni, hörku, og svo framvegis.“ 

Hún hafi ekki heyrt af líkamlegu ofbeldi þó.

Um sé að ræða mál sem hafi jafnvel endað með því að starfsmenn hrökklast frá starfi og jafnvel úr landi.

Hafi Helga Vala talið ábendingarnar gefa tilefni til þess að kjörinn fulltrúi kallaði eftir þessum upplýsingum til að fá þær upp á borðið.

Mikilvægt sé að fá þessar upplýsingar fram:

„Líka við sem kjósendur – ég held að maður vilji bara vita hvernig t.d. ráðherrar eru að hegða sér við starfsfólk.“

Nú bíður hún eftir að öll svör berist en segir að það sé augljóst hvar hafi sérstaklega verið tekið á þessum málum með þeim hætti að starfsfólki var veitt sálfræðiþjónusta. Það hafi verið í ákveðnum ráðuneytum sem Helga Vala nefnir ekki á nafn en af svörum hennar má ráða að um ráðuneyti í fleirtölu sé að ræða.

Almenningur verði þó að bíða eftir því að svör við fyrirspurnum komi fram því Helga Vala vill ekki greina frá því sem henni hafi verið trúað fyrir í trúnaði.

„Við skulum sjá þegar allar fyrirspurnirnar eru komnar “

Helga Vala tekur einnig fram að starfslokasamningar hafi verið gerðir vegna þessara mála og fólk í raun þvingað til að hætta í vinnunni.

En Helga Vala trúir því að þessar upplýsingar muni koma fram.

„Ég held að það hljóti að koma upp á yfirborðið fyrr en síðar“

Svör borist frá fjórum ráðuneytum

Sem stendur hefur Helga Vala fengið svör frá menningar- og viðskiptaráðherra, matvælaráðherra, utanríkisráðherra og heilbrigðisráðherra.

Í svörum heilbrigðisráðherra kom fram að í júní 2020 hafi heilbrigðisráðuneytið gert samstarfssamning við Líf og sál sálfræðistofu um stuðning, fræðslu og ráðgjöf til starfsfólk ráðuneytisins. Væri heildarkostnaður ráðuneytisins vegna samningsins 501 þúsund krónur. Ekki væri fyrir að fara neinum kostnaði ráðuneytisins af kaupum á sálfræðilegum stuðningi við starfsfólk vegna vanlíðunar og/eða álags á vinnustað undanfarin fimm ár önnur en af áðurnefndum samning.

Í svörum utanríkisráðherra kom fram að ráðuneytið hafi árið 2018 gert samning við Auðnast um heilsufars- og trúnaðarlæknisþjónustu. Markmiðið með þeim samningi hafi verið að gæta að „heilsutengdum hagsmunum starfsmanna, lágmarka fjarvistir vegna veikinda og streitutengdra þátta.“ Umræddur fagaðili veiti starfsfólki einnig ráðgjöf varðandi heilsufarsvandamál sem snúa að líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu. Utanríkisráðuneytið hafi greitt útlagðan kostnað vegna sálfélagslegs stuðnings við starfsfólk vegna vanlíðunar og/eða álags í starfi síðastliðin fimm ár sem nemi 1.667.250 kr.

Í svörum matvælaráðherra kemur fram að ráðuneytið hafi árið 2019 einnig gert samning við Auðnast. Í svari segir: „Veitt sálfræðiþjónusta hefur ekki verið flokkuð sérstaklega eftir málefnasviðum af persónuverndarástæðum og af virðingu við starfsfólk sem þegið hefur þjónustu hjá Auðnast ehf.  Útlagður kostnarður ráðuneytisins af kaupum sálfræðiviðtala fyrir starfsfólk undanfarin fimm ár sé samtals 321.500 kr fyrir alls 17 viðtöl. 7 sem fóru fram á síðasta ári og 10 sem fóru fram árið 2019.

Í svörum menningar- og viðskiptaráðherra kemur fram að ráðuneytið hafi gert samning við þjónustuaðila um heilsuvernd, fyrirbyggjandi fræðslu og eftirlit ásamt aðgengi að sálfræðiþjónustu. Tilefni samningsins séu fjölþætt og lúti ekki að einstöku atviki eða uppákomu. Kostnaður vegna samningsins sé 109 þúsund á mánuði. Ráðuneytið sé aðeins eins árs gamalt og hafi verið greiddar 117.500 krónur vegna viðtala við starfsmenn sem hafi óskað eftir aðstoð vegna „ótilgreindra þátta“.

Helga Vala gagnrýndi svör menningar- og viðskiptaráðherra, sem tóku aðeins til starfstíma ráðuneytis hennar en ekki um þau málefnasvið sem heyra undir ráðuneytið lengra aftur í tímann.

„Það er algerlega óboðlegt að uppstokkun Stjórnarráðsins sé notuð sem einhvers konar skálkaskjól fyrir upplýsingaleynd, að ráðherra sé að fela sig á bak við uppstokkun,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar á þingi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Vilhjálmur Theodór ráðinn forstöðumaður sölu hjá Vodafone

Vilhjálmur Theodór ráðinn forstöðumaður sölu hjá Vodafone
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Katrín og Þórdís hitta Selenskíj í dag

Katrín og Þórdís hitta Selenskíj í dag