fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Eyjan

Ófremdarástand í skilum ársreikninga – Vildarbörn, Faðmur, Vinátta í verki og dularfullur samstarfssjóður á svörtum lista Ríkisendurskoðunar

Eyjan
Föstudaginn 22. desember 2023 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisendurskoðun hefur farið yfir skil á ársreikningum hjá sjálfseignarstofnunum og sjóðum, sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Alls bar 684 sjóðum og stofnunum að skila inn ársreikningi, en aðeins 388 gerðu slíkt innan frests eða næsta hálfa árið eftir, eða um 57 prósent. Þá hafa 38 virkir sjóðir og stofnanir aldrei skilað inn ársreikningi þrátt fyrir lagaskyldu.

Það sem aðgreinir sjálfseignarstofnanir frá öðrum lögaðilum er að þær eiga sig sjálfar. Eitt mikilvægasta einkenni þeirra er að þau sem hafa látið fé rakna við stofnun geta ekki með nokkru endurskrifið um framlagið. Slíkar stofnanir lúta sjálfstæðri og óháðri stjórn sem er ein bær um að taka ákvarðanir um rekstur og starfsemi.

Segir í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun að enn ríki ófremdarástand í skilum þessara sjóða og stofnana. Þetta lítur embættið alvarlegum augum, en áður hafði Ríkisendurskoðun vísað til áhættumats Ríkislögreglustjóra vegna peningaþvættis og fjármögnun hryðjuverka frá árinu 2021. Þar er sérstaklega fjallað um sjóði og stofnanir þessar og ófullnægjandi skil þeirra. Þar með er áhætta af því að þessar stofnanir og sjóðir séu notaðar til peningaþvættis. Skilin hafi farið stigversnandi síðastliðin ár.

Yfirlit yfir sjóðina og skil þeirra hefur verið birtur og má lesa í heild á vef Ríkisendurskoðunar. Hér fyrir neðan hafa verið tekin dæmi úr listanum yfir stofnanir og sjóði sem hafa ýmist aldrei skilað ársreikning, eða nokkuð orðið síðan slík skil áttu sér stað. Listinn er nokkuð breyttur frá því síðast var fjallað um málið, en í millitíðinni hefur ríkisskattstjóri krafist skipta á stofnunum og sjóðum sem ekki eru búin að skrá raunverulegan eiganda, og eru slíkt skipti þegar búin að fara fram í mörgum tilvikum. Í öðrum hefur verið bætt úr skráningu, en jafnvel ekki þá staðið í skilum með ársreikning. Meðal þeirra sem eru á þessum skammarlista Ríkisendurskoðunar eru sjóðir sem eru reknir á vegum hins opinbera, svo sem sjóður tengdum bókakaupum hjá sjálfum forsetanum og sjóður sem er ætlað að styrkja við ýmis verkefni hjá sveitarfélaginu Fljótsdalshrepp.

Sjá einnig: Ríkisendurskoðun slær á putta slugsanna – Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar þar á meðal

Fyrir langa löngu

Faðmur, styrktarsjóður, var stofnaður á árinu 2008. Stofnandi var Heilaheill og var stofnframlag 732 þúsund krónur. Tilgangur sjóðsins er að styrkja barnafjölskyldur þar sem foreldri hefur fengið heilablóðfall, þegar til óþekktra og óvæntra útgjalda kemur sem varða börnin. Sjóðurinn hefur ekki skilað ársreikningi síðan árið 2010. Eigandi sjóðsins er Kristín Stefánsdóttir. Á vefsíðu Heilaheill er hægt að styrkja sjóðinn með millifærslum. Tekið er fram að umsóknum beri að skila 10. febrúar og 10. september ár hvert, en umsóknir eru trúnaðarmál.

Samstarfssjóður var stofnaður árið 1992, en hefur ekki skilað ársreikningi frá árinu 2010. Hugðist ríkisskattstjóri krefjast skipta á sjóðnum þar sem lagaskyldu um skráningu raunverulegs eiganda hafði ekki verið sinnt. Sjóðurinn brást þó við og sendi upplýsingar fyrr á þessu ári. Eigandi er nú skráður bandaríski athafnamaðurinn Charles Elvan Cobb, og tengiliður er bandaríska sendiráðið.

Forvarnar- og fræðslusjóðurinn Þú getur, var stofnaður árið 2008 af geðlækninum Ólafi Þór Ævarssyni. Markmið sjóðsins er að ráðstafa stofnfé og gjafafé sjóðsins, einkum með því að styrkja þá til náms sem hafa átt við geðræn veikindi að stríða, til að efla nýsköpun og þjónustu við geðsjúka á sviði fræðslu og forvarna og draga úr fordómum í samfélaginu gagnvart þeim sem glíma við geðsjúkdóma. Stofnfé kom frá Actavis, Landsneti og Forvörnum ehf. og nam 732 þúsund krónum. Sjóðurinn hefur staðið fyrir fjáröflunum og reglulega úthlutað styrkjum til náms, en þó að því er virðist ekki undanfarin fimm ár. Ársreikningi var seinast skilað árið 2018.

Nótt og dagur, sjálfseignarstofnun var stofnuð árið 2012, en tilgangur hennar var að reka alhliða stuðningsmiðstöð fyrir börn með mjög alvarlega, sjaldgæfa, ólæknandi sjúkdóma. Stofnendur voru Elín Hist, fjölmiðlakona, og synir hennar tveir og var stofnfé ein milljón. Nótt og dagur opnaði svo Leiðarljós, stuðningsmiðstöð fyrir foreldra barna með sjaldgæfa og alvarlega langvinna sjúkdóma, í kjölfar söfnunarinnar Á allra vörum. Lenti stofnunin svo í fjárþurrð og leit árið 2017 út fyrir að loka þyrfti miðstöðinni. Síðar fór Leiðarljós í starfi við Góðvild. Raunverulegir eigendur eru í dag aðilar sem hafa látið málefni Góðvildar og Leiðarljóss til sín taka. Síðast var ársreikningi skilað árið 2017

Prologos, leikritunarsjóður, var stofnaður árið 2009 af Bjarna Ármannssyni og Helgu Sverrisdóttir. Stofnframlag þeirra voru 16 milljónir en sjóðnum var ætlað að vera höfundum hvatning til að skrifa fyrir leikhús og auðvelda þeim að helga sig vinnu við að þróa hugmyndir að handritum. Til stóð að styrkja sex höfunda á ári hverju að jafnaði. Sjóðurinn starfaði til ársins 2011 þegar stofnframlag var uppurið. Sjóðnum hefur þó ekki verið slitið og engum ársreikningi skilað síðan 2018.

Vildarbörn ferðasjóður var stofnaður á árinu 2003 af Icelandair. Sjóðnum var ætlað að gera langveikum börnum og börnum er búa við sérstakar aðstæður á Íslandi og í helstu nágrannalöndum sérstakt tækifæri til þess að ferðast frá Íslandi til útlanda. Stofnframlag Icelandair voru 3 milljónir en sjóðurinn er enn starfræktur og næsta úthlutum fer fram á sumardaginn fyrsta árið 2024. Verndari vildarbarna er fyrrverandi forseti landsins, frú Vigdís Finnbogadóttir, en sjóðurinn er fjármagnaður með stofnframlagi, rausnarlegum stuðningi Sigurðar Helgasonar og Peggy Helgasonar, með framlögum frá félögum í Saga Club, millifærslum og mynt sem farþegum Icelandair býðst að setja í umslög sem má finna í sætisvösum véla og flugþjónar taka við í lok ferðar. Eins hafa fjölmörg fyrirtæki styrkt við sjóðinn með rausnarlegum framlögum. Formaður sjóðsins er fyrrum forstjóri Icelandair, Sigurður Helgason, en raunverulegur eigandi samkvæmt fyrirtækjaskrá er Dóra Elín Atladóttir Johnsen. Ársreikningi var seinast skilað árið 2018.

Rannsóknarstofnun atvinnulífsins – Bifröst, var stofnuð árið 2014 af Samtökum atvinnulífsins og Háskólanum við Bifröst. Stofnframlagið var rétt rúm ein milljón, en hlutverk stofnunarinnar var að skipuleggja og fjármagna rannsóknarverkefni á mikilvægum sviðum atvinnulífs og efnahagsmála. Háskólinn á Bifröst fer með daglegan rekstur. Raunverulegur eigandi er skráður Vilhjálmur Egilsson, en ársreikningi var seinast skilað árið 2019.

Hverfissjóður Reykjavíkurborgar var stofnaður árið 2011 af Spron-sjóðnum. Stofnframlag voru 20 milljónir, en tilgangur sjóðsins er að gefa íbúum Reykjavíkurborgar kleift að hafa frumkvæði að hverfistengdum verkefnum sem stuðla að t.d. fegurri ásýnd hverfa, auknu öryggi, auðgun mannlífs og samstarfi íbúa og stofnana. Styrkir geti verið allt að 700 þúsund krónur og eru veittir einu sinni á ári. Sjóðurinn hefur verið starfræktur síðan og veitir árlega styrki. Forráðamaður sjóðsins er Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs,  en íbúaráð borgarinnar taka ákvörðun um úthlutun. Sjóðurinn hefur ekki skilað ársreikning síðan 2020.

Minningarsjóður Guðnýjar Stefáns var stofnaður árið 2013 utan um þá fjármuni sem Guðný Stefáns ánafnaði Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar með erfðaskrá sinni. Tilgangur sjóðsins er að styrkja og styðja heilbrigðis- og velferðarmál í Fjallabyggð. Stofnframlag nam tæpum 34 milljónum. Raunverulegur eigandi samkvæmt fyrirtækjaskrá er Sigurður Ómar Hauksson, sem lést á síðasta ári, og stjórnarformaður er Konráð Karl Baldvinsson. Ársreikningi hefur ekki verið skilað síðan 2019.

Rannsóknar-  og styrktarsjóður Lilju G. Hannesdóttur var stofnaður árið 2008 samkvæmt erfðaskrá. Tilgangur sjóðsins er að standa fyrir rannsóknum á miðeyra með sérstöku tilliti til eyrnasuðs, til að komast að því hvers vegna fólk fær eyrnasuð. Rannsóknaraðilar geti sótt styrk úr sjóðnum. Stjórn skuli skipuð yfirlækni háls-, nef- og eyrnadeildar Landspítalans hverju sinni ásamt yfirlækni Heyrna- og talmeinastöðvar Íslands og Óla Birni Hannessyni lækni og bróður Lilju. Stofnfé sjóðsins voru 16 milljónir. Raunverulegir eigendur eru stjórn sjóðsins, en ársreikningi hefur ekki verið skilað síðan 2009.

WOW Sport sjálfseignarstofnun var stofnuð árið 2013, en markmið stofnunarinnar er að efna til árlegrar alþjóðlegrar hjólreiðarkeppni hringinn í kringum landið ásamt því að styrkja og/eða halda aðra íþrótta- og hreyfitengda atburði og/eða starfsemi. Stofnendur voru Skúli Mogensen og Magnús Ragnarsson og flugfélagið WOW air lagði til stofnfé upp á rétt rúma milljón. Raunverulegir eigendur eru stofnendur ásamt Gunnari Fjalari Helgasyni, en ársreikning hefur ekki verið skilað síðan 2017.

Styrktarsjóður Arnarskóla var stofnaður árið 2019 af Kvenfélaginu í Kópavogi sem lagði fram 10 milljónir í stofnfé. Markmið sjóðsins er að afla fjár og veita styrkjum til Arnarskóla til að efla starfsemi skólans svo koma megi betur til móts við þarfir nemenda hans. Sjóðurinn hefur blásið til símasöfnunar, fjármögnunarátaks og fengið styrki í gegnum Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka. Ársreikning hefur þó ekki verið skilað síðan 2020.

Bókasjóður forsetaembættisins að Bessastöðum var stofnaður árið 1969 og skilaði seinast ársreikning fyrir árið 1990.

Aldrei nokkurn tímann

Styrktarsjóður gigtveikra barna var stofnaður á árinu 2014 en hefur aldrei skilað ársreikningi. Sjóðurinn hefur þó svarað kalli um skráningu raunverulegs eiganda og hefur Sunna Brá Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá landlækni og stjórnarmaður í Gigtarfélagið Íslands, verið skráð eigandi samkvæmt fyrirtækjaskrá eftir tilkynningu sem sjóðurinn sendi frá sér fyrir síðustu áramót.

Styrktarsjóður geðheilbrigðis var stofnaður árið 2021 í kjölfar aðalfundar landssamtakanna Geðhjálpar. Samkvæmt þeirri ákvörðun skyldi stofnframlag Geðhjálpar til sjóðsins vera 100 milljónir og stefndu samtökin að því að leggja árlega inn hluta af rekstrarafgangi. Á þessu ári var úthlutað í þriðja sinn úr sjóðnum en engum ársreikningi hefur verið skilað frá stofnun. Samkvæmt fyrirtækjaskrá eru raunverulegir eigendur stjórn sjóðsins, þeirra meðal fyrrverandi formaður Geðhjálpar, Héðinn Unnsteinsson, lögmaðurinn Haraldur Flosi Tryggvason Klein og Guðrún Herdís Flosadóttir, sem hætti í stjórn Geðhjálpar fyrr á þessu ári.

Sollusjóður var stofnaður árið 2021 af Sólveigu Eiríksdóttir, eða Sollu Eiríks eins og hún er betur þekkt. Sjóðurinn er góðgerðarverkefni þar sem íbúar Batahússins geta sótt um styrk til að greiða fyrir þjónustu eða til að komast í sjúkraþjálfun, í nám eða til tannlæknis. Sjóðurinn fékk skráningu í byrjun árs á almannaheillaskrá, en hefur aldrei skilað ársreikning.

Elsusjóður, menntasjóður um endómetríósu var stofnaður árið 2021, en um er að ræða dánargjöf Elsu Guðmundsdóttur, doktorsnema í umhverfisþróunarfræði. Tilgangur sjóðsins er að styrkja leghafa með endómetríósu til háskólanáms og til að vekja athygli á þeim áhrifum sem sjúkdómurinn hefur á líf fólks til að auka skilning í samfélaginu. Eftirlifandi eiginmaður Elsu er skráður raunverulegur eigandi, en engum ársreikningi hefur verið skilað til þessa.

Nýi tónlistarskólinn er sjálfseignarstofnun sem var stofnuð árið 2019 utan um rekstur Nýja tónlistarskólans. Stofnunin fær m.a. framlög frá Reykjavíkurborg, stjórnarfólk er skráð í fyrirtækjaskrá sem raunverulegir eigendur en aldrei hefur ársreikningi verið skilað.

Vinátta í verki er sjálfseignarstofnun sem var stofnuð árið 2018 af Hjálparstarfi kirkjunnar og skákfélaginu Hróknum. Stofnfé var um 38 milljónir sem var afrakstur samnefndrar söfnunar á vegum stofnenda ásamt KALAK vinafélagi Íslands og Grænlands í kjölfar flóðbylgju sem skall á grænlensku bæina Nuugaatsiaq og Illorsui árið 2017. Aldrei hefur verið skilað ársreikningi vegna starfseminnar.

Hofsbót, styrktarsjóður, var stofnaður árið 2007. Tilgangur sjóðsins var að styrkja uppbyggingu íþróttahúss á Hofsósi og efla almennan áhuga fyrir íþróttum og heilbrigðu líferni, m.a. með því að standa fyrir skipulögðum fjársöfnunum, fjáröflunarskemmtunum, sækja um stuðning, stofna til námskeiðahalds og mannfagnaða með áherslu á hollustu og heilbrigt líferni, og að hvetja til almennrar íþróttaiðkunar. Ársreikningi hefur aldreið verið skilað.

Styrktarsjóður Sparnaðar var stofnaður árið 2013. Tilgangur sjóðsins var að starfa að almannaheill og góðgerðarmálum í þágu verkefna sem varða almannahag til framtíðar, s.s. vegna verkefna sem tengd eru menntun, heilbrigði, öldruðum og öryrkjum. Markmið sjóðsins er að styrkja og skipuleggja eftir þörfum hvers konar starfsemi og þjónustu í þágu áðurnefndra atriða. Samkvæmt skipulagsskrá á að veita styrki minnst árlega og þeir auglýstir opinberlega eða kynntir með öðrum fullnægjandi hætti. Stofnandi sjóðsins var Sparnaður ehf. og framlag stofnenda var 8,5 milljónir. Af því framlagi var 1,5 milljón eyrnamerkt sem stofnfé sem ekki mætti skerða. Sparnaður ehf. er í eigu Gests Breiðfjörð Gestssonar, en ekki er að sjá að styrkir hafi verið auglýstir úr sjóðnum eða opinberlega greint frá veitingu þeirra. Sjóðurinn hefur aldrei skilað ársreikningi.

Minningarsjóður Gísla Ísleifs Aðalsteinssonar var stofnaður árið 2018. Markmið sjóðsins er að styrkja ýmis góðgerðarmálefni, svo sem geðheilbrigðismál, eineltismál, fíknivanda og ýmis skyld málefni. Samkvæmt skipulagsskrá eiga styrkir að vera greiddir út einu sinni á ári hverju í september, sem var afmælismánuður Gísla Ísleifs. Stofnandi sjóðsins og raunverulegur eigandi er Ásdís Aðalsteinsdóttir en stofnfé var 1,2 milljónir. Árið 2021 styrkti sjóðurinn barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL, og gaf deildinni kort frá Íslandsbanka að andvirði 400 þúsund króna ásamt púsluspilum, konfekti og fjölda borðspila. Árið 2022 færði sjóðurinn aftur BUGL gjafir, þá 300 þúsund króna kort frá Íslandsbanka, konfekt og borðspil. Sjóðurinn hefur þó aldrei skilað ársreikning.

Samfélagssjóður Fljótsdals var stofnaður árið 2020, en markmið og tilgangur sjóðsins er að styrkja fjárhagslega verkefni á sviði atvinnu, nýsköpunar, umhverfis, velferðar og menningar sem stuðli að jákvæðri samfélagsþróun og/eða eflingu atvinnulífs í Fljótsdal á Héraði nánar tiltekið á því landsvæði sem er innan þeirra sveitarfélagamarka Fljótdalshrepp sem í gildi voru á stofndegi. Fljótsdalshreppur stofnaði sjóðinn og nam stofnframlag 70 milljónum. Sjóðurinn er auglýstur á vefsíðu sveitarfélagsins, seinast var opið fyrir umsóknir í febrúar 2020 en áætlað var að úthluta um 12 milljónum árlega í verkefnastyrki sem falli að markmiðum sjóðsins. Grein hefur verið gerð opinberlega fyrir úthlutun á árunum 2020 og 2021 og 2022 en ekki fyrir yfirstandandi ár. Starfsmaður sjóðsins er Ásdís Helga Bjarnadóttir.

Styrktarsjóður Sigtryggs Sigurðssonar glímukappa var stofnaður árið 2016. Tilgangur sjóðsins var að vera skáklífinu á Íslandi til styrktar, en styrki bar að veita til verkefna sem samræmast tilgangi sjóðsins, t.d. til efnilegra ungra skákmanna, þjálfun og stuðla að skákkennslu á Íslandi og heimsóknum erlendra skákmanna. Sjóðurinn var stofnaður með erfðafé sem Sigtryggur Sigurðsson ánafnaði með erfðaskrá, en stofnfé nam 75 milljónum. Eigendur sjóðsins eru Stefán Ingimar Bjarnason og Júlíus Bjarnason, samkvæmt fyrirmælum erfðaskrár.  Sjóðurinn hefur meðal annars stutt við verkefnið Skákframtíðin, en aldrei þó skilað ársreikning.

Sjálfseignarstofnunin Upplestur var stofnuð árið 2004 fyrir framlag frá Netbankasjóðinum, Þórhildar Elínar Elínardóttur, Helga Hjörvar og Helgu Hjörvar. Stofnfé var 600 þúsund krónur en markmið stofnunarinnar var að styðja og styrkja blinda og sjónskerta, menningarstarfsemi og þar með talið upplestur bóka og bókmennta og miðlun hans. Verði stofnuninni slitið verði fjármunum varið í málefni í þágu almannaheilla í samræmi við tilgang. Ekki er að finna opinbera umfjöllun um starfsemi sjóðsins sem hefur aldrei skilað ársreikning.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Brynjar Níelsson: Mistök að leyfa þjóðinni ekki að ákveða hvort hún vildi fara inn í Evrópusambandið – Viðreisn þurfti ekki að verða til

Brynjar Níelsson: Mistök að leyfa þjóðinni ekki að ákveða hvort hún vildi fara inn í Evrópusambandið – Viðreisn þurfti ekki að verða til
Eyjan
Fyrir 3 dögum

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“