Tveir landsþekktir prófessorar í stjórnmálafræði, þeir Eiríkur Bergmann Einarsson,og Ólafur Harðarson, eru sammála um að nýjasta uppákoman í ríkisstjórninni sé mjög óheppileg fyrir stjórnarsamstarfið.
Utanríkisráðherra Bjarna Benediktssyni og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra greinir á um afstöðu Íslands til krafna um vopnahlé á Gaza-ströndinni. Bjarni tók þá ákvörðun fyrir hönd Íslands að sitja hjá í atkvæðagreiðslu SÞ um áskorun um tafarlaust vopnahlé á Gaza. Ástæða hjásetunnar var sú að í ályktuninni var ekki að finna fordæmingu á hryðjuverkum Hamas-skæruliðahreyfingarinnar.
Katrín hefur sagt í fjölmiðlaviðtölum að ekkert samráð hafi verið haft við hana um þá ákvörðun að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna. Auk þess taldi hún að Ísland hefði átt að greiða atkvæði með ályktuninni. Bjarni varpaði sprengju inn í umræðuna í hádegisfréttum er hann fullyrti að Katrín hefði verið fyllilega upplýst um ákvörðunina:
„Í fyrsta lagi þá tel ég að við höfum verið að framfylgja þeirri stefnu sem að við höfum verið sammála um og ég sé ekki að það sé neinn áherslumunur í sjálfu sér á þeim skilaboðum sem við stöndum saman um í þessari ríkisstjórn að senda út frá okkur. Forsætisráðuneytið var upplýst um það með hvaða hætti atkvæði yrðu greidd við þessa atkvæðagreiðslu og eins líka hafði forsætisráðuneytið fengið send drög að ræðu sem til stóð að flytja,“ sagði Bjarni í viðtali við RÚV.
Ljóst er að utanríkisráðherra og forsætisráðherra eru ekki bara ósammála um afstöðu í málinu heldur ber þeim ekki saman um upplýsingagjöf þeirra á milli.
„Ofan á efnisatriði málsins er vitaskuld sérdeilis sérstakt að forsætisráðherra og utanríkisráðherra deili um það fyrir opnum tjöldum hvort að forystumaður ríkisstjórnarinnar, sem hefur æðsta forsvar Íslenska ríkisins á sínum höndum, hafi verið rétt og fyllilega upplýstur um ákvörðun um hjásetu,“ segir Eiríkur.
Varðandi þá spurningu hvort þetta geti sprengt ríkisstjórnina þá segir Eiríkur að maður viti aldrei hvaða dropi það sé sem fylli mælinn:
„Hvort að ríkisstjórnin lifi svona lagað af líkt og fyrri krytur er ómögulegt að segja á þessari stundu. Maður veit það aldrei fyrirfram hvaða korn það er sem fyllir mælinn. En þau eru allavega allnokkur komnir í hann, kornin.“
Ólafur Harðarson efast um að þetta mál bindi enda á líf ríkisstjórnarinnar en það sé óþægilegt fyrir stjórnina:
„Enn eitt tilvikið um ágreining og núning í ríkisstjórninni. Óþægilegt fyrir stjórnina, ekki síst í ljósi sáttafunda þingflokka og yfirlýsinga flokksforingja um einingu í stjórninni. Frekar ólíklegt þó að þetta skipti sköpum um framhaldslíf stjórnarinnar.“
Vísir greinir frá því að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hefði borist tölvupóstur 11 mínútum fyrir atkvæðagreiðsluna umtöluðu hjá SÞ. Segist hún ekki hafa séð póstinn fyrr en eftir að atkvæðagreiðslan hófst og ekki hafi verið óskað sérstaklega eftir afstöðu hennar til málsins.