Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, rak samherja sínum Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, sannkallaðan pólitískan löðrung nú fyrir stundu. Sagði hann að ráðuneyti Katrínar hefði verið upplýst um með hvaða hætti sendinefnd Íslands myndi greiða í atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna varðandi vopnahlé á Gaza.
Sú ákvörðun Íslands að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni hefur vakið mikla reiði en í gær sagði Katrín að ekkert samráð hefði verið haft við hana varðandi hjásetuna.
„Í fyrsta lagi þá tel ég að við höfum verið að framfylgja þeirri stefnu sem að við höfum verið sammála um og ég sé ekki að það sé neinn áherslumunur í sjálfu sér á þeim skilaboðum sem við stöndum saman um í þessari ríkisstjórn að senda út frá okkur. Forsætisráðuneytið var upplýst um það með hvaða hætti atkvæði yrðu greidd við þessa atkvæðagreiðslu og eins líka hafði forsætisráðuneytið fengið send drög að ræðu sem til stóð að flytja,“ sagði Bjarni í samtali við RÚV sem fjallar ítarlega um málið.