Í síðustu viku stóð Vegagerðin fyrir morgunfundi um Sundabraut þar sem fyrirhuguð framkvæmd var kynnt, ásamt áherslum í komandi umhverfismati. Kom fram að áætlaður framkvæmdatími væri á árunum 2026 til 2031. Bergþór segir að það sé til bóta að enn annar tjaldhællinn hafi verið rekinn niður í þessari vinnu.
„Fram til þessa hafa allir steinar sem menn hafa fundið verið lagðir í götu þessa verkefnis. Landsvæðið undan heppilegustu veglínu Sundabrautar var selt með hraði til verktaka fyrir íbúðabyggð svo sú leið varð ófær. Byggð hefur verið þrengt upp að áætlaðri veglínu í Gufunesinu, stæðilegustu „bráðabirgða“-húsum hefur verið komið fyrir í vegstæðinu og svo mætti lengi telja,“ segir Bergþór og heldur áfram:
„Það er því ekki skrýtið að maður stoppi við og hugsi – hvaða steinn ætli verði tekinn næst og lagður í götu Sundabrautar? Hvernig verður næst komið í veg fyrir þessa arðsömustu samgöngubót landsins?“
Bergþór segist þegar sjá glitta í einn og nefnir að nú sé orðið þannig að til að leggja megi Sundabrautina þá virðist fyrst að leggja Sæbrautina í stokk.
„Það er verkefni sem kostar ævintýralega mikið og bætir engu við hvað umferðarrýmd varðar, það verða áfram tvær akreinar í hvora átt á Sæbrautinni.“
Bergþór segir það alla tíð hafa verið lykilsjónarmið fulltrúa Reykjavíkurborgar að tengja ekki saman samgöngusáttmálann og lagningu Sundabrautar, með Sæbrautarstokki eða ekki.
„Sundabrautin hefur, til þessa, verið utan við samgöngusáttmálann. En nú er það skyndilega svo að hinn rándýri Sæbrautarstokkur er orðinn forsenda Sundabrautar, svo Sundabraut geti tengst við Sæbraut vestan Kleppsvíkur.“
Bergþór segir það vera og verða vandséð hvernig þessi forsenda kom til. „Nema þá helst til að þeir sem mestu ráða í Reykjavík geti enn tafið verkefnið og lagt annan stein í götu þess. Borgarstjórinn vill ekki Sundabrautina – það er orðið dagljóst.“
Bergþór nefnir svo að í skýrslu verkefnahóps á vegum samgönguráðherra sem skilaði skýrslu sinni 2019 hafi hvergi komið fram að lagning Sæbrautar í stokk væri forsenda Sundabrautar.
„Því var svo ranglega haldið fram í samgöngusáttmálanum að það hefði verið niðurstaðan að ein forsenda Sundabrautar væri Sæbrautarstokkurinn. Niðurstaðan er og verður að það er engin nauðsynleg tenging á milli verkefnanna tveggja, Sundabrautar og Sæbrautarstokks. Fyrir utan hið augljósa að það væri þægilegt að geta gert allt strax, en raunheimar leyfa það ekki alltaf,“ segir Bergþór og endar grein sína á þessum orðum:
„Þeir sem raunverulega vilja tryggja að Sundabraut verði lögð skulu því gæta sín á þessum leik borgarstjóra og innviðaráðherra. Sundabrautin á að ganga fyrir þegar kemur að samgöngubótum.“