„Þetta er alveg eins og í fyrra, kapphlaup um rafbíla fyrir áramótin, nema nú selst enn meira,“ hefur Morgunblaðið eftir Agli Jóhannssyni, forstjóra Brimborgar. Hann sagði að margir hafi lagt leið sína í umboðið því fólk vilji tryggja sér rafbíl.
Hvað varðar stöðuna á bílamarkaðnum sagði hann hana erfiða því það skorti upp á fyrirsjáanleika. Umboðin viti ekki hvort nýjar ívilnanir komi til sögunnar um áramótin og ef svo er, hvernig þær verða útfærðar.
Algengt sé að það líði um sex mánuðir frá því að bílaumboð panti bíla þar til þeir koma til landsins. Bílarnir sem eru að seljast nú hafi verið pantaðir í febrúar og mars. „Við vissum þó af þessum breytingum um áramót og gátum veðjað á þetta. Því pöntuðum við gríðarlegt magn af nýjum bílum fyrripart ársins og í fyrra,“ sagði Egill.
Hann sagði að í september hafi 89% fleiri rafbílar selst en í september á síðasta ári. Á síðustu þremur mánuðum hafi hlutdeild rafbíla í heildarsölunni verið rúmlega 70%. Í september var hún 73%.