Rafbílaeigendur munu þurfa að greiða sex krónur fyrir hvern ekinn kílómetra frá og með næsta ári nái frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra fram að ganga.
Frumvarpið hefur verið birt í Samráðsgátt stjórnvalda.
Fram kemur í greinargerð frumvarpsins að fjölgun vistvænna og sparneytinna bifreiða hafi leitt til þess að skatttekjur ríkissjóðs af ökutækjum og eldsneyti hafa rýrnað umtalsvert og sú þróun muni halda áfram á næstu árum ef ekkert verður gert. Samhliða þessu hafi myndast vaxandi ójafnræði í núverandi gjaldtökukerfi milli þeirra sem nýta samgönguinnviðina.
„Á sama tíma er fyrir hendi viðvarandi þörf fyrir, og áform um, að byggja upp og viðhalda vegakerfinu. Sú þörf mun síst minnka í fyrirsjáanlegri framtíð með vaxandi íbúafjölda, grósku í ferðaþjónustu og tilheyrandi umferð. Við þessari þróun þarf að bregðast og innleiða nýtt einfaldara, gagnsærra og sjálfbærara fyrirkomulag gjaldtöku til framtíðar.“
Sem fyrr segir er lagt til að kílómetragjald fyrir rafmagns- og vetnisbíla verði sex krónur og að eigendur tengiltvinnbíla greiði tvær krónur á hvern ekinn kílómetra sem er um það bil þriðjungur af álögðu kílómetragjaldi á árinu 2024.
Gert er ráð fyrir að krónutölurnar verði endurskoðaðar við innleiðingu nýs heildarkerfis skattlagningar ökutækis og eldsneytis á árinu 2025.