fbpx
Sunnudagur 29.janúar 2023
Eyjan

Hvetur Ólöfu Helgu til að snúa sér að öðru en „auðvirðilegu niðurrifi og ógeðslegri aðför að hagsmunum verka- og láglaunafólks“

Eyjan
Miðvikudaginn 11. janúar 2023 18:33

Sólveig Anna Jónsdóttir, Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hvetur Ólöfu Helgu Adolfsdóttur, ritara Eflingar, til þess að snúa sér að öðru en „auðvirðilegu niðurrifi og ógeðslegri aðför að hagsmunum verka- og láglaunafólks“. Þetta kemur fram í pistli verkalýðsleiðtogans á Facebook þar sem hún fer mikinn og lýsir því hvernig að Ólöf Helga, að hennar mati sé óhæf til þess að vinna að trúnaðarstörfum fyrir verkalýðsfélagið.

Sólveig Anna hjólar meðal annars í Morgunblaðið og fréttir dagsins á miðlinum þar sem því er velt upp hvort að Sólveig Anna og stjórn Eflingar séu að brjóta lög félagsins með því að útiloka Ólöfu Helgu frá störfum samninganefndar Eflingar þar sem hún á sæti.

Ég veit að best væri fyrir mig að segja ekkert við þessari „fréttamennsku“ og einlægum áhuga Moggans á hetjudáðum Ólafar Helgu, konunnar sem ræðst ítrekað að félagsfólki Eflingar í sí-tryllingslegri tilraunum til að fá athygli í baráttu sinni gegn stjórn félagsins, formanni og samninganefnd, en ég fæ ekki orða bundist,“ skrifar Sólveig Anna.

Barst áskorun um að svipta Ólöfu Helgu og Agnieszku Ewu rétti til að sinna trúnaðarstörfum

Hún rekur svo hvernig að hegðun Ólafar Helgu hafi verið frá hennar bæjardyrum sér.

„Eins og þið kannski munið gerði Ólöf Helga tilraun til þess að fá öllum þingfulltrúum Eflingar, 54 talsins, formanni félagsins þar með töldum, vísað af þingi Alþýðusambandsins í haust. Þetta gerði hún þrátt fyrir að kjörbréfanefnd sem starfaði í aðdraganda þingsins á vettvangi ASÍ hefði úrskurðað kjörbréf þingfulltrúa Eflingar lögleg og þrátt fyrir lögfræðilegt álit sem að sýndi fram á val á þingfulltrúum hjá félaginu hefði verið í algjöru samræmi við lög, reglur og hefðir Eflingar. Þessi aðför Ólafar að þingfulltrúum Eflingar, í samvinnu við Agnieszku Ewu, forystusveit ASÍ-ung, og nokkra aðila innan úr SGS félögunum og sjómannafélögunum, vakti auðvitað upp mikil viðbrögð. Eflingar-fólki var skiljanlega sárlega misboðið yfir þessari aðför að félagsfólki og að lýðræðislega kjörinni forystu félagsins, þessari grófu tilraun til að niðurlægja okkur á vettvangi hreyfingarinnar með því að láta reka okkur út af þinginu eins og hvern annan ruslaralýð. Nokkrum dögum eftir aðför Ólafar Helgu og félaga að Eflingar-fólki barst mér áskorun, undirrituð af því sem næst öllum þingfulltrúum Eflingar, þar sem skorað var á trúnaðarráð að beita 8. grein laga félagsins til að svipta Ólöfu Helgu og Agnieszku Ewu rétti til að sinna trúnaðarstörfum á vegum félagsins, vegna þess tjóns og ógagns sem þær höfðu bakað félaginu með fordæmalausu framferði sínu á þingi ASÍ. Þetta er einmitt sú grein laga félagsins sem að Mbl.is vísar til í umfjöllun sinni um hvort ekki sé hægt að reka formann, stjórn, og samninganefnd burt úr Eflingu svo að Ólöf Helga geti tekið við stjórnartaumunum,“ skrifar Sólveig Anna.

Hlífði Ólöfu Helgu við niðurlægingu

Hún segist hafa meðtekið áskorun þingfulltrúa og tekið hana mjög alvarlega. Undir áskorunina hafi stór hópur félagsfólks skrifað sem hafi tekið virkan þátt í baráttu félagsins.

„Sem formanni ber mér að hlusta á raddir félagsfólks. En ég komst að þeirri niðurstöðu að eiga samtal við þetta góða og frábæra fólk þar sem ég bað þau um að sýna því skilning að mín afstaða væri að ekki væri rétt að fara þessa leið. Að þær stöllur væru meðlimir í stjórn félagsins. Og að við þyrftum að gera okkar besta til að reyna að lifa með því, þrátt fyrir að framferði þeirra væri óþolandi og í raun ólíðandi. Ég veit að ef tillaga þingfulltrúa Eflingar hefði verið borin upp á trúnaðarráðsfundi hjá félaginu hefði hún verið samþykkt. Framferði Ólafar, stöðugar árásir á kjörna forystu félagsins, stöðugar tilraunir hennar til að hleypa upp starfi félagsins, innbrot hennar og Agnieszku Ewu í tölvupósthólf mitt og útprentanir á tölvupóstum mínum, aðför að störfum samninganefndar félagsins í harðri kjaradeilu; allt þetta hefur auðvitað gert það að verkum að þolinmæði fólks gagnvart henni og varaformanni er á þrotum,“ skrifar Sólveig Anna.

Hún segist enn telja að það hafi verið rétt ákvörðun hjá henni að eiga samtal  við þingfulltrúa Eflingar og biðja þá um að hlífa Ólöfu Helgu við þeirri „niðurlægingu“ að vera svipt rétti til að gegna trúnaðarstörfum.

„Þrátt fyrir að ég hafi í raun verið afstöðu þeirra sammála, að Ólöf Helga sé ekki fær um að starfa af trúnaði og hollustu við félagsfólk og að framferði hennar sanni það og sýni aftur og aftur. Þrátt fyrir að stjórn og nú samninganefnd hafi þurft að þola endalausan illvilja og hefnigirni Ólafar Helgu gagnvart lýðræðislega kjörinni forystu félagsins. Þrátt fyrir að aðför hennar að samninganefnd félagsins fari eflaust í sögubækurnar sem eitt af lágkúrulegustu dæmum sem hægt er að hugsa sér um persónulega framasýki ofar hagsmunum annara,“ skrifar Sólveig Anna ennfremur.

Segir Ólöfu Helgu á framabraut innan Samfylkingarinnar

Hún segist hafa borið þá von í brjósti og geri enn að Ólöf Helga  leyfi lýðræðislega kjörinni forystu félagsins að starfa án þess að þurfa að sitja undir stöðugum árásum.

Ég hef vonað og vona enn að hún leyfi samninganefnd að halda áfram sínu mikilvæga og góða starfi í þágu félagsfólks, án þess að þurfa að þola að manneskja sem nýtur einskis trausts, manneskja sem setur eigin hagsmuni í heyranda hljóði og fyrir allra augum ofar hagsmunum allrar samninganefndarinnar og þeirra sem hún er að vinna fyrir, manneskja sem er með beina niðurrifs-útsendinu á Mbl.is bókstaflega heilu dagana til að grafa undan kjarabaráttu vinnuafls höfuðborgarsvæðisins, þröngvi sér upp á nefndina í óþökk allra þar. Ég veit ekki alveg afhverju ég er að vona þetta. Það er auðvitað fremur augljóst að einstaklega ólíklegt er að svo verði. En kannski getur einhver liðsinnt Ólöfu Helgu og leitt henni fyrir sjónir að nýjasta aðför hennar, nú gagnvart verkafólki í harðri kjaradeilu er sjaldséð, nema af hálfu harðsvíraðra atvinnurekenda og áróðursmeistara þeirra. Að kannski sé tímabært fyrir hana, sérstaklega með það í huga að hún er á framabraut innan Samfylkingarinnar sem vonarstjarna svokallaðs verkalýðsráðs flokksins, að snúa sér að öðru en auðvirðilegu niðurrifi og ógeðslegri aðför að hagsmunum verka og láglaunafólks. Kannski getur einhver hjálpað henni að skilja að það eru mjög raunverulegar og veigamiklar ástæður fyrir því að hún er ekki velkomin á fundi samninganefndar og að sem fullorðin manneskja eigi hún að reyna að horfast í augu við eigið framferði og þær afleiðingar sem að það hefur haft.“ skrifar verkalýðsforinginn.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kosning um verkfall hefst á morgun – Nær til starfsstöðva Íslandshótela á félagsvæði Eflingar

Kosning um verkfall hefst á morgun – Nær til starfsstöðva Íslandshótela á félagsvæði Eflingar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þessu tapa Eflingarfélagar á því að missa möguleikann á afturvirkum kjarasamningi

Þessu tapa Eflingarfélagar á því að missa möguleikann á afturvirkum kjarasamningi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Leví: „Það ætti að hringja öll­um viðvör­un­ar­bjöll­um“

Björn Leví: „Það ætti að hringja öll­um viðvör­un­ar­bjöll­um“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Simmi Vill segir að svona sé hægt að sporna gegn frekari verðbólgu á Íslandi

Simmi Vill segir að svona sé hægt að sporna gegn frekari verðbólgu á Íslandi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jacinda Ardern segir af sér embætti forsætisráðherra

Jacinda Ardern segir af sér embætti forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Nýjar ásakanir á hendur umdeildum þingmanni – Sagður hafa stolið peningum frá hundi

Nýjar ásakanir á hendur umdeildum þingmanni – Sagður hafa stolið peningum frá hundi