Marinó Örn Tryggvason hefur látið af störfum sem forstjóri Kviku banka, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Í henni kemur fram að stjórn Kviku hafi ráðið Ármann Þorvaldsson sem forstjóra bankans og hefur hann þegar hafið störf. Ármann vék til hliðar sem forstjóri fyrirtækisins fyrir Marinó á sínum tíma en tekur nú við keflinu að nýju.
Marinó hóf störf sem aðstoðarforstjóri Kviku í ágúst 2017 og tók við sem forstjóri í maí 2019.
„Stjórn Kviku banka og forstjóri bankans, Marinó Örn Tryggvason, hafa í dag gert samkomulag um starfslok forstjóra bankans. Viðræður um starfslokin áttu sér stað að frumkvæði forstjórans. Hann hefur látið af störfum,“ segir í tilkynningunni.
Henni fylgir auk þess yfirlýsing þar sem Marinó segist ekki telja rétt að hann leiði félagið í áframhaldandi uppbyggingu þess en hann sé stoltur af því sem hann hefur áorkað hingað til enda fyrirtækið orðið eitt það verðmætasta á landinu.
„Ég hóf störf hjá Kviku fyrir rúmum sex árum og hef verið forstjóri félagsins síðustu fjögur ár. Á þessum tíma hefur bankinn breyst mikið og er núna orðið eitt af stærstu og verðmætustu fyrirtækjum landsins. Ég er stoltur af því hvað okkur, sem störfum hjá félaginu, hefur tekist að efla rekstur þess og vöxt.
Félagið stendur á ákveðnum tímamótum þar sem fjárfestingar undanfarinna ára í innri vexti, svo sem útvíkkun á fjártæknistarfsemi, eru farnar að skila sér. Þá hefur Kvika aukið samkeppni á innlendum fjármálamarkaði sem skilar miklum ávinningi til samfélagsins. Framundan eru mikil tækifæri fyrir frekari vöxt og uppbyggingu bankans á þessum grunni.
Á undanförnum vikum hef ég hugsað um það hvort ég telji rétt að ég leiði félagið í áframhaldandi uppbyggingu. Niðurstaða mín var að ég óskaði eftir því að ljúka störfum og tel það skynsamlega niðurstöðu bæði fyrir mig og félagið.
Mig langar til þess að þakka stjórn og starfsmönnum fyrir gott samstarf á undanförnum árum. Hjá félaginu starfar stór hópur öflugs starfsfólks og ég mun sakna samstarfsfélaganna en á sama tíma verður spennandi að fylgjast með þeim ná áframhaldandi árangri.“