Margrét Rós Sigurjónsdóttir, umhverfisfræðingur og sérfræðingur í sjálfbærni, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri þingflokks Pírata.
Margrét bjó í Stokkhólmi í Svíþjóð í 13 ár og starfaði þar hjá Naturskyddsföreningen, stærstu náttúruverndarsamtökum Norðurlandanna, meðal annars í verkefnum tengdum grasrót samtakanna sem og kosningatengdum verkefnum. Auk þess hefur hún starfað við sjálfbærnimál í tengslum við veitingarekstur í Svíþjóð. Margrét er með meistarapróf í sjálfbærni frá Stockholm Resilience Centre og BS í umhverfisfræði frá Stokkhólmsháskóla.
Margrét Rós starfaði áður sem verkefnastjóri sjálfbærni hjá HS Orku.
„Þingflokkur Pírata samanstendur af öflugu stjórnmálafólki sem vill standa vörð um fólk, frelsi þess og mannréttindi. Píratar eru auk þess með raunhæfustu umhverfisstefnuna af öllum flokkum á Alþingi að mínu mati, sem skiptir mig miklu máli. Stjórnmál hafa alltaf heillað mig og það er mjög spennandi að fá að starfa með þingflokki Pírata í þessu pólitíska landslagi þar sem öflugt aðhald við stjórnarflokkana hefur sjaldan verið mikilvægara. Píratar eru hreyfing sem áttar sig á áskorunum framtíðarinnar og ég er spennt að vinna með Pírötum í þingstörfunum og í komandi kosningum,“ er haft eftir Margréti í fréttatilkynningu.