Þau gleðitíðindi bárust í vikunni að ríkisstofnunin Persónuvernd hefði fundið nýja leið til að afla fjár í ríkissjóð. Nefnilega að sekta ríkisstofnunina Landlækisembættið um 12 milljónir vegna þess að einhverjir kunnáttumenn komust inn í gagnagrunninn Heilsuveru og fundu þar sónarmyndir af ófæddum börnum.
Kunningi Svarthöfða segir oft sögu frá þeim tíma sem sá vann í banka. Til hans kom maður með hugmynd sem gæti flokkast undir nýsköpun í fjármálaþjónustu. Hann vildi fá lán í bankanum, andvirði lánsins átti að leggja inn á bankabók og nýta vextina af innstæðunni til að greiða niður lánið.
Í hvert sinn sem Svarthöfði hlustar á þessa sögu, sem er alloft, undrast hann hvers vegna þessum „hringlánum“ hefur ekki verið bætt við framboð í þjónustu banka hér á landi og er þess handviss að svona snjöll hugmynd hefði ekki farið framhjá erlendum bönkum, hefðu þeir haft starfsemi hér á landi.
Sagan af tekjuöflun Persónuverndar kallar á hugrenningatengsl við þessa sögu kunningjans. Við blasir að embætti Landlæknis þarf að greiða þessa sekt að óbreyttu af sínu rekstrarfé sem … rennur til stofnunarinnar úr ríkissjóði. Þeim sama ríkissjóði og álögð 12 milljón króna sektin rennur í.
Það eru svona mál sem fá Svarthöfða til að skilja hvers vegna opinberum starfsmönnum fjölgar sífellt. Það geta ekki allir haft atvinnu af því að klippa hver annan.