Helgi Vífill Júlíusson blaðamaður á Innherja, viðskiptavef Vísis, ritar grein í dag þar sem hann mælir eindregið fyrir því að skólaárið hér á landi verði lengt. Hann segir það athyglisvert að enginn kennari hafi lýst þessu sjónarmiði opinberlega eftir að rannsóknir sýndu að nemendur sem höfðu lokið fjögurra ára framhaldsskólanámi stóðu sig betur í námi við Háskóla Íslands en þau sem lokið hafa sama námi á þremur árum eftir að námið var stytt:
„Vandinn sem við er að etja er ekki að framhaldsskólanám var stytt úr fjórum árum í þrjú til að nemendur gætu hafið háskólanám fyrr, eins og sumir telja. Það var gert til að færa aldurinn sem fólk getur hafið háskólanám nær því sem tíðkast annars staðar í heiminum.“
Helgi vill lengja skólaár grunnskóla til að vega upp á móti styttingu framhaldsskólanámsins.
Hann segir of langt sumarfrí á öllum skólastigum, nema á leikskólum. Rannsóknir sýni að nemendur sem taka of löng sumarfrí hafi gleymt miklu af því sem þeir lærðu á síðasta skólaári.
Foreldrar fái ekki jafn löng sumarfrí og börnin og hafi mismikil efni á að senda þau á uppbyggileg sumarnámskeið. Börn efnaminni foreldra eyði eflaust sumrinu í sjónvarpsgláp og tölvuleiki:
„Það er með ólíkindum hversu illa nýtt sumrin hafa verið til náms áratugum saman.“
Helgi segir góða menntun forsendu þess að hægt verði að byggja upp öflugan þekkingariðnað á Íslandi:
„Það þarf að róa öllum árum til að efla hann enda er munu tækniframfarir knýja hagvöxt á 21. öldinni. Mikil hagsæld hérlendis á 20. öldinni má nefnilega þakka hagnýtingu náttúruauðlinda sem krafðist ekki mikillar menntunar. Þær eru takmörkunum háðar, við veiðum til dæmis ekki fleiri tonn úr sjónum.“
Þess vegna sé það mikilvægt efnahagsmál að efla menntun á Íslandi. Skapa verði áhugaverð störf í hugverkaiðnaði til að halda í ungt, menntað fólk og auka velmegun. Veðrið á Íslandi eigi líka að geta hjálpað til:
„Börnin sitja ekki oft í kennslustofum og horfa dreymin á góða veðrið. Það er að minnsta erfitt í rigningu og roki.“