Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri á sviði fyrirtækja og fjárfesta hjá Íslandsbanka, hefur ákveðið að stíga til hliðar. Kristín Hrönn Guðmundsdóttir hefur verið ráðin í stað hans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka í kvöld. Ásmundur hefur gegnt stöðunni frá ársbyrjun 2019.
Brotthvarf Ásmundar kemur í kjölfar afsagnar Birnu Einarsdóttur, bankastjóra, í vikunni sem leið. Störf Ásmundar hafa sætt gagnrýni en í skýrslu fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands(FME) sem gefin um sölu bankans á 22,5% hlut íslenska ríkisins í bankanum á síðasta ári kom fram að Ásmundur hafi sett sig í samband við regluvörslu bankans til að liðka fyrir kaupum starfsmanna bankans.
Sjálfur keypti Ásmundur 96.108 hluti í útboðinu á 11,2 milljónir króna. Eins og DV fjallaði um á sínum tíma vöktu sú kaup athygli í ljósi þess að hann er eiginmaður Önnu Lísu Björnsdóttur sem er framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri grænna.
Sjá einnig: Eiginmaður framkvæmdastjóra þingflokks Vinstri grænna keypti í Íslandsbanka
Kristín Hrönn hefur yfir 20 ára reynslu sem stjórnandi á fjármálamörkuðum. Hún stýrði teymi verslunar og þjónustu meðal stærri fyrirtækja á árunum 2013-2019 og hefur síðan þá verið forstöðumaður fjármála, reksturs og stefnumótunar á sviðinu auk þess að sitja í lánanefndum, efnahagsnefnd og fjárfestingarráði bankans.