Síðastliðið sumar undirritaði ríkisstjórnin rammasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga um að stefnt verði að uppbyggingu 35.000 íbúða á næstu 10 árum. Samningurinn gerir ráð fyrir að á árunum 2023 til 2027 verði byggðar að lágmarki 4.000 íbúðir á ári, þar af um 1.200 hagkvæmar íbúðir.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, bendir á í aðsendri grein á Vísir.is í dag að samningurinn haldi ekki og í besta falli verði byggðar 400 hagkvæmar íbúðir næstu árin í stað 1.200. Jóhann Páll segir að ríkisstjórnin sé að gefast upp á markmiðunum sem sett voru í rammasamningnum við Samband íslenskra sveitarfélaga en það megi hún ekki gera. Hann bendir á umsögn SÍS um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024-2028:
„Í fjármálaáætlun kemur fram að árin 2024 til 2028 er gert ráð fyrir að veita stofnframlög í heild að fjárhæð 18,7 ma.kr. og veitt lán 20 ma.kr. á ári. Til þess að efna rammasamninginn telur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að stofnframlög þyrftu að vera 44 ma.kr. yfir þetta tímabil og lánveitingar 188 ma.kr. Hér er um að ræða fullkominn forsendubrest. Verði þessi reyndin blasir við að íbúðaþörf næstu ára verði alls ekki fullnægt með fyrirsjáanlegum áhrifum á íbúðaverð og þar með verðbólgu.“
Jóhann Páll segir ennfremur í grein sinni:
„En það er of mikið í húfi til að ríkisstjórnin geti leyft sér að gefast upp. Ónæg íbúðauppbygging og dýpkandi gjá milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir almenning á Íslandi.
Gera verður þá kröfu til ríkisstjórnarinnar að hún verji af öllum mætti trúverðugleika rammasamningsins og sýni að þrátt fyrir „fullkominn forsendubrest“ í fjármálaáætlun sé alvara á bak við meginmarkmiðin og pólitískur vilji til að fylgja þeim eftir.“
Hann bendir á að í aðgerðaáætlun rammasamningsins sé gert fyrir að sveitarfélög geti gert kröfu um að allt að 25% af byggingarmagni samkvæmt nýju deiliskipulagi verði fyrir félagslegt húsnæði. Um er að ræða svokallað Carlsberg-ákvæði. Jóhann Páll leggur þunga áherslu á að þetta loforð verði efnt og gagnrýnir úrtöluraddir byggingarfyrirtækja gegn þeim áformum:
„Samkvæmt upphaflegri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar átti innviðaráðherra að leggja fram frumvarp um Carlsberg-ákvæði í október 2022. Það gerði hann ekki. Hins vegar birti ráðuneytið drög að frumvarpi í Samráðsgátt stjórnvalda sem verktakafyrirtæki og hagsmunasamtök þeirra hafa brugðist harkalega við. „Fjárfestingar félagsins í landsvæðum hafa byggst á að hér ríki áfram frjálsræði en ekki forsjárhyggja þess opinbera,“ segir t.d. í umsögn stórs byggingafyrirtækis sem „mótmælir því harðlega að veitt verði lagaheimild til að skerða eignarrétt félagsins“. Ríkisstjórn og Alþingi mega ekki lyppast niður gagnvart svona upphrópunum frá aðilum sem græða á óbreyttu óstandi. Mikilvægt er að frumvarpið um Carlsberg-ákvæði verði flutt á Alþingi sem allra fyrst og afgreitt hratt og vel.“
Einnig er gert ráð fyrir frumvarpi sem stefnt er gegn lóðabraski og á að koma í veg fyrir að verktakar sitji á lóðum árum saman án þess að uppbygging eigi sér stað.
Jóhann Páll heldur því fram að Reykjavíkurborg dragi vagninn í óhagnaðardrifinni uppbyggingu íbúðarhúsnæðis: „Samningur Reykjavíkurborgar og ríkisins gerir ráð fyrir byggingu allt að 2 þúsund íbúða á ári næstu fimm árin, að byggingarhæf svæði og lóðir ár hvert rúmi 1.500-3.000 íbúðir og að íbúðir í grennd við hágæða almenningssamgöngur njóti forgangs í almenna íbúðakerfinu. Auk þess er mælt fyrir um að hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði nemi minnst 40% af heildaruppbyggingu á lóðum og löndum í eigu Reykjavíkurborgar og ríkisins. Vonandi reynast fleiri fjölmenn sveitarfélög tilbúin að gangast undir sams konar skuldbindingar um útvegun lóða og óhagnaðardrifna íbúðauppbyggingu.“
Jóhann Páll segir að skattleggja þurfi íbúðir sem standa auðar sérstaklega og bendir á ð 15% íbúðarhúsnæðis í Reykjavík sé án lögheimilisskráningar og 16% á Akureyri. Hann segir að nokkrar aðgerðir í húsnæðismálum þoli enga bið, meðal annars leigubremsa þar sem settar verði takmarkanir á hvað húsaleiga getur hækkað mikið milli ára.
Ennfremur segir hann að vaxtabætur verði að hækka. „Hækkun á hámarki vaxtabóta myndi koma sér best fyrir allra tekjulægstu og skuldsettustu heimilin.“
Hann vill styrkja réttarstöðu leigjenda með því að þeir fái forgangsrétt til áframhaldandi leigu húsnæðis að loknum umsöndum leigutíma. „Að sama skapi er löngu tímabært að heimildir leigusala til uppsagnar á ótímabundnum leigusamningum verði bundnar ákveðnum skilyrðum samkvæmt lögum, en þar má t.a.m. líta til 51. gr húsaleigulaga þar sem tilgreindar eru ýmsar aðstæður sem geta leitt til þess að forgangsréttur leigjanda til áframhaldandi leigu falli úr gildi,“ segir hann ennfremur.
Jóhann Páll segir í lok greinar sinnar:
„Þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í húsnæðismálum kalla á markvissa samvinnu ríkis, sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar. Ríkisstjórnin má ekki gefast upp. Nú hefur ríkisstjórnin það hlutverk að sýna frumkvæði og forystu, senda skýr skilaboð um að það komi ekkert annað til greina en að verja húsnæðisöryggi fólksins í landinu og skapa heilbrigðan húsnæðismarkað á Íslandi.“