Meirihlutinn í Kópavogi samþykkti á fundi bæjarstjórnar í vikunni tillögur Ásdísar Kristjánsdóttur um breytingar á starfsemi menningarhúsa bæjarins. Meðal annars að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogs, breyta opnunartíma Gerðarsafns, færa safneign Náttúrufræðistofu undir Gerðarsafn, leggja niður rannsóknarstarfseni Náttúrufræðistofu, auka sjálfsafgreiðslu í Bókasafni Kópavogs og útbúa nýtt upplifunarrými á fyrstu hæð Bókasafnsins og Náttúrufræðistofu.
Minnihlutinn í bæjarstjórn lagði fram bókun þegar tillögurnar voru ræddar þar sem segir:
„Allar tillögur bæjarstjóra eru ótækar til ákvörðunar í bæjarstjórn vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum. Engin greining liggur fyrir á þeim kostnaði eða sparnaði sem tillögurnar eiga að leiða til. Margar staðhæfingar í skýrslu KPMG sem tillögurnar byggjast á eru rangar. Þá hefur ekki verið unnt að eiga samráð vegna þeirrar leyndar sem hefur hvílt á tillögunum allt fram að fundi bæjarstjórnar. Ákvarðanir bæjarstjórnar eiga að koma í kjölfarið á samvinnu og stefnumótun, ekki öfugt“
Meirihlutinn bókaði á móti og sagði að um væri að ræða aðgerðir til að efla menningarstarfsemi bæjarins og bjóða upp á nýja og spennandi valkosti.
„Fulltrúar meirihlutans eru ósammála þeim fullyrðingum sem fram koma í bókun minnihlutans. Í fyrirliggjandi tillögum um starfsemi menningarhúsanna eru stigin stór skref í að efla enn frekar menningarstarfsemi bæjarins til framtíðar. Með tillögunum er verið að endurhugsa starfsemi menningarhúsa, samþætta betur starfsemi stofnana og bjóða upp á nýja og spennandi valkosti þannig að menning í Kópavogi uppfylli enn frekar þarfir og væntingar bæjarbúa.“
Segja má að tillögur Ásdísar hafi valdið nokkru fjaðrafoki og verið harðlega gagnrýndar. Verður hér aðeins gert grein fyrir helstu gagnrýninni.
Vinir Kópavogs hafa gefið út ályktun vegna málsins þar sem gagnrýnd eru „ólýðræðisleg og ófagleg“ vinnubrögð. Segir að ekki hafi verið haft samráð við stjórnendur menningarhúsanna og greiningarvinna KPMG einkennist af skilningsskorti á menningarmálum. Í skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins megi finna rangar tölulegar upplýsingar á ályktanir sem séu bæði villandi og marklausar.
„Þar sem krafist var trúnaðar um tillögur bæjarstjóra og meðferð málsins í nefndum fram að umfjöllun í bæjarstjórn gafst hvorki bæjarbúum né fagfólki færi á að hafa áhrif á afgreiðslu málsins. Það er því grafalvarlegt að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi greitt órökstuddum og illa ígrunduðum tillögum bæjarstjóra atkvæði sitt. Starf menningarhúsanna skilar margháttuðum ágóða til samfélagsins og bæjarins alls sem mælist m.a. í auðugu mannlífi, bættri lýðheilsu og upplýstu samfélagi. Þeir sem þar hafa staðið í stafni eiga þakklæti skilið en ekki kaldar kveðjur.
Fundurinn hvetur bæjarfulltrúa meirihlutans til að sjá að sér, draga áformin til baka og hefja almenna og lýðræðislega umræðu og umfjöllun um tilefni og markmið þess að breyta til í rekstri menningarhúsa Kópavogs. Gott menningarstarf í bænum má alltaf bæta og mikilvægt er nýta ætíð sem best það fé sem til skiptanna er. Fúsk og fljótfærni fela í sér mikinn fórnarkostnað bæði í peningum og trausti talið.“
Viðreisn í Kópavogi hefur fordæmt vinnubrögð Ásdísar Kristjánsdóttur, bæjarstjóra, í málinu, og segir að um aðför gegn starfsemi menningarhúsa bæjarins sé að ræða.
„Tillögurnar voru afgreiddar í gegnum stjórnkerfið með hraði og í mikilli leynd. Að mati bæjarfulltrúa Viðreisnar voru tillögurnar ótækar til ákvörðunar vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum. Þá var hvorki unnt að eiga samráð né fá efnislega opna umræðu vegna þeirrar leyndar sem hvíldi á þeim.
Bæjarstjórinn byggir tillögur sínar á skýrslu KPMG, sem forstöðumenn menningarhúsanna hafa gert alvarlegar athugasemdir við því margt sem þar kemur fram er rangt.
Vinnubrögð bæjarstjóra Kópavogs einkennast af vanþekkingu og einræði sem getur aldrei skilað góðri niðurstöðu.
Af þeim sökum samþykkti bæjarfulltrúi Viðreisnar ekki tillögur bæjarstjóra.“
Vinstri græn í Kópavogi hafa gefið út ályktun vegna málsins og skora á meirihlutann að endurskoða ákvörðun sína. Sérstaklega er gagnrýnt að í reynd eigi að leggja Náttúrufræðistofu Kópavogs niður, þó starfsemi hennar verði að einhverju leyti haldið áfram í öðru formi. Furðulegt sé að taka svona stóra ákvörðun með jafn óvönduðum hætti og hér hafi verið gert. Af greinargerðum forstöðumanna menningarhúsanna megi ráða að lítið samráð hafi verið haft við þá og eru þeir ósammála ýmsu í þessum ákvörðunum. Eins haldi forstöðumenn því fram að ýmsar rangfærslur sé að finna í skýrslu KPMG og skilningur sérfræðinga endurskoðunarfyrirtækisins á menningarmálum sé klárlega nánast enginn.
Ályktunin í heild sinni:
„Ályktun stjórnar VG í Kópavogi um ákvarðanir teknar á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 25. apríl 2023 um breytingar á starfsemi menningarhúsa Kópavogsbæjar:
Stjórn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Kópavogi lýsir furðu sinni á þeim samþykktum sem gerðar voru á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 25. apríl síðastliðinn og varða starfsemi menningarhúsa Kópavogsbæjar.
Erfitt er að meta allar þær ákvarðanir sem þarna voru teknar með samþykkt tólf tillagna bæjarstjóra á grundvelli greiningar fyrirtækisins KPMG. En ástæða er til að vísa til bókunar minnihlutans þar sem meðal annars segir: „Allar tillögur bæjarstjóra eru ótækar til ákvörðunar í bæjarstjórn vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum.“
Af greinargerðum forstöðumanna menningarhúsanna (Náttúrufræðistofu Kópavogs, Gerðarsafns, Salarins, Bókasafns Kópavogs og Héraðsskjalasafns Kópavogs) má ráða að lítið samráð hefur verið haft við þá. Fram kemur að þeir eru ósammála ýmsu í þessum ákvörðunum þótt sumt megi skoða. Gagnrýndar eru rangfærslur í skýrslu KPMG, sagt „varhugavert að vísa til skýrslunnar við stefnumótandi ákvarðanir Kópavogsbæjar í menningarmálum“, í ljós hafi komið „að skilningur sérfræðinga KPMG á menningarmálum væri nánast enginn“ og því „eindregið beint til bæjaryfirvalda að taka ekki ákvarðanir í þessum málum í flýti“.
Svona stofnanir og starfsemi eru í sífelldri þróun þar sem fagþekking starfsmanna skiptir miklu máli. Það er eðlilegt að skoða rekstur þeirra af og til á gagnrýninn hátt en þær ákvarðanir sem hér hafa verið teknar eru á margan hátt þess eðlis að þær hefði átt að taka í náinni samvinnu við starfsmenn þessara stofnana en ekki með einhliða samþykkt bæjarstjórnar á grundvelli skýrslu endurskoðunarfyrirtækis.
Ástæða er til að geta sérstaklega róttækustu ákvarðananna. Annars vegar virðist eiga í reynd að leggja Náttúrufræðistofu Kópavogs niður þótt starfsemi hennar verði haldið að einhverju leyti áfram í öðru formi. Hér er um svo stóra ákvörðun að ræða að furðu sætir að hún sé tekin á jafn óvandaðan hátt. Sama er að segja um þá ákvörðun að leggja Héraðsskjalasafn Kópavogs niður. Rétt er að benda á að hlutverk þess er ekki aðeins menningarlegt, svo mikilvægt sem það er, heldur gegnir það „tvíþættu stjórnvalds- og menningarhlutverki, annarsvegar er það stjórnsýslulegs eðlis og hins vegar sagnfræðilegs eðlis“ eins og segir á heimasíðu þess. Góð skjalavarsla er gífurlega mikilvæg í daglegum rekstri bæjarfélagsins og forkastanlegt að leggja þessa mikilvægu stjórnsýsludeild bæjarins niður og fela starfsemi þess Þjóðskjalasafni Íslands, enda virðist enginn undirbúningur hafa verið unninn að því.
Stjórn VG í Kópavogi krefst þess að hverskyns endurskipulagning á starfsemi menningarhúsa bæjarins sé framkvæmd í samstarfi og sátt við starfsfólk þeirra og í opnu og vönduðu ferli á pólitískum vettvangi. Stjórn VG í Kópavogi tekur undir með minnihluta bæjarstjórnar sem greiddi atkvæði gegn þessari ákvörðun og skorar á meirihlutann að endurskoða hana.“
Samfylkingin í Kópavogi hefur eins fordæmt „einræðistilburði bæjarstjóra“ vegna málsins og segja fullkomlega hafa skort á fagleg og lýðræðisleg vinnubrögð.
„Þegar skýrslan og svo hugmyndir bæjarstjóra sem byggðar voru á henni voru loks til umræðu í lista- og menningarráði var ráðið múlbundið og því tjáð að um trúnaðargögn væri að ræða. Með herkjum tókst þó að knýja fram aukafund til að fá fram viðhorf forstöðumanna menningarhúsanna og var hverjum þeirra skammtaðar 15 mínútur á fundinum og alls ekki mátti ræða tillögur bæjarstjóra sem voru bundnar trúnaði. Forstöðumennirnir gátu því aðeins tjáð sig um skýrslu KPMG en í kjölfarið lögðu þeir allir fram afar vönduð minnisblöð sem sýna hve mikil hrákasmíð skýrslan er enda full af rangfærslum og misskilningi,“
Nánar má lesa um yfirlýsinguna hér fyrir neðan.
Sjá einnig: „Fordæma einræðistilburði bæjarstjóra Kópavogs“
Í þeirri gagnrýni sem rakin er hér að ofan er vísað til viðbragða forstöðumanna menningarhúsanna. Verður nú stuttlega gerð grein fyrir þeim.
Í umsögn Finns Ingimarssonar, forstöðumanns Náttúrufræðistofu Kópavogs, segir að starfsfólk menningarhúsa Kópavogs hafi síðustu misseri lagt á sig ómælda vinnu og beitt hugmyndaflugi sínu til hins ýtrasta til að halda úti þjónustu, og hlotið mikið lof fyrir. Tillögur bæjarstjóra lýsi einstaklega djúpstæðu þekkingarleysi á safnastarfi og óskiljanlegt að lagt sé til að Gerðarsafn taki yfir sýningar Náttúrufræðistofunnar.
„Þær hugmyndir sem nú hafa verið kynntar eru fremur naprar kveðjur í ljósi þess sem talið er upp hér að framan. Þá er samantekt KPMG að mörgu leyti stórgölluð og verður að telja næsta undarleg forgangsröðun að ráðast í þetta verk, þar sem oft virðist hreinlega skorta faglegar forsendur fyrir framlögðum tillögum. Í stað þess að byggja upp og efla það sem vel er gert og nýtur álits og virðingar langt út fyrir bæjarmörk Kópavogs, koma tillögur um blóðugan niðurskurð og samdrátt í starfsemi, sem eru gjörsamlega úr takti við alla þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað undanfarin ár.“
Í umsögn Brynju Sveinsdóttur, forstöðumanns Gerðarsafns, segir að hugmyndir KPMG um sjálfsafgreiðslu séu algjörlega óraunhæfar þar sem nauðsynlegt sé að tryggja öryggi listaverka og gesta. Áætlun KPMG um sparnað á skertum opnunartíma safnsins eigi sér heldur ekki stoð í raunveruleikanum. Þvert á móti bendi skýrsla KPMG til þess að Gerðarsafn þurfi fleiri starfsmenn, ekki færri. Eins er gagnrýnt að KPMG finni að því að listamönnum sé greitt fyrir uppsetningar á eigin sýningum. Þetta sé þó gert í samræmi við samþykkt Lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar sem settar voru í kjölfar samvinnu forstöðumanna listasafna á Íslandi við átak Sambands íslenskra listamanna sem kallaðist: Við borgum listamönnum. Um mikilvægt hagsmunamál sé að ræða og megi ekki við afturför.
I umsögn Aino Freyja Järvelä, forstöðumanns Salarins, segir að miklar missagnir megi finna í skýrslu KPMG um Salinn og beri skýrslan vitni um takmarkaða þekkingu á menningarstarfsemi og rekstri menningarstofnana. Því sé varhugavert að styðjast við skýrsluna við stefnumótandi ákvarðanir. Hafi KPMG nefnt að þrjár leiðir væru til að auka skilvirkni og hagræðingu fyrir Salinn, þeirra á meðal að hætta rekstrinum eða útvista honum. Hins vegar sé í skýrslu KPMG að finna margvíslegan misskilning og fjölda rangfærslna og því bæti verið skaðlegt að byggja ákvarðanir á grunni hennar.
Í umsögn Lízu Zachrison Valdimarsdóttur, forstöðumanns Bókasafns Kópavogs, segir að Bókasafn Kópavogs sé rekið með mjög litlum tilkostnaði og sé rekstrarkostnaður lágur, launakostnaður lágur og stöðugildi í lágmarki – jafnvel lægri en hjá sambærilegum söfnum. Úttektaraðilar KPMG hafi að mjög litlu leyti kynnt sér starfsemi bókasafna almennt og því hlutverki sem þau gegna og skilningur þeirra á menningarmálum var nánast enginn. Hafi fulltrúar KPMG litið ranglega á að menningarstarfsemi lúti bara lögmálum gróðafyrirtækja.
Í umsögn Hrafns Sveinbjarnarsonar héraðsskjalavarðar, segir að KPMG sé að „teyma Kópavogsbæ á asnaeyrunum út í taprekstur þegar kemur að héraðsskjalavörslu bæjarins. Ýmis önnur ógæfa kynni og að hljótast af því, yrði það ógæfuspor stigið að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogs.“
KPMG ofmeti stórlega sparnað bæjarins af því að leggja niður Héraðsskjalasafnið og líklegra sé að bærinn endi með margra milljóna tap á ári hverju. Hafi KPMG svo bætt um betur og haldið því fram að draga megi úr kostnaði við fjárfestingu í húsnæði og stafrænum innviðum fyrir allt að milljarð.
„Þarna dregur KPMG kanínu upp úr hattinum upp á einn milljarð án þess að það sé útskýrt nánar. Hvað er átt við með þessum þúsund milljónum, upphæð sem er fráleit þegar Héraðsskjalasafn Kópavogs er til umfjöllunar?“
Hann lýkur svo máli sínu og segir:
„Það liggja því mikil ódæmi og örlagaríkt tjón í loftinu“
Stjórn Bandalags íslenskra listamanna hefur einnig gefið frá sér ályktun vegna málsins þar sem ákvörðun bæjarstjórnar er fordæmt. Merkilegt sé að lesa skýrslu KPMG þar sem farin er „frumstæð og nánast barnleg leið í mati á rekstri menningarstofnana bæjarins og engu skeytt um hið raunverulega gildi og tilgangs starfsins fyrir samfélagið“
Enn fremur segir:
„Þessi úttekt KPMG telur því eingöngu baunirnar kostnaðarmegin við jafnaðarmerki jöfnunar sem síðan er notað af stjórnvöldum til að draga saman og réttlæta niðurskurð til málaflokksins og skemmdarverk á heilum stofnunum. Auk þess hafa stjórnendur stofnana Kópavogsbæjar þurft að leiðrétta fjöldann allan af rangfærslum í skýrslunni.
Bandalag íslenskra listamanna harmar að annað stærsta sveitarfélag landsins sem hingað til hefur sýnt metnað við uppbyggingu menningarstofnana sinna skuli umgangast starf þeirra af jafn mikilli vanþekkingu og lítilsvirðingu og raun ber vitni.“
Hér má svo sjá glærur um skýrslu KPMG