Tilefnið eru nýjar verðbólgutölur sem Hagstofa Íslands gaf út í gær en vísitala neysluverðs hækkaði um 1,31 prósent á milli mánaða. Hefur vísitalan hækkað um 9,9 prósent síðastliðna tólf mánuði.
Vilhjálmur bendir á að þetta gerist þrátt fyrir tólf stýrivaxtahækkanir í röð.
„Það skrautlegasta í þessu öllu saman er að 0,47% af hækkuninni er vegna svokallaðar „reiknaðar húsaleigu“ sem er hækkun á fasteignaverði og hækkandi vöxtum,“ segir Vilhjálmur og bætir við að það sé verðtryggingin sem er að valda hér hækkandi verðbólgu. Stýrivextir Seðlabankans bíti ekkert á hækkun á fasteignaverði þegar fólki er ýtt út í verðtryggð lán.
„Verðbólga í allri Evrópu er á hraðri niðurleið þátt fyrir að stýrivextir í Evrópu hafi hækkað einungis brot af því sem gerst hefur hér á landi. Hvenær ætlar Seðlabankinn að sjá að þessi vegferð þeirra er löngu komin upp í brimgarð,“ spyr Vilhjálmur og bætir við að afnám verðtryggingar sé forsenda fyrir því að stýrivaxtatæki Seðlabankans virki eins og það gerir í samanburðarlöndunum, enda sé verðtrygging á lánveitingum til heimila ekki heimiluð þar.
Margir taka undir með Vilhjálmi í færslunni og bendir einn á að henda þurfi húsnæðisliðnum út úr vísitölunni eins og samið var um í lífskjarasamningunum. Vilhjálmur er svo spurður af hverju „þið verkalýðsleiðtogarnir“ hafið aldrei kallað eftir efndum hvað þetta varðar.
„Heldur þú að það hafi ekki verið gert? Er meira segja inni í áherslum ASÍ sem verið er að vinna að á þinginu dag. Við ráðum ekkert við það ef við erum svikin,“ segir Vilhjálmur.