fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Eyjan

Katrín gagnrýnir forystu Eflingar harkalega – Var nýkomin til starfa eftir barnsmissi en las um brottrekstur sinn í fjölmiðlum

Eyjan
Miðvikudaginn 22. febrúar 2023 22:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Katrín Bryndísardóttir, fyrrverandi kjaramálafulltrúi hjá Eflingu, fer hörðum orðum um forystu Eflingar í kvöld, í pistli sem hún birti á Facebook-síðu sinni. Hún segir forystuna vera siðferðislega gjaldþrota og nota láglaunafólk og aðsteðjandi vanda þess sem hlífiskjöld í hatrammri rógsherferð gegn öllum sem ekki eru sammála henni.

Katrín segir að félagsfólk Eflingar eigi betra skilið en að horfa fram á algjört tekjuleysi vegna verkbanns og þarf að leiðandi njóti Eflingarfólk ríkrar samúðar um allt land. En forystan hafi leikið einleik og einangrað félagið, jafnframt því að stunda stöðugar árásir á önnur verkalýðsfélag.

Katrín rifjar upp harkalegan brottrekstur starfsfólks á skrifstofu félagsins í fyrra. Hún hafði nýlega snúið til starfa eftir afar sáran barnsmissi. Katrín segir orðrétt:

„Í sorgarvinnunni síðasta eina og hálfa árið kemur alltaf upp að við eigum að hafa bjargráð. Okkar bjargráð geta verið hvað sem er.

 Mitt bjargráð var að halda áfram lífinu og fá að gera það sem man er mögulega góð í og fara aftur að vinna. Hafandi starfað við vinnumarkaðsmál og hjá stéttarfélögum í meira en tvo áratugi ákvað ég að halda áfram og fara að vinna. Svo ég gerði það.

 Vá hvað mér var vel tekið og ég fékk mikla aðstoð frá mínum nánustu samstarfsmönnum. Það var gersamlega ómetanlegt.

 Hægt og rólega fetaði ég mig áfram. Tók á móti fólki sem átti afar erfitt á vinnumarkaði. Hafði verið niðurlægt, lent í einelti, kynferðisáreiti eða annars konar ofbeldi.

 Auðvitað var það afar erfitt, en þetta er svona þarna úti og ég vildi leggja mitt að mörkum við að hjálpa, bæta, leiðrétta eða bara gera eitthvað sem í mínu valdi stóð, með þau tæki sem ég hafði til að bæta kjör þessa fólks.

 Þetta var gefandi starf og ég var með gefandi samstarfsfólki. Hef í raun aldrei mætt öðrum eins skilningi og velvild nokkursstaðar. En þessi skref eftir svona veikindaleyfi voru svo sem ný fyrir mér.“

 Katrín lýsir síðan fyrirvaralausum brottrekstri frá skrifstofu félagsins og harkalegum vinnubrögðum forystunnar gagnvart skrifstofufólkinu í kjölfarið:

„Svo eftir 8 mánaða starf les ég í fjölmiðlum að búið sé að segja öllu starfsfólkinu upp! Öllum sem ég vann með og mér líka?!

Um nóttina fékk ég tölvupóst frá einhverjum lögfræðingi með uppsagnarbréfi.

Ég bað um skýringar og viðtöl við stjórnendur félagsins. Sem ég fékk ekki. Svo var lokað á öll samskiptaforrit sem starfsfólkið hafði til að hafa samskipti sín í milli. Hvað hafði ég gert til að verðskulda þetta?

 Dæmi hver fyrir sig. Hvers konar atvinnurekandi segir upp starfsmanneskju með rúmlega 20 ára reynslu sem var að koma til starfa eftir að missa barnið sitt? Ég bara spyr? Og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir af minni hálfu, hefur enginn, enginn, enginn, af stjórn þessa félags horfst í augu við mig né nokkra aðra sem sagt var upp.“

 Katrín segist öðrum þræði vera að heiðra minningu látinnar dóttur sinna með pistlinum, því hún hafi ekki þolað óréttlæti. Hún fer síðan ofan í saumana á því sem hún telur vera tvískinnung í málflutningi forystu Eflingar, sem meðal annars hafi eytt mikilli orku í að níða niður samninga annarra félaga:

„Mantra dagsins í kjaradeilunni virðist vera:

Þrátt fyrir … styðjum við auðvitað félagsfólk í Eflingu. Og auðvitað á félagsfólk Eflingar sem lendir í verkbanni skilið stuðning því þetta sama fólk er líka fórnarlömb „þrátt fyrir“ listans sem er því miður afar langur. Hér er úrdráttur úr honum:

 Þrátt fyrir að naumasti meirihluti stjórnar hafi varið aðdraganda kjarasamninga í að reka allt starfsfólkið og ekki skilað kröfugerð fyrr en daginn áður en kjarasamningar runnu út, á sama tíma og öll önnur félög verka- og láglaunafólks höfðu setið við samningsborðið mánuðum saman.

 Þrátt fyrir að hafa sjálf hafnað því að nýta mátt samstöðunnar með samfloti með öllum öðrum félögum verka- og láglaunafólks og eytt svo gífurlegri orku í að níða samninga þeirra niður og saka félaga sína um alvarleg svik eftir að hafa verið upplýst um öll skref viðræðna og kröfugerð þeirra frá upphafi.

 Þrátt fyrir að hafa sjálf gert lífskjarasamningana 2019 með öðrum félögum ASÍ sem lögðu svo rammann fyrir alla sem á eftir komu að mati SA, án þess að líta svo á að Efling hafi þar með svipt þau félög sjálfstæðum samningsrétti sínum.

 Þrátt fyrir að mæta eftir á með kröfur um að samið verði eins og tvær þjóðir búi í landinu þar sem mun lægri laun dugi verka- og láglaunafólki utan höfuðborgarsvæðisins.

 Þrátt fyrir að hafa á bakinu miskabótadóma vegna harðneskjulegrar meðferðar á starfsfólki, fordæmalausa hópuppsögn starfsfólks stéttarfélagsins í skjóli skipulagðs netofbeldis gegn sama fólki mánuðum saman og afdráttarlausan dóm Félagsdóms um brot gegn réttindum trúnaðarmanns, eins af hornsteinum verkalýðshreyfingarinnar.

 Þrátt fyrir að beita stéttarfélagi fjölda ólíkra einstaklinga grímulaust í flokkspólitískum tilgangi og sækja fremur í smiðju stofnunar arftaka austurþýska kommúnistaflokksins en samtal við félaga sína um land allt í aðdraganda kjarasamninga.

 Þrátt fyrir að ákveða algeran einleik og einangrun félagsins með því að hafna samfloti og stunda sífelldar árásir á önnur félög verka- og láglaunafólks og að stefna félagsfólki sínu í hörðustu kjaradeilu síðustu áratuga fyrir skammtímasamning sem rennur að líkindum út eftir 11 mánuði á sama tíma og restin af verkalýðshreyfingunni er þegar á fullu við að undirbúa langtímasamningana sem taka þá við.

 Þrátt fyrir að bregðast undantekningalaust við gagnrýni á störf og ákvarðanir með heiftúðugum árásum á persónur þeirra sem taka til máls og gera þeim upp lágkúrulegustu hvatir eða að þjóna annarlegum hagsmunum.

 Þrátt fyrir allt framangreint og meira til á almennt félagsfólk Eflingar ekki skilið að horfa fram á algert tekjuleysi vegna verkbanns og á því bæði samúð og stuðning fjölda fólks um land allt, líka þeirra sem samþykktu sína „aumu svikasamninga“ með afgerandi meirihluta atkvæða.

 En að nota þetta sama láglaunafólk og aðsteðjandi bráðavanda þess sem hlífiskjöld yfir siðferðilega gjaldþrota forystusveit í hatrammri rógsherferð gegn öllum sem ekki sýnir þeim fullkomna meðvirkni, er frekar bratt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kolbeinn spyr hvort Íslendingar þurfi róttæka vinstri hreyfingu – „Ég er hreint ekki sannfærður“

Kolbeinn spyr hvort Íslendingar þurfi róttæka vinstri hreyfingu – „Ég er hreint ekki sannfærður“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Halldór Auðar snýr baki við Pírötum – „Niðurstaða kosninganna fyrst og fremst endurspeglun á löskuðu innra starfi“

Halldór Auðar snýr baki við Pírötum – „Niðurstaða kosninganna fyrst og fremst endurspeglun á löskuðu innra starfi“