Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, var ekki ánægður með Gunnar Smára Egilsson, einn stofnanda Sósíalistaflokksins, á dögunum og lét það skýrt í ljós í athugasemd sem hann ritaði undir færslu Gunnars Smára á Facebook þar sem sá síðarnefndi sakaði Vilhjálm um að hafa tekið loforð af framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA) um að ekki yrði samið við Eflingu.
Gunnar Smári svarar nú Vilhjálmi og bendir á að í Kastljósi í gær hafi Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA enn og aftur sagt að SA gæti ekki gengið að kröfum Eflingar því samtökin væru bundin trúnaði við þá sem þegar hafi verið samið við fyrir jól og „að hann gæti ekki horfst í augu við viðsemjendur sína síðan þá ef hann gæfi eitthvað eftir gagnvart Eflingu.“
Gunnar Smári bendir á að orð Halldórs megi umorða með eftirfarandi hætti: „Ég myndi gjarnan vilja hækka laun láglaunafóks í Eflingu en get það ekki vegna þess að ég er bundinn af samkomulagi við forystumenn annarra félaga.“
Gunnar hafi verið að benda á þennan máflutningi í þeirri færslu sem reitti Vilhjálm svo til reiði.
„Þegar ég benti enn og aftur á þennan málflutning Halldórs Benjamín fyrir tveimur dögum, áður en hann endurtók þetta í Kastljósi, réðst Vilhjálmur Birgisson á mig hér á veggnum með gífuryrðum og skömmum. Í stað þess að tilkynna að Halldór Benjamín sé að ósekju að flytja ábyrgðinni á óbilgirni sinna samtaka yfir Vilhjálm og fleiri forystumenn verkalýðshreyfingarinnar, þá kaus Vilhjálmur að ráðast að mér og saka mig um guð má vita hvað ekki.
Það má vel vera að Vilhjálmi finnst þetta snjallt og að honum hafi liðið betur á eftir. Halldór Benjamín er líka kátur með þetta, heldur áfram óáreittur að bera það út að hann geti ekki mætt kröfum Eflingar vegna þess að hann lofaði Vilhjálmi Birgissyni að gera það ekki.“
Gunnar vísar svo fylgjendum sínum á viðtalið við Halldór Benjamín í Kastljósinu í gær en Gunnar Smári segir að þar megi sjá hann „bera fyrir sig trúnað gagnvart forystu verkalýðshreyfingarinnar og þjóðinni allri, í þessu upphafna hlutverki landsföður sem hann hefur verið að leika síðustu mánuði. Halldór Benjamín segist enga aðra kosti hafa, svo hann bregðist ekki trúnaði við Vilhjálm og þjóðina, en að reka 21 þúsund láglaunamanneskjur heim og lama samfélagið. hann gerir þetta ekki illum hvötum heldur vegna þess að hann elskar þjóðina og Vilhjálm svo heitt. Þetta er okkur boðið upp á dag eftir dag, kvölds og morgna, í öllum miðlum.“