Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tekur púlsinn á kjaramálunum sem eru í brennidepli núna. Í grein sem hún birtir í Morgunblaðinu í dag bendir hún á að lífskjör snúist ekki bara um krónutöluhækkanir launa en laun séu þó há hér í öllum alþjóðlegum samanburði.
Hildur bendir á að þrátt fyrir háa verðbólgu sé útlit fyrir að kaupmáttur heimila vaxi á þessu ári, en hann hafi vaxið mikið undanfarin ár, öfugt við þróunina í nágrannaríkjunum:
„Umtalsverðar launahækkanir urðu á almennum vinnumarkaði en alls hækkaði launavísitala um 12,4% á síðasta ári. Að auki fólust talsverðar kjarabætur í tekjuskattsbreytingum síðustu áramóta sem skila meiri tekjuaukningu yfir áramótin en sem nemur verðbólgu.
Tilfærslutekjur frá ríkinu til þeirra sem minnst hafa á milli handanna, bætur almannatrygginga, húsnæðisbætur og barnabætur, hækkuðu einnig. Ágæt staða heimilanna heilt yfir birtist í þeirri staðreynd að vanskil heimilanna á lánum hafa ekki mælst minni undanfarinn áratug.“
Hildur segir þróun launa vera umfram þróun framleiðni. Það sé staða sem allir tapi á. Hún segir jafnframt að viðleitni til að leggja áherslu á hækkun lægstu launa hafi borið árangur:
„Svo verðbólgan lækki að markmiði þurfa aðgerðir Seðlabankans, opinberra fjármála og ákvarðanir á vinnumarkaði að miða að sama marki. Hækki útgjöld hins opinbera eða laun á vinnumarkaði umfram það sem framleiðsla hagkerfisins leyfir getur það einfaldlega ekki leitt til annars en verðbólgu sem brýst svo fram í hærri vöxtum og kaupmáttarrýrnun.
Þróun launa nú er umfram þróun á framleiðni. Það er staða sem verður að gefa gaum, annars töpum við öll, og allra mest þau sem átti kannski mest að koma til aðstoðar með hærri launum.
Við höfum náð góðum árangri undanfarin ár með því að skoða hvernig raunverulegur kaupmáttur skilar sér til fólks. Lægstu laun hafa einmitt verið í brennidepli, með ágætum árangri.“
Hildur segir brýnt að tryggja að framleiðni standi undir launahækkunum og til að svo megi verða þurfi nýsköpun að blómstra. Áhyggjuefni sé að hér séu takmarkanir á erlenda fjárfestingu meiri en gengur og gerist í nágrannaríkjunum. Hún víkur síðan að kjaradeilum og fyrirkomulagi stéttarfélaga en hún segir þau vera allt of mörg í landinu:
„Kjaradeilur og verkfallsréttur eru mikilvægur partur af samfélaginu. Það segir sig þó sjálft að 150 stéttarfélög á litla íslenska vinnumarkaðinum er glórulaus staða. Það hlýtur að vera hægt að horfa til hinna norrænu landanna og taka mið af norræna vinnumarkaðsmódelinu sem breyttist í heildstæðari og skilvirkari átt þegar þau stóðu frammi fyrir sama kröfuharða lögmálinu um línudans framleiðni og launa.“