Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrum þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Jón Gunnarsson,dómsmálaráðherra, hafi sett á svið siðlaust pólitísk leikrit varðandi söluna á TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar.
Ragnheiður var gestur Vikulokanna á Rás 1 nú í morgun þar sem hún lét ummælin falla og fór yfir málið sem vakti mikla athygli í vikunni. Það hófst þegar Jón boðaði að TF-SIF yrði seld vegna þess að Landhelgisgæslan hefði ekki nægt fjármagn til að reka vélina. Þá fylgdi með sögunni að flugvélinni hefði aðeins verið flogið rúmar 100 klukkustundir hérlendis á síðasta ári en hún hefur verið leigð út til verkefna við Miðjarðarhaf bróðurpart ársins. Vélin er þó alltaf til taks og er hægt að fljúga henni hingað til lands á nokkrum klukkustundum ef þörf er á.
Ákvörðun ráðherrans vakti mikla reiði, bæði innan Alþingis og ekki síður í vísindasamfélaginu en TF-SIF hefur gegnt þar mikilvægu hlutverki. Fljótlega var bent á að engin heimild væri í fjárlögum fyrir því að selja vélina og í gær dró dómsmálaráðherra svo tillöguna tilbaka og sagði að vegna mikillar andstöðu yrði að fara aðrar leiðir í að útvega Landhelgisgæslunni nægt fjármagn.
Í útvarpsviðtalinu sagði Ragnheiður að Jón væri reyndur þingmaður sem kynni allar leikreglur við gerð fjárlaga. Það hafi því verið með ráðum gert að setja ekki inn heimild til að selja vélina því að slíkt hefði ekki haft neitt vægi eða neina umfjöllun. „Svo kemur bomban og þetta útspil er bara pólitískt valdatafl ráðuneyta og ráðherra til að ná í aukið fjármagn til mikilvægra verkefna. Og fyrir ráðherra er þetta kannski líka pólitískt valdatafl innan flokks,“ sagði Ragnheiður, sem er öllum hnútum kunnug í pólitíkinni.
Hún benti á að um leið og tillagan hafi komið fram hefði komið í ljós að salan hafði hvergi verið kynnt, lagt hefði verið fram minnisblað sem enginn virtist hafa lesið.
„Og síðan fer alltaf stað, það er horfið til baka og dómsmálaráðherra fær pening til að fjármagna vélina út árið og hægt að leita einhverrra leiða sem menn hefðu átt að fara í upphafi. Þetta var pólitískt leikrit sem er algjörlega siðlaust,“ sagði Ragnheiður harðorð.