Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Guðmundi Marteinssyni, framkvæmdastjóra Bónuss, að hækkanir dynji á smásölunni nú í byrjun árs. Þetta eigi við um innlenda og erlenda vöru. Hann sagði að þessar hækkanir séu það miklar að þær hljóti að fara út í verðlagið að einhverju marki.
Hann sagði einnig að ein af ástæðum hás matvælaverðs hér á landi sé verndarstefna stjórnvalda gagnvart innlendri matvælaframleiðslu. Vörður sé staðinn um innlenda framleiðslu og komið í veg fyrir samkeppni, meðal annars með því hvernig tollkvótum sé háttað.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði að það geti þjónað hagsmunum stórra kjötframleiðenda að kaupa tollkvóta á mjög háu verði því með því geti þeir komið í veg fyrir að neytendum standi ódýrt innflutt kjöt til boða og með því haldið matvælaverðinu í landinu uppi.