fbpx
Föstudagur 30.september 2022
Eyjan

Segir auðtrúa Íslendinga ekkert hafa lært af hruninu – „En Íslendingar sjá þetta ekki svona“ 

Eyjan
Föstudaginn 2. september 2022 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jared Bibler, fyrrverandi rannsakandi hjá Fjármálaeftirlitinu og höfundur bókarinnar Iceland’s SecretThe untold story of the world’s biggest con, segir ekkert hafa breyst hér á landi eftir fjármálahrunið 2008, Íslendingar hafi ekkert lært. Hann nefndir sem dæmi í viðtali við World Finance Íslandsbankasöluna í mars, er ríkið seldi stóran part af eignarhlut þeirra í Íslandsbanka í lokuðu útboði. 

Í ítarlegu viðtalinu er rakið að Jared, sem er Bandaríkjamaður að uppruna, hafi flutt hingað til lands árið 2004 og hafið hér vinnu í íslenskum banka. Hann tók ástfóstri við land og þjóð og varð íslenskur ríkisborgari árið 2008 og gaf að auki upp bandarískan ríkisborgararétt sinn árið 2013.

Bibler er núna búsettur í Sviss en bjó á Íslandinu í góðærinu og upplifði vel  hvernig þjóðin tapaði sér í eyðslugleðinni.

Auðtrúa Íslendingar

Aðspurður um hvað hafi klikkað hér á landi segir hann að það hafi verið nokkrir þættir. Ekki síst hafi þar spilað inn hversu auðtrúa Íslendingar hafi verið þegar kom að peningum.

„Peningar voru frekar nýtt fyrirbæri þarna – þau byrjuðu að nota þá bara fyrir nokkrum kynslóðum síðan. Fyrir það voru peningar eitthvað sem danskir valdamenn höfðu en ekki Íslendingar. Svo það eitt að eiga peninga er frekar spennandi á Íslandi.“ 

Hann segir að landsmenn hafi eytt peningum af þrótti. Barir og skemmtistaðir hafi verið fullir fyrstu og seinustu helgar mánaðarins því þá hafði fólk fengið útborgað og fólk hafi almennt eytt öllum sínum launum um mánaðamót. Jared segist ekki hafa skrifað bók sína til að leggja Ísland í einelti, þetta sé stærri saga en það. Íslendingar eigi það þó til að afsaka sig með smæð samfélagsins.

„Þetta er svona „við erum svo fá svo ég verð að gefa frænda mínum afslátt.“ Það er mikið af maður-á-mann spillingu. Fólkið elskar að komast í kringum kerfið, sem er mannlegt eðli, en í þessu tilfelli er kerfið lítið samfélag svo þú ert í raun að svindla á nágrönnum þínum. En Íslendingar sjá þetta ekki svona.“ 

Í góðærinu hafi allt keyrt um koll. Landsmenn sem voru vanir að eiga ekkert milli handanna hafi skyndilega haft aðgang að miklu magni lána og margir hafi hreinlega tapað sér í gleðinni og keypt bíla sem þau þurfti ekki með gjaldeyrislánum.

„Stærsti glæpurinn átti sér stað innan bankanna. Venjulegt fólk græddi ekki heldur enduðu með að þurfa að borga brúsann. Fólk sagði oft við mig : „En Ísland náði sér á strik“. En enginn gaf mér húsið mitt til baka.“ 

Allt spariféð horfið

Jared segir að hann eins og margir aðrir hafi misst mikið og það hafi haft gífurlegar afleiðingar. „Allt spariféð til eftiráranna hvarf þegar ég var á fertugsaldri.“

Jared segir að hann hafi orðið fyrir gífurlegum vonbrigðum með Fjármálaeftirlitið (FME). Hann hafi starfað fyrir FME við að rannsaka hrunið og metur hann svo að rannsókninni hafi verið slúttað alltof snemma. „Ég var með langan lista af rannsóknum sem við höfðum ekki einu sinni hafið. Þessar rannsóknir hefðu tekið hálft ár til heilt ár hver. Það er engin leið að þau hafi getað byrjað og lokið þeim. Ég veit ekki hvaðan þrýstingurinn kom en það var þrýstingur um að ljúka þessu.“

Aðspurður um hvers vegna íslenskir fjölmiðlar hafi ekki séð í hvað stefndi fyrir hrunið segir Jared að stærstu fjölmiðlar landsins, Morgunblaðið og Fréttablaðið, séu hlutlausir. Morgunblaðið sé málpípa hægrimanna og telur Jared að ritstjóri blaðsins, Davíð Oddsson, sé enn valdamesti maður landsins.

„Hann var forsætisráðherrann sem einkavæddi bankana. Gagnrýnin skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 2006 var birt aðeins þremur árum eftir einkavæðinguna, svo Morgunblaðið hafði ekki mikinn áhuga á að ræða um áhætturnar því þetta var svo nýlegt og þeirra flokkur var enn við völd. 

Fréttablaðið er líka hluti af stærsta fjölmiðlafyrirtæki Íslands og því er stýrt af helstu athafnamönnum landsins sem áttu líka stóran hlut í Íslandsbanka, þriðja stærsta bankanum. Svo það hafði líklega enginn áhuga á því að gagnrýna bankanna þar heldur. Þegar ég lýsi því hver stýrði blöðunum fussa sumir og segja að þetta sé hluti af héraðsmenningu landsins. En þvert á móti endurspeglar Ísland heiminn allan. Þessi hagsmunaárekstur eignarhalds hefur taumhald á fjölmiðlafyrirtækum allstaðar á Vesturlöndum, það er bara auðveldara að sjá þetta í litlum hagkerfum.“ 

Bankastarfsmenn og faðir ráðherra meðal kaupenda í Íslandsbankasölunni

Jared segir að umræðan í kringum hrunið hafi breyst núna og í stað þess að áfram sé gagnrýnt hvernig bankarnir báru ábyrgð á hruninu sé fólk farið að tala um að bankarnir hafi verið frábærir en að þegar fjármálarisinn Lehman Brothers hafi farið á hliðina hafi það tekið Ísland með sér í fallinu. „Það eru jafnvel hægrisinnaðir stjórnmálamenn sem efast um að þarna hafi orðið hrun yfir höfuð.“

Vissulega hafi tekist að fá sakfellingar yfir sumum þeirra er spiluðu hlutverk í hruninu. En núna árið 2022 sé varla hægt að sjá að nokkuð hafi verið lært.

„Nú í mars seldi ríkisstjórnin 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka til leynilegs lista af 207 tilboðsgjöfum á útboði. Tilboðsgjafar fengu hlut sinn á fjögurra prósent afslætti. Eftirmaður Oddssonar og lærlingur, Bjarni Benediktsson, hafði yfirumsjón með þessu sem fjármálaráðherra, þó svo að þau hafi stofnað aðra stofnun í armslengd frá ráðuneytinu til að framkvæma þessa einkavæðingu. Þau vildu halda þessu ferli leyndu og sögðu að tilboðsgjafar væru fagfjárfestar úr fjárfestinga- og lífeyrissjóðum. En svo kom á daginn að sumir bankastarfsmenn hafi líka verið þar á meðal. 

Svo kom fram þrýstingur um að listinn yrði opinberaður og að lokum gaf fjármálaráðuneytið sig. Þá kom á daginn að einn af samþykktu tilboðsgjöfunum hafi verið faðir fjármálaráðherra! Þessir tilboðsgjafar fengu fjögurra prósenta afslátt og losuðu sig við hlut sinn daginn eftir, í grófum dráttum voru þeir að prenta peninga sér til handa. Það voru erlendir og innlendir fjárfestingarsjóðir sem báðum um að fá að vera með en þeirra tölvupósti var aldrei svarað. Og á lista kaupenda voru mörg gömul nöfn úr hruninu 2008, þeirra á meðal fólk sem fór í fangelsi.“ 

Allur heimurinn er Ísland

Jared var þá spurður hvort að Íslendingar væru þá enn að og svaraði: „Ég held að ekkert hafi breyst.“

Hann segir að í búsáhaldabyltingunni hafi þess verið krafist að ríkisstjórnin segði af sér. Það hafi að lokum orðið að raunveruleika. Engu að síður hafi Davíð Oddsson, sem þá var Seðlabankastjóri, setið sem fastast þar til hálfu ári eftir hrunið. „Þetta var stærsta efnahagshrun í sögu vestrænnar menningar og maðurinn sem var við stjórnina var enn þarna.“

Sjálfstæðisflokknum hafi verið komið frá völdum, en það hafi ekki enst lengi. „Þau komust aftur að völdum ásamt litla bróður sínum, Framsóknarflokknum, í kosningabandalagi árið 2013. Þau sögðu að síðustu fjögur árin hafi verið erfið, ekki vegna þess að þau hafi keyrt landið í þrot árið 2008, heldur út af hinum flokkunum. Svo þau lofuðu skuldaleiðréttingu á húsnæðislánum og komust aftur að borðinu.“

Jared segir að nú sé yfirstandandi efnahagsbóla í heiminum og hann sér ekki fyrir hvernig þetta mun enda en skuldir á alþjóðamælikvarða veki miklar áhyggjur.

„Það er eins og allur heimurinn sé Ísland núna.“

Hér má nálgast bók Bibler

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir ásökun Tómasar byggða á misskilningi – „Misskilningi sem þarf að leiðrétta“

Segir ásökun Tómasar byggða á misskilningi – „Misskilningi sem þarf að leiðrétta“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sakar Þjóðskrá um að hafa gripið fram fyrir hendur byggingarfulltrúa við gerð fasteignamats 2023

Sakar Þjóðskrá um að hafa gripið fram fyrir hendur byggingarfulltrúa við gerð fasteignamats 2023
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Lýsir yfir sigri í ítölsku þingkosningunum – Giorgia Meloni væntanlega nýr forsætisráðherra

Lýsir yfir sigri í ítölsku þingkosningunum – Giorgia Meloni væntanlega nýr forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ásdís segir grein stjórnarandstæðings sé ekki til sóma – „Segja rétt frá í stað þess snúa sannleikanum á hvolf“

Ásdís segir grein stjórnarandstæðings sé ekki til sóma – „Segja rétt frá í stað þess snúa sannleikanum á hvolf“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Fjárlög vinstristjórnar og broguð stjórnmál

Björn Jón skrifar: Fjárlög vinstristjórnar og broguð stjórnmál