fbpx
Laugardagur 01.október 2022
Eyjan

Sigmundur Ernir sendir Brynjari tóninn – „Gleymum því aldrei“

Eyjan
Þriðjudaginn 9. ágúst 2022 14:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, telur aðstoðarmann dómsmálaráðherra, Brynjar Níelsson, vera á miklum villigötum í gagnrýni sinni á íslenska fjölmiðla. Raunin sé sú að fjölmiðlar í dag sýni mun meiri breidd samfélagsins og miðli ólíkum skoðunum – en helst megi álykta af gagnrýni Brynjars að fréttamiðlar ættu aðeins að miðla einni skoðun – þeirri sem Brynjar sjálfur aðhyllist.

Sakar fjölmiðla um pólitík

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, birti á föstudaginn pistil á Facebook-síðu sinni þar sem hann fór hörðum orðum um íslenska fjölmiðla. Sagði hann þar flesta fjölmiðla komna í ruslflokk nú í seinni tíð og að þeir séu gjarnan stofnaðir í kringum einn mann og hans pólitík.

„Fjölmiðlar og fjölmiðlamenn eru svo pikkfastir í eigin pólitík að þeir eru hættir að skynja og skilja hvað er spilling. Kannski hafa þeir aldrei gert það.“ 

Þessi pistill varð tilefni þess að Brynjar mætti í Bítið á Bylgjunni í gær þar sem hann mætti blaðamanninum Jakobi Bjarnari Grétarssyni þar sem þeir tókust á um hlutverk og stöðu fjölmiðla í landinu í dag.

Brynjar ritaði í kjölfarið annan pistil þar sem hann bætti í gagnrýnina.

„Þegar miðillinn sjálfur er í venjulegri pólitík og hagsmunabaráttu eins og hver önnur hagsmunasamtök eða stjórnmálaflokkar er varla hægt að tala um fjölmiðla eða fréttamiðla Þá eru þeir eins og hver önnur áróðursvél, ekki ósvipaðir Íslandsdeild Transparency International. 

Þetta er því miður þróunin í fjölmiðlum hér á landi og hefur orðið meira áberandi eftir að samfélagsmiðlar komu til sögunnar, eins skrítið og það er. Þeir eru orðnir meiri áróðursmaskínur en gömlu flokksblöðin voru, nema kannski Þjóðviljinn. 

Auðvitað mega þeir það en ættu samt ekki að blekkja almenning með frösum um að þeir séu frjálsir, hlutlausir og óháðir. Ég veit ekki hverju er um að kenna en það getur ekki verið bara vegna blankheita og lágra launa. Kannski er bara hagstæðast fyrir hagsmunahópa og stjórnmálaflokka að stofna fjölmiðil. Þá er hægt að fá pening frá skattgreiðendum til að fjármagna alla þvæluna.“ 

Ósammála perluvinir

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, mætti í Bítið í morgun til að svara Brynjari.

„Ég er búinn að heyra ýmislegt frá vini mínum Brynjari Níelssyni. Tek það fram að við erum perluvinir en við erum ekki sammála, hvorki í pólitík né um þjóðfélagsmál almennt“

Sigmundur segir að það megi hafa ólíkar skoðanir í samfélaginu og sé það hlutverk fjölmiðla að miðla þessum skoðunum og sýna breiddina í samfélaginu. Það sé ekki líkt og Brynjar haldi fram að fjölmiðlar reyni að „troða einsleitri skoðun inn á almenning“.

„Við erum einfaldlega að fjalla um samfélagið eins og það er,“ segir Sigmundur og bætir við að fjölmiðlar endurspegli samfélagið eins og það er, en ekki hvernig það ætti kannski að vera.

„Og þetta er hlutverk fjölmiðla sem fer greinilega í taugarnar á mörgum sem vilja miðla einsleitri skoðun t.d. hagsmunum þröngra íhalds afla sem vilja eiga auðæfi landsins og hirða frá almenningi. Það er einsleit skoðun. En ekki hitt að t.d. gagnrýna ríkjandi stjórnvöld sem er meginhlutverk fjölmiðla á hverjum tíma sem eru að gagnrýna það sem aflaga fer í samfélaginu, það er meginhlutverk íslenskra fjölmiðla.“ 

Ekki lengur bara fjallað um loðnuveiðar og gengisfellingu

Mikil breyting hafi orðið á fjölmiðlum frá því að Sigmundur hóf fyrst að vinna í þeim fyrir um 40 árum síðan.

„Þá voru fréttir kannski aðallega um loðnuveiði, gengisfellingu og eitthvað sem Gunnar Thoroddsen var að segja. Núna er þetta miklu breiðara. Fréttir fjalla um heilsu, listir, skoðanir, fólk, frægð og frama tónlistarmanna og svo framvegis.“ 

Þetta sé af hinu góða, en það fari í taugarnar á sumum að fjölmiðlar miðli ólíkum skoðunum. Skemmst sé að minnast þess að núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddson, hafi viljað hreinlega banna fjölmiðla sem hann var ósammála.

„Gleymum því aldrei að ritstjóri ákveðins miðils, sem Brynjar Níelsson trúir og treystir, hann vildi banna fjölmiðil á sínum tíma og hvaða fjölmiðil? Jú Fréttablaðið! Hann vildi banna fjölmiðla sem voru annarrar skoðunar heldur en Sjálfstæðisflokkurinn.“

Þetta sé erindi íhaldsaflanna í fjölmiðlaumræðuna í landinu – að það eigi að banna aðrar skoðanir en þeirra eigin. Þetta hafi verið reynt í löndum á borð við Rússland og Tyrkland og varla sé það samfélagið sem við Íslendingar viljum búa í.

Nú sé það svo að fréttamiðlar séu að miðla efni sem endurspegli mun stærri hluta af samfélaginu og ólík áhugasvið lesenda. Eins sé komið rými fyrir hópa samfélagsins sem áður voru nánast hunsaðir af fréttamiðlum, hópar á borð við hinsegin samfélagið, fólk með andleg veikindi. Eins hafi fjölmiðlar rofið þögn sem hafi vanalega verið um aðila sem brjóta gegn börnum og beita heimilisofbeldi.

Mesti heiður nokkurs fjölmiðlamanns

Varðandi ásakanir um að Fréttablaðið séu undir hæl eigandans svarar Sigmundur:

„Ég haga mér bara eins og óháður, frjáls ritstjóri og það væri minn mesti heiður fyrir að láta reka mig fyrir að vera ósammála eigandanum. Það er bara mesti heiður nokkurs fjölmiðlamanns að láta eiganda reka sig fyrir að vera ósammála honum.“ 

Sigmundur bendir á að hann hafi skrifað svona hundrað leiðara á ritstjóratímabili sínu og ekki verði upp á hann klagað að hann hafi breytt sínum skoðunum eftir hentisemi eiganda Fréttablaðsins.

Til dæmis sé nýráðinn ritstjóri Fréttavaktarinnar á Hringbraut, samtengdum miðli Fréttablaðsins sem Sigmundur er einnig ritstjóri yfir – Elín Hirst sem sat áður á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Raunin sé sú að ritstjórn Fréttablaðsins samanstandi af tugum blaðamanna með ólíkar skoðanir.

„Hér eru vinstri menn, miðjumenn og hægri menn og það er ekkert út á það að setja. Þannig verður til góð ritstjórn.“ 

Pólitíska ljóðskáldið og sveimhuginn

Að sjálfsögðu er Brynjar nú búinn að svara Sigmundi í nýrri færslu á Facebook. Þar sagði hann ritstjórann Sigmund ekki hafa svarað gagnrýni hans því blaðamaðurinn Sigmundur hafi ekki verið til viðtals heldur „pólitíska ljóðskáldið og sveimhuginn sem virðist hafa verið of lengi fastur í einhverjum fjallaskálum í óbyggðum.“

Hann hélt áfram: „Þér tókst illa að svara gagnrýni minni í þessu viðtali. Mér fannst þú staðfesta í raun allt sem ég sagði en virðist finnast það hins vegar í góðu lagi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Gjaldþrota dyrasímar

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Lýsir yfir sigri í ítölsku þingkosningunum – Giorgia Meloni væntanlega nýr forsætisráðherra

Lýsir yfir sigri í ítölsku þingkosningunum – Giorgia Meloni væntanlega nýr forsætisráðherra
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Hlustum á Píratana

Björn Jón skrifar: Hlustum á Píratana
Eyjan
Fyrir 1 viku

Flokkur fólksins og Sjálfstæðisflokkur vilja bjarga Skólamunastofu Austurbæjarskóla

Flokkur fólksins og Sjálfstæðisflokkur vilja bjarga Skólamunastofu Austurbæjarskóla
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón og Brynjólfur segja konurnar ljúga og að varaformaðurinn láti hafa sig að fífli

Jón og Brynjólfur segja konurnar ljúga og að varaformaðurinn láti hafa sig að fífli