fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Óbærileg spenna á Ólympíumótinu

Eyjan
Mánudaginn 8. ágúst 2022 11:15

Spennan á Ólympíumótinu er óbærileg en starf liðsstjóra getur verið strembið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ingvar Þór Jóhannesson, liðsstjóri íslenska kvennalandsliðsins í skák, mun fjalla um Ólympíumótið í skák á síðum DV  sem fram fer dagana 29.júlí – 9. ágúst. Fyrsta umferð mótsins hófst núna í morgun kl.09.30 á íslenskum tíma en hægt er að fylgjast með beinum útsendingum frá mótinu hér.

Algjörlega magnað ólympíumót nálgast nú endastöð hér í Chennai á Indlandi. Þegar þessar línur eru ritaðar eru tvær umferðir eftir af æsispennandi móti. Í opnum flokki hefur Úzbekistan algjörlega slegið í gegn með ungstirni á ungstirni ofan í sínum röðum. Fjórir af fimm liðsmönnum Úzbeka eru tuttugu ára eða yngri og “aldursforseti” þeirra er aðeins 27 ára! Úzbekar munu mæta magnaði “b-sveit” Indverja í nánast úrslitaviðureign í næst síðustu umferðinni. Í báðum þessum liðum eru ungstirni sem hafa stolið nánast öllum fyrirsögnum. Nodirbek Abdusattorov hjá Úzbekum hefur 7 vinninga af 9 mögulegum en magnaður árangur hans hefur jafnvel fallið í skuggann af hreint ótrúlegum árangi Indverjans Gukesh sem er með 8.5 vinning af 9 mögulegum. Það var loks besti skákmaður Azera, Mamedyarov sem stöðvaði sigurgöngu Indverjans í 9. umferð þegar þeir gerðu jafntefli.

Aðallið Indverja er ekkert mikið sterkara en liðið sem er merkt á pappír sem lið númer tvö eða b-sveit en það lið er að mestu samansett af skákmönnum sem eru frá Chennai borg eða Tamil Nadu héraðinu þar sem mótið fer fram. Það má segja að algjör kynslóðaskipti séu að eiga sér stað í skákinni þar sem ungliðahreyfing Indverja og Úzbeka er líklegust til að taka við keflinu af Magnus Carlsen í nánustu framtíð. Þetta sést kannski best á því að Bandaríkjamenn sem nánast allir spáðu sigri fyrir mótið hafa lent í vandræðum með báðar þessar sveitir, gert jafntefli við Úzbeka og töpuðu fyrir Indlandi II. Þessu hefði enginn þorað að spá og Bandaríkjamenn hafa nánast dottið úr leik í baráttunni um efsta sætið. Það má líkja þessu við það að bandaríska landsliðið í körfuknattleik vinni ekki gull á Ólympíuleikum.

Spennan er ekki síður mögnuð í kvennaflokki. Fjögur lið eru jöfn fyrir lokaumferðirnar tvær og Pólverjar eru gríðarlega óvænt í oddastöðu eftir magnaðan sigur á heimastúlkum frá Indlandi í 9. umferðinni. Rétt rúmlega tvítug stelpa, Oliwia Kiolbasa ber hitann og þungann af þessum óvænta árangri Pólverja en hún hefur unnið allar níu skákirnar sem hún hefur teflt sem er hreint magnaður árangur á þetta sterku móti.

Guðmundur Kjartansson hefur verið atkvæðamestur Íslendinga með 6 vinninga í 9 skákum

Íslensku liðin hafa átt ólíku gengi að fagna. Íslenska liðið í opnum flokki er í 33. sæti en liðið hóf leik sem 43. sterkasta liðið. Íslenska liðið hefur lagt að velli alla stigalægri andstæðinga sem það hefur mætt, sex að tölu en tapað fyrir stigahærri sveitum. Íslenska liðið hefur þó verið seinheppið í þeim viðureignum en góð lokaniðurstaða mun velta mikið á síðustu tveimur umferðunum.

Í kvennaflokki hefur lítið gengið upp. Liðið var mjög vel undirbúið en skákgyðjan getur verið erfið viðureignar og í þetta skiptið hefur nánast ekkert fallið með liðinu. Fyrir lokaumferðirnar tvær er liðið í 82. sæti en hóf leik sem lið númer 61.

Hvað er eiginlegt hlutverk liðsstjóra?

Margir hafa spurt mig hvert hlutverk liðsstjóra sé í liðakeppni í skák líkt og ólympíumótið er. Augljóslega er hlutverk liðsstjóra/þjálfara í liðakeppni í skák frábrugðið íþróttum eins og fótbolta, handbolta og körfubolta. Vissulega er hægt að lifa sig inn í viðureignir í skák en það er ekki hægt að öskra og hvetja liðið áfram og alls ekki kvarta í dómarann…hvað þá að kenna dómaranum um úrslitin eins og vinsælt virðist vera í boltaíþróttum. Í skák eru úrslitin yfirleitt alfarið á ábyrgð keppenda, eins og í raun í boltaíþróttum en þar er auðvelda leiðin að firra sig ábyrgð og klína skuldinni alfarið á dómarann!

Í skák er hlutverk liðsstjóra aðallega að velja lið fyrir hverja viðureign og svo reyna að finna út hvað er líklegt að andstæðingurinn komi til með að gera í skákinni sem er framundan. Hvaða byrjunarleiki mun andstæðingurinn velja og hvar munu andstæðingarnir reyna að ná höggi á okkar lið. Liðsuppstilling andstæðinga er ljós um 10 leytið um morguninn að staðartíma hverju sinni og þá hefur liðið u.þ.b. 3-4 klukkustundir til að undirbúa byrjunarleiki dagsins. Liðsstjóri reynir að ráðfæra sig við liðsmenn og fara yfir leiðir eins og hægt er en tíminn til stefnu er skammur þannig að flestir bera að mesta ábyrgð á eigin byrjana taflmennsku.

Þegar skákirnar eru hafnar er hlutverk liðsstjóra í raun mjög lítið. Hlutverkið breytist í hálfgerða yfirsetu og það sem liðsstjóri gerir er í raun að bíða þar til allar skákir klárast og kvittar svo undir að skorið í viðureigninni sé rétt hjá skákstjóra/dómara. Í raun má segja að í 4-5 klukkutíma sé hlutverkið að ná í einstaka kaffibolla fyrir liðsmenn og þess á milli að bíða!

Margir liðstjórar hafa kvartað í raun undan þessu aðgerðarleysi. Reglur eru orðnar ansi strangar til að koma í veg fyrir svindl af einverju tagi. Liðsstjórar þurfa því að mæta til leiks með liðum sínum strax í byrjun umferðar en eðlilegt væri í raun að þeir mættu koma til leiks þegar um 2 klukkutímar eru liðnir af skákunum. Fyrstu 30 leiki í skákunum má hvorugur keppandi bjóða jafntefli og því í raun engin þörf fyrir liðsstjóra. Það sem meira er, þá skiptir það í raun minni máli en áður þar sem reglubreytingar verða alltaf meira í hag skákstjóra á kostnað keppenda og liðsstjóra. Nú er liðsmönnum bannað að ráðfæra sig við liðsstjóra þegar þeim er boðið jafntefli í einstaka skákum. Áður fyrr var alltaf hægt að bera jafnteflisboð undir liðsstjóra sem þá var yfirleitt með á hreinu hvernig viðureignin væri að þróast og gat og mátti svara játandi eða neitandi.

Margeir eignar sér hlut í sigurför Anands

Hlutverk okkar liðsstjóranna hefur verið mismunandi að þessu sinni Liðið í opnum flokki undir stjórn Margeirs Péturssonar hefur að mestu verið í aðalsalnum með efstu liðum og svo er Margeir búinn að fara í viðtal hjá indverkskri sjónvarpsstöð auk þess að vera varamaður í liðinu og hafa teflt nokkrar skákir.

Margeir Pétursson hefur farið í allnokkur viðtöl við indverska fjölmiðla

Margeir var að eigin sögn hress í viðtali við heimamenn en í viðtalinu gaf hann sér sjálfum nokkra inneign í heimsmeistaratitli Viswanathan Anand. Þannig var mál með vexti að Anand, þá einn af efnilegri skákmönnum heims og rísandi stjarna, heimsótti Ísland snemma á níunda áratugnum. Á þeim tíma var Anand grænmetisæta en þegar hann kom til Íslands reyndist erfitt að koma til móts við Indverjann þar sem salöt og grænmetisréttir voru ekki jafn nýmóðins eins og þau eru í dag. Stakk þá Margeir upp á því að Anand ætti að byrja að borða fisk, það að borða fisk væri gott fyrir heilann! Það var ekki að sökum að spyrja, Indverjinn varð fljótlega einn sterkasti skákmaður heims og vann svo heimsmeistaratitilinn. Hvort fiskurinn og ómega sýrurnar hafa átt svo ríkan þátt í því skal ósagt látið, dæmi hver fyrir sig!

Sofið á verðinum

Eins og ég sagði áður get ég bara svarað fyrir mig hvernig ég upplifi liðsstjórahlutverkið að þessu sinni þar sem kvennalið hefur verið allan tímann í keppnissal tvö en liðið í opnum flokki oftar í aðal salnum. Sem betur fer er skemmtilegast að vera í “gúlaginu” svokallaða enda mikil mannverufræði þar á ferð! Þegar bíða þarf eftir liðinu í 4-5 klukkutíma á hverjum degi fer hugurinn að reika. Eftir að búið er að sitja í dágóðan tíma, skoða stöðurnar á borðunum og labba í kringum salinn er lítið annað að gera en að endurtaka sama leik. Stundum vill það þó gerast að liðsstjórar taki smá kríu eins og það er kallað. Á þeim stundum getur verið slæmt að eiga of marga vini sem eru ljósmyndarar eins og sést á forsíðumyndinni.

Það skemmtilega við ólympíumótin er að spjalla við fólk frá ýmsum heimshornum og eignast nýja vin og hitta gamla. Oft vakna upp skemmtilegar pælingar tengdar þessum vinum og hinum ýmsu löndum. Á ólympíuskákmótinu 2018 spjallaði ég eilítið við vin minn Anatoly frá Madagascar. Ég hitti aftur á hann hér á Indlandi og heilsaði honum. Áður en eg kynntist honum hafði ég ekki spáð í því hvað stafurinn A kemur oft við sögur í Madagascar. Þegar þú áttar þig á því ferðu að spá í sama staf í höfuðborginni Antananarivo. Öllu þessu áttaði ég mig á þegar ég sá eftirnafn Anatoly sem er einmitt Andrianantenaina. Menn geta svo skemmt sér við að telja stafinn A hjá fyrsta borðsmanni Madagascar í kvennaflokki: Faratiana Raharimanana. Ég ætla ekki einu sinni að gera ykkur það að fara yfir nöfn hjá liðinu í opnum flokki!

Liðstjórinn fylgist með íslensku landsliðskonunum

Mikið af tímanum þegar farið er á göngu um salinn fer í að heilsa vinum og kunningjum. Slíkt getur verið vandasamt þegar fólk á við vott af félagsfælni og kvíða að stríða. Það er ekki hægt að heilsa alltaf eins þannig að það þarf að vera tilbúið vopnabúr af því að kinka kolli, hvísla mjög lágt “hey” eða “hi”, kless’ann, taka í spaðann, blikka eða taka bendinguna á þetta. Svo þarf að halda bókhald yfir hverjum er búið að heilsa, á að heilsa aftur, man þessi eftir mér, þekki ég þennan og svo framvegis. Svo eru menn hissa á að maður þurfi að leggja sig eftir þetta álag á heilann!

Sem betur fer hafði ég ásamt nokkrum vit á því að nýta frídaginn til þess að kaupa einhverjar bækur til að lesa og eftir miðbik mótsins varð biðin eftir skákunum aðeins bærilegri!

Eiginhandaráritanir og myndatökur

Áhugi Indverjana á mótinu er eins og áður hefur komið fram í þessum pistlum gríðarlegur. Á skákstað mætir alltaf fjóldi fólks og allir íslensku keppendurnir hafa lent í því að beðið sé um myndatökur, eiginhandaráritanir og þess háttar. Yfirleitt höfum við lent í slíku fyrir utan skáksalinn. Ég lenti þó óvænt í að gefa eiginhandaráritun í skáksalnum. Þá kom til mín skælbrosandi stúlka með gular og rauðar fléttur í hárinu. Afríkulöndin eru ansi dugleg að vera merkt sínum fánalitum og hér var á ferðinni skákkona frá Úganda. Þannig er mál með vexti að ég heldi úti Youtube-rás með skákvídeóum og hún tjáði mér að hún væri mikill aðdáandi. Brosti hún sínu breiðasta þegar ég hafði undirritað skákdúk sem hún var með. Ég er ekki frá því að ég hafi skælbrosað líka eftir þetta óvænta atvik!

Sem betur fer þarf ég þó líklegast aldrei að rita nafn mitt jafnoft eða láta taka myndir af mér eins og Magnus Carlsen. Fjölmiðlafárið í kringum heimsmeistarann er gríðarlegt hérna á Indlandi og hann fær ekki mikinn frið, allir vilja myndir og áritanir. Meira að segja þegar skákirnar eru komnar í gang fær Magnus ekki frið eins og smá má á myndbandinu.

Dvorkovich áfram forseti

Samhliða ólympíumótinu hefur fram þing alþjóðlega skáksambandsins FIDE. Helstu fréttir þaðan eru að Rússinn Arkadij Dvorkovich var endurkjörinn með miklum meirihluta atkvæða. Rússinn hlaut 157 atkvæði en mótframbjóðandi hans frá Úkraínu, ótrúlegt en satt, hlaut aðeins 16 atkvæði. Dvorkovich hefur að flestra áliti staðið sig vel sem forseti en skiljanlega eru ekki allir sáttir við að hann sitji áfram sem forseti meðan heimsmálin eru eins og þau eru.

Dvorkovich hefur sterkt tengsl við Kreml enda var hann aðstoðarmaður forsætisráðherra og var meðal annars lykilmaður í skipulagningu Rússa á HM í fótbolta 2018. Dvorkovich hefur samt fengið góðan stuðning frá skáksamfélaginu og t.a.m. var Anand varaforsetaefni hans.

Kannski vantaði almennilegan mótframbjóðanda en Úkraínumaðurinn var í raun bara í framboði á þeirri forsendu að hann væri ekki Rússinn. Stefnumál, stuðningur og fleira fór frekar lítið fyrir. Spurning hvort þetta allt saman komi aftur í andlitið á skákhreyfingunni síðar, aðeins tíminn mun leiða það í ljós.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund