fbpx
Miðvikudagur 08.febrúar 2023
EyjanFastir pennar

Í skjóli Stalíns á Ólympíumóti – Harmleiksferðalag og ótrúleg persónudýrkun

Eyjan
Sunnudaginn 31. júlí 2022 13:00

Ingvar Þór Jóhannesson, liðsstjóri íslenska kvennalandsliðsins er ánægður með MK Stalín.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ingvar Þór Jóhannesson, liðsstjóri íslenska kvennalandsliðsins í skák, mun fjalla um Ólympíumótið í skák á síðum DV  sem fram fer dagana 29.júlí – 9. ágúst. Þriðja umferð mótsins hófst  kl.09.30 á íslenskum tíma og hefur íslenska liðið í opnum flokki farið ágætlega af stað en sigur hefur unnist gegn liðum Ghana og Mónakó í fyrstu tveimur umferðunum. Neðst í greininni er hægt að finna linka á beinar útsendingar frá mótinu.

Ólympíuskákmótið í Chennai á Indlandi er nú komið af stað. Líkt og síðustu skipti sem mótið hefur verið haldið er ferðalagið langt og strangt. Árið 2018 var mótið í Georgíu og 2016 í Azerbaijan en ferðalagið á mótið í ár slær þó allt út. Við fórum aðeins yfir það í fyrsta pistlinum þar sem við kynntum mótið hversu mikil skrifinnska er fyrir mótið bara til að fá vegabréfsáritun en það var bara byrjunin!

Íslenska liðið byrjaði á því að fljúga til Frankfurt. Stutt og laggott þriggja og hálfs tíma flug en heldur var þreytt að þurfa að klína grímu á sig aftur en það er víst reglan í flugum til Þýskalands. Í Þýskalandi var tekin ein nótt en sú var á einhverju furðulegasta hóteli sem undirritaður hefur komið á. Fyrir það fyrsta var hálfgert grín að finna hótelið þó það væri stutt frá flugvellinum, leigubílstjórinn var í miklum vandræðum en einhvern veginn sáum við krumpað A4 blað límt á rúðu sem var við einhverskonar kaffihús alveg við lestarstöð. Þetta reyndist rétti staðurinn en þarna var þó bara móttakan! „Come with me” sagði gríski eigandinn þegar hann hafði afhent okkur lyklana að herbergjunum okkar…„it’s only 150 meters” Síðan tók við göngutúr þar sem þessi gríski meistari og aldraður faðir hans ýttu töskunum okkar með okkur og sýndu okkur herbergin okkar. Við fórum í hrörleg bakhús og eina samlíkingin sem mér dettur í hug er að það er eins og móttakan hafi verið í Álfheimum við hliðina á ísbúðinni og svo röltum við yfir í Skipasundið í eitthvað bakhús og þar voru herbergin okkar!

Ingvar Þór Jóhannesson er ekki áhugamaður um löng og sveitt harmleiksferðalög

Sveitt herbergi og ferðalag

Einhver hitabylgja hefur verið að ganga um Evrópu og við fundum svo sannarlega fyrir því. Nokkur herbergjanna voru nánast eins og gufubað og undirritaður man ekki eftir að hafa sofið jafn illa, ítrekað vaknaði maður upp í svitakófi og hitinn nánast óbærilegur. Óljóst var hvort að viftan væri að bæta lofið eða dæla meira heitu lofti í herbergið. Möguleiki var á að opna gluggann meira en það hefði auðvitað verið ávísun á einhverskonar skordýraheimsóknir!

Engu að síður þurfti liðið að rífa sig upp eldsnemma en 6:30 var pantaður bíll til að koma okkur á flugvöllinn, vel tímanlega í flugið enda vitað að mikill erill væri á flugvellinum í Frankfurt. Kvöldið áður hafði íslenska liðið og þá sérstaklega forseti Skáksambands Íslands, Gunnar Björnsson, fengið nett taugaáfall þegar fréttist bárust af því að starfsfólk flugvallarins á Frankfurt hefði boðað verkfall. Allt í einu fóru hrikalegar sviðsmyndir af stað þar sem liðið hreinlega kæmist ekki til Indlands eða að sambandið þyrfti að punga út þvílíkum fjárhæðum til að koma liðinu þangað. Sem betur fer reyndist íslenski fréttamiðilinn þjófstarta tíðundum og verkfallið skall á daginn eftir flugið okkar, sem betur fer!

Hrakfarir á hrakfarir ofan

Liðsmenn mættu því bjartsýnir og tímanlega á flugvöllinn í Frankfurt og héldu beinustu leið í sjálfsafgreiðslu í innritun. Þrátt fyrir góða tilburði og innáskiptingar í innslætti þá virtist innritun ekki ætla að ganga. Margir af sjálfsafgreiðslukössunum höfðu hreinlega bilaða takka sem ekki var hægt að ýta á og t.d. var sérlega pirrandi að vera búinn að slá inn 10 stafi en svo er takkinn fyrir næsta staf einfaldlega bilaður. Kallað var á aðstoð og loks virtust hlutirnir vera að ganga upp, Vaskur liðsmaður taldi sig vera kominn á gott skrið og búið var að slá inn 7 af 9 manns á bókunarnúmerinu, þ.e. slá inn nafn og vegabréfsnúmer hjá öllum en þá rennur innslátturinn út á tíma! Tómið heimtir eins og einhver sagði.

Eftir martröð í sjálfsafgreiðslunni náðum við loks að hafa upp á innritunarborði þar sem var starfsmaður af holdi og blóði. Nú héldum við að loksins væru hrakfarir okkar að baki. Það reyndist rangt! Níu úr íslenska hópnum lentu á biðlista í flugið, þ.e. fengu ekki úthlutað sæti. Í stað sætisnúmers stóð bara “standby” á brottfararspjaldinu. Til að skilja ástæðuna fyrir þessu þurfum við að bakka um einn dag. Eins og fram kom í fyrsta pistli, missti Vignir Vatnar Stefánsson okkar efnilegasti skákmaður af mótinu vegna covid sýkingar. Þar sem hann var skiljanlega skráður í flugið til Indlands vildi Gunnar forseti afbóka flugið hans til að fá einhvern pening til baka. Aðgerðin að afbóka flug Vignis tókst ekki betur en svo að fyrir slysni afbókaðist ÖLL bókunin og þeir níu sem voru í sömu bókun voru dottnir út. Það var því ekki bara stress út af fréttinni um verkfallið heldur þurfti Gunnar að eyða lunganum úr deginum í það að leiðrétta pöntunina á fluginu þannig að hún dytti ekki út. Það mál var talið leyst eftir fjölmörg símtöl og heimsóknir á skrifstofur Lufthansa. Eitthvað virðist það hafa skolast til fyrst þetta var niðurstaðan.

Bið upp á von og óvon

Ekkert var í stöðunni annað en að fara í gegnum vopnaleitina og vona að þetta myndi blessast allt saman. Undirritaður er mjög hrifinn af gömlu góðu Seinfeld þáttunum og ítrekaði ég að þetta myndi allt saman reddast og tók kæruleysið á þetta, reyndi að spegla lífsspeki hins magnaða karakters Cosmo Kramer. Ég vil nefnilega vera bjartsýnismaður en innst inni er ég George Costanza…ég er miðaldra, sköllóttur og ég er um það bil hálfa sekúndu að verða pirraður yfir engu og öllu…og svo virðist ég vera álíka seinheppinn og vinur minn George.

Þessi pirringur kristallaðist allur saman í vopnaleitinni. Við vorum búin að bíða heillengi og ég reyndi mitt besta að vera spakur og pirra mig ekki á hvað þetta gekk allt saman hægt. Við vorum næst og félögum mínum í íslenska liðinu var bent á að fara áfram að næsta hliði. Þolinmæðin var að skila sér, það var komið að mér….en nei þá kom einhver starfsmaður og lokaði hliðinu sem ég var á leiðinni í gegnum. Mér var vístað á næsta hlið en flestir Íslendingana voru komnir í gegn. Þetta var kannski ekki svo slæmt, ég var næstur á eftir pari með eitt ungt barn…þetta var aldrei að fara að taka of langan tíma. Eða það myndi maður halda en nei, ég fékk einhverja George Constanza útgáfu af seinheppni.

Fyrir framan mig og eina hindrunin til að komast í gegnum vopnaleitina var par með lítið barn, hvað gæti farið úrskeiðis? Jú parið var stærstu töskur sem ég hef séð  í handfarangri og auka tösku þar að auki. Upp úr þessum töskum tókst þeim einhvern veginn að taka upp nóg af vörum til að opna apótek á Akranesi og raftækjaverslun á Reyðarfirði. Ég hef aldrei á ævinni séð fólk setja jafn mikið drasl í bakka í gegnum vopnaleit. Alltaf þegar ég hélt að þau væru búin tókst þeim að setja dót á einn bakka í viðbót Það voru allavega 17 flöskur af lyfjum, smyrslum og guð má vita hvað. Auk þess voru svo öll raftæki sem hægt er að telja upp og snúrur fyrir allt heila klabbið. Til að toppa allt fór svo barnið örugglega að grenja líka, ég man það hreinlega ekki, ég hafði fullt í fangi með að hafa stjórn á reiða George inn í mér sem vildi bara öskra.

Á endanum hafðist þetta allt saman og þetta var eitt af fáum skiptum þar sem mæting fjóra tíma fyrir flug borgaði sig svo sannarlega! Flugið gekk skínandi vel og þessir 9+ klukkutímar hurfu furðu fljótt.

Góðar móttökur í Chennai

Vel var tekið á móti okkur á flugvellinum í Chennai. Hermenn tóku okkur til hliðar og fengum við sérmeðferð. Skutl í golfbíl og sér básar í vegabréfsskoðun, bara fyrir keppendur ólympíuskákmótsins þannig að það gekk eins hratt fyrir sig að komast inn í landið og hægt var…en samt var það hægt! Allir fengu einhverskonar hálsklút að gjöf við komuna og þegar við komum úr flugstöðinni biðu okkar fjöldi ljósmyndara og fréttamanna með vídeóupptökuvélar. Það var greinilegt að Indverjar ætluðu að standa við stóru orðin um eftirminnilegt Ólympíumót.

Í rútuferðinni á leiðinni á hótelið mátti sjá veggi, brýr og fleira skreytt alla leiðina, vel merkt ólympíumótinu. Á þessum veggjum og eins á veggspjöldum tókum við fljótlega eftir að á flestum þeirra var brosandi Indverji með yfirvaraskegg. Óvenjulegt fyrir ólympíumót en hér var á ferðinni ríkisstjórinn í Tamil Nadu sem er 80 milljón manna héraðið sem Chennai er hluti af.

Gunnar Björnsson, forseti SÍ, og stórmeistarinn Margeir Pétursson heilsa aðdáaendum á flugvellinum í Chennai

Í skjóli Stalíns!

Við komuna á hótelið fengum við bækling og eftir að hafa skoðað hann stuttlega kom í ljós að nafnið á meistaranum með yfirvaraskeggið var í meira lagi kunnulegt en á sama tíma mjög óvenjulegt fyrir Indverja. Ríkisstjórinn heitir nefnilega Stalín – MK Stalin! Sannarlega óvenjulegt og kannski hefur pabbi hins indverska ríkistjórans verið aðdáandi Josefs, nafna hans. Að minnsta kosti eiga nafnarnir það sameiginlegt að skarta veglegu yfirvararskeggi!

Hvert sem farið er blasa við myndir af hinum háæruverðuga Stalíns og persónudýrkunin keyrði algjörlega um þverbak í langdreginni opnunarathöfn. Opnunarathöfnin er eiginlega efni í harmleikspistil að hætti George Costanza en venjulega eiga slíkar athafnir að taka 1-2 klukkustundir í mesta lagi en einhvern veginn með ferðalögum, töfum og svooooo mörgum ræðum tókst Indverjunum að eyða fyrir okkur tíu klukkutímum sem við fáum aldrei aftur!

En aftur að Stalín. Í þessari langdregnu opnunarathöfn voru ýmis atriði sem mörg hver voru mjög góð….en þau voru bara svo svo mörg og svo svo langdregin. Á staðnum voru sjónvarpsskjáir og alltaf þegar Stalín kom í mynd þá fögnuðu og skríktu allir Indverjarnir í salnum eins og þeir væru að fá borgað fyrir það. Á tímabili vorum við að velta því fyrir okkur hvort að þessi fagnaðarlæti væru spiluð af upptöku. Það var annaðhvort það eða hlýðni að norður-kóreskum stíl!

Persónudýrkunin náði eiginlega hámarki hjá annars mögnuðum sandlistamanni sem setti sand á borð og teiknaði svo mögnuð listaverk með fingurna eina að vopni. Listaverkunum var svo varpað upp á risastóran skjá og að hverju verki loknu hreinsaði listamaðurinn allt út og hófst handa við annað listaverk, allt einhvern veginn tengt Indlandi, Tamil Nadu héraðinu og/eða skáklistinni.

Sandlistamaðurinn enn með Stalín hægra megin og eftir fjölda listaverka kláraði hann loks á því að teikna forsætisráðherrann við hilðina á Stalín.

 

Þegar sandlistamaðurinn hafði sett andlit hins háæruverðuga Stalíns á skjáinn þá hætti hann að stroka út allan skjáinn og strokaði alltaf út hálfan skjáinn. Hélt svo áfram að teikna upp allskonar listaverk en alltaf fékk myndin hans af Stalín að hanga við hliðina á nýju listaverkunum.

Það er allavega ljóst að mótið hér í Chennai er í haldið í skjóli hins háæruverðuga Stalín!

Íslensku liðin klár í slaginn í Chennai

Mótið byrjar á pari

Ég mun lýsa aðstæðum á mótsstað betur í næstu pistlum en varðandi árangur íslensku liðanna hingað til má segja að hann sé á pari eftir tvær umferðir.

Bæði íslensku liðin, í opna flokki og kvennaflokki, unnu 4-0 sigur í fyrstu umferð. Liðið í opna flokki vann allar skákir sínar gegn á Ghana en kvennaliðið hafði Bahrain undir með sannfærandi hætti.

Í annarri umferð má segja að alvaran hafi farið af stað en þá mætti íslenska liðið seigu liði Mónakó á meðan konurnar tefldu við lið Slóvakíu. Hér má lesa nánari lýsingu af gangi mála í þessari umferð auk þess sem hægt er að renna yfir skákirnar.

Konurnar töpuðu illa gegn sterku liði Slóvakíu 3½-½ en liðið í opna flokki vann sigur með minnsta mun 2½-1½. Sá sigur hefði átt að vera miklu stærri en því miður varð stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson fyrir þeirri ótrúlegu óheppni að gleyma sér og ð falla á tíma með hartnær unnið tafl.

Þriðja umferðin fór af stað kl.9.30 á íslenskum tíma. Liðið í opna flokki mætir þar þriðja liði Indlands – sem er afar öflugt – en konurnar tefla við Tæland þar sem krafa er um stórsigur.

Hér má fylgjast með beinni útsendingu frá viðureign Íslands í opnum flokki og hér er útsending fyrir kvennaflokkinn. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
20.11.2022

Björn Jón skrifar: Erfitt að gæta fengins fjár

Björn Jón skrifar: Erfitt að gæta fengins fjár
EyjanFastir pennar
13.11.2022

Björn Jón skrifar: Lærdómurinn af Baugsmálinu

Björn Jón skrifar: Lærdómurinn af Baugsmálinu
EyjanFastir pennar
14.10.2022

Heimir skrifar: Sendum þann rússneska heim og lokum á landa hans

Heimir skrifar: Sendum þann rússneska heim og lokum á landa hans
EyjanFastir pennar
09.10.2022

Björn Jón skrifar: Aðfluttur mannauður — ekki „útlent vinnuafl“

Björn Jón skrifar: Aðfluttur mannauður — ekki „útlent vinnuafl“
EyjanFastir pennar
04.09.2022

Þegar ég datt í það með föður hættulegasta manns internetsins

Þegar ég datt í það með föður hættulegasta manns internetsins
EyjanFastir pennar
28.08.2022

Björn Jón skrifar: Tilræðið við Rushdie og óttinn við að tjá sig

Björn Jón skrifar: Tilræðið við Rushdie og óttinn við að tjá sig
EyjanFastir pennar
27.08.2022
Hjálpum Ara!
EyjanFastir pennar
07.08.2022

Björn Jón skrifar – Agaleysi er þjóðarböl

Björn Jón skrifar – Agaleysi er þjóðarböl
EyjanFastir pennar
05.08.2022

Offramboðið af löggum og sjálfboðaliðum á Ólympíumótinu – „Can I hold it for you?”

Offramboðið af löggum og sjálfboðaliðum á Ólympíumótinu – „Can I hold it for you?”