fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Óvæntar vendingar í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna í Danmörku í gær – Þau stálu athyglinni

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 2. júní 2022 08:00

Danir kusu um fyrirvarann við varnarmálasamstarf ESB í gær. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leiðtogar þeirra flokka sem mæltu með því að Danir greiddu því atkvæði að fallið verði frá fyrirvara þeirra við varnarmálasamstarf ESB fengu að sóla sig aðeins í gærkvöldi þegar úrslit kosninganna lágu fyrir. En það voru tveir aðrir stjórnmálamenn sem stálu athyglinni í gærkvöldi og eru á nánast allra vörum nú í morgunsárið.

Eins og DV skýrði frá í morgun þá var niðurstaða atkvæðagreiðslunnar afgerandi. 66,9% greiddu því atkvæði að fallið verði frá fyrirvaranum um varnarmálasamstarfið en 33,1% voru á móti. Kosningaþátttakan var þó dræm, aðeins 65,8%.

Danir sendu skýr skilaboð í þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær

Athygli fjölmiðla beindist framan af að Mette Frederiksen, forsætisráðherra og leiðtoga jafnaðarmanna, Jakob Ellemann-Jensen, formanni Venstre, og Søren Pape Poulsen, formanni Konservative. Flokkar þeirra, auk Radikale Venstre, voru mest áberandi í röðum þeirra sem hvöttu til þess að fallið yrði frá fyrirvaranum.

En ekki var langt liðið á kvöldið þegar kastljósið tók krappa hægri beygju og beindist skyndilega að einum fyrrverandi þingmanni og einum núverandi þingmanni.

Þetta eru þau Inger Støjberg, fyrrum þingmaður Venstre og varaformaður flokksins, og Kristian Thulesen Dahl, þingmaður Danska þjóðarflokksins. Støjberg lauk nýlega afplánun refsingar sem Landsréttur dæmdi hana til í vetur vegna ólögmætra aðgerða hennar í ráðherratíð hennar. Þær aðgerðir gengu út á að aðskilja hjón úr röðum flóttamanna þar sem eiginkonurnar voru á barnsaldri. Støjberg missti þingsæti sitt vegna málsins og var dæmd í 60 daga fangelsi.

Inger Støjberg. Mynd:EPA

 

 

 

 

 

Støjberg og Thulesen Dahl hafa verið á milli tannanna á fólki að undanförnu í tengslum við stjórnmál en orðrómur er uppi um þau muni jafnvel stofna nýjan stjórnmálaflokk á hægri vængnum. Þessi orðrómur fékk byr undir báða vængi í gærkvöldi. Thulesen Dahl mætti ekki á kosningavöku Danska þjóðarflokksins í þinghúsinu, Christiansborg, í gærkvöldi og sagðist vera að endurvekja gamla fjölskylduhefð með því að vera með fjölskyldunni á kosningakvöldi.

En Støjberg mætti í Christiansborg, sem gestur, og hópuðust fréttamenn strax að henni og spurðu hana um pólitíska framtíð hennar. Svar hennar var ansi skýrt: „Ég er reiðubúin til að snúa aftur í stjórnmálin. Það líða ekki margir mánuðir og dagar þar til ég segi nánar frá þessu.“

Má því reikna með að hún muni tilkynna um næsta leik sinn á pólitíska sviðinu í sumar.

Þegar blaðamaður B.T. spurði hana hvort hún hefði notað tímann, meðan hún var að afplána dóm sinn, til að skrifa stefnuskrá nýs flokks svaraði hún: „Ég get bara sagt að það er ekki ljóðasafn.“

En á kosningavöku Danska þjóðarflokksins voru margir gapandi hissa yfir fjarveru Thulesen Dahl sem var formaður flokksins þar til fyrir skömmu. Núverandi formaður flokksins er Morten Messerschmidt sem var árum saman einn vinsælasti flokksmaðurinn og rísandi stjarna. Stjarna hans hefur þó heldur lækkað flugið að undanförnu. Sérstaklega vegna ákæru á hendur honum fyrir að hafa nota fé frá Evrópusambandinu á ólögmætan hátt þegar hann var þingmaður á Evrópuþinginu. Hann var sakfelldur vegna málsins í vetur en dómurinn var síðar felldur úr gildi af æðra dómstigi þar sem vafi þótti leika á um óhlutdrægni dómara málsins. En málinu er ekki lokið og verður tekið fyrir hjá undirrétti á nýjan leik.

Kristian Thulesen Dahl mætti ekki á kosningavöku Danska þjóðarflokksins. Mynd:EPA

 

 

 

 

 

 

 

Fréttamenn hópuðust að Messerschmidt þegar hann mætti á kosningavökuna og spurningar þeirra snérust eingöngu um Thulesen Dahl sem lét fara vel um sig í sófanum heima. „Ég hef að minnsta kosti aldrei misst af kosningavöku hjá Danska þjóðarflokknum,“ sagði Messerschmidt og bætti við að það hlyti að vera „góð ástæða“ fyrir að Thulesen Dahl mætti ekki.

Messerschmidt var í fararbroddi nei-sinna í kosningabaráttunni. Fékk þó smávegis hjálp frá Einingarlistanum og Nýju borgaralegu en nei-sinnar voru aldrei nálægt því að sigra. Já-sinnar tengdu atkvæðagreiðsluna við stríðið í Úkraínu frá upphafi og það gátu nei-sinnar ekki jafnað á neinn hátt.

Messerschmidt, sem er eindreginn andstæðingur ESB, beið því pólitískan ósigur í þjóðaratkvæðagreiðslunni en hann er þó smávægilegur miðað við fjarveru Thulesen Dahl og orðrómsins um að hann og Støjberg séu að undirbúa stofnun nýs flokks. Fjarvera Thulesen Dahl á kosningavökunni var engin tilviljun, hún var væntanlega yfirlýsing um að hann sé á förum úr flokknum.

Kvöldið sem átti að snúast um úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar var kvöldið sem Støjberg og Thulesen Dahl sendu dönsku þjóðinni skýr skilaboð: Nýr flokkur er að fæðast á hægri vængnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus