fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Misvægi atkvæða er misvægi mannréttinda

Eyjan
Sunnudaginn 22. maí 2022 16:00

Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jarðarfarir eru meðal helstu mannamóta hér í borginni. Venjan býður að vera mættur vel tímanlega og þá er fátt annað að gera en líta í kringum sig og sjá hverjir eru mættir til að votta hinum látna hinstu virðingu. Oftar finnst mér raunar athyglisverðara hverjir eru ekki mættir, til dæmis hefur mér fundist bregða við undanfarið að forystumenn í stjórnmálum og félagasamtökum margs konar sýni ekki þá lágmarksvirðingu að vera viðstaddir útfarir forvera sinna eða fólks sem lagt hefur mikið af mörkum í viðkomandi málaflokki. Verulega virðist skorta á söguvitund margra sem eru þá kannski um leið svo uppfullir af sjálfum sér að þeim er fyrirmunað að greina afrek þeirra sem á undan gengu.

Það sem gamli maðurinn sagði

Svo þessi pistill verði ekki bara eitthvert raus og ég komi mér að efninu þá hafði ég fengið mér sæti fyrir miðri Hallgrímskirkju í jarðarför fyrir um það bil tveimur árum og horfði í kringum mig meðan þess var beðið að athöfnin hæfist. Aldraður maður sem ég þekkti ekki sat við hlið mér og gaf sig á tal við mig. Hann sagði: „Ég sé að þú ert að skrifa í blöðin. Þú ættir að taka fyrir stærsta óréttlæti samtímans — misvægi atkvæða“. Ég tók öldunginn á orðinu og hef skrifað talsvert um þessi mál og samsinni honum hvers konar ósvinna er hér á ferð.

Þegar talað er um vægi atkvæða er átt við þingsætisbrot að baki hverjum kjósanda á kjörskrá — eða á hinn veginn: kjósendur að baki hverju þingsæti. Svokölluð Feneyjanefnd sem starfar á vegum Evrópuráðsins mælti með því fyrir tveimur áratugum að þetta misvægi yrði ekki meira en 15 af hundraði og frávik frá meðaltali færi ekki yfir 10 af hundraði. Svo sem kunnugt er er munurinn miklu meiri hér á landi og mestur milli suðvestur- og norðvesturkjördæma þar sem hann er tvöfaldur.

En ekki bara það heldur er ójafnt atkvæðavægi milli flokka líka. Þorkell Helgason stærðfræðingur benti á það eftir síðustu alþingiskosningar að hefði vægi atkvæða á landsvísu verið jafnt á milli flokka hefði Framsóknarflokkur hlotið 12 þingmenn og Sjálfstæðisflokkur 17 en niðurstaðan var sú að sá fyrrnefndi hlaut 13 menn og síðarnefndi 16. Misjafnt atkvæðavægi flokka er tilkomið vegna þess að jöfnunarsætin eru of fá miðað við kjördæmasætin.  Þetta er endurtekið efni því þingmanni Framsóknarflokks var líka ofaukið í kosningunum 2013 og 2017.

Fleiri fræðimenn hafa bent á þessar skekkjur, þar á meðal Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur, en málið fær sáralitla athygli og svo að sjá sem stjórnmálastéttin hafi svo gott sem sammælst um að viðhalda óréttlætinu.

Einn maður — eitt atkvæði

Ef við hverfum aftur til næstsíðustu aldamóta þá stóð sem hæst um þær mundir barátta fyrir stjórnmálalegum réttindum óháð efnahag og kynferði. Svo fór að sigur vannst. En það er enginn eðlismunur á þeirri mismunun og mismunun á grundvelli búsetu. Lengst af þótti sjálfsagt að aðeins efnameiri karlar hefðu kosningarétt og það var vandlega rökstutt, meðal annars með skírskotun til skrifa forngrískra heimspekinga. Slíku er vitaskuld hafnað í okkar samtíma en lengst af voru menn fastir í viðjum vanans; svona hefði þetta lengst af verið og yrði áfram. Hið sama á við um misvægi atkvæða.

Það vekur undrun þess er þetta ritar að málinu sé ekki gefinn meiri gaumur. Nálega ekkert var um það rætt í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Og raunar eru röksemdir með misskiptingunni svo veikburða að þær eru allt að því hlægilegar, því er til að mynda haldið fram að landsbyggðarfólk hafi lakari aðgang að stjórnkerfinu en þeir sem búa á Reykjavíkursvæðinu. Ég er nú ekki einu sinni viss um að þetta standist skoðun en ef rétt er þá verður að bæta þann aðstöðumun með öðrum hætti en láta íbúa Reykjavíkur og nágrennis búa við lakari mannréttindi en aðra landsmenn.

Samvinna milli þjóða eykst á ógnarhraða og við eigum sem þjóðfélag í harðvítugri keppni við nágrannalöndin um lífskjör og lífsgæði (þar sem við stöndum um sumt talsvert verr en við höldum). Til að auka samkeppnishæfni landsins er brýnt að heildarhagsmunir verði hvarvetna teknir fram yfir hvers kyns sérhagsmuni — þar með talið sérhagsmuni einstakra atvinnuvega og svæða. Ein leið til þessa er að gera landið allt að einu kjördæmi. Með því móti má styrkja samheldni landsmanna og forðast flokkadrætti.

Cató gamli endaði flestar ræður sínar í öldungaráðinu með hinum fleygu orðum: „Praeterea censeo Carthagiem esse delendam,“ eins og frægt er og myndi útleggjast einhvern veginn svona: „Auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði.“ Og ég er með þessum pistli að endurtaka mig en þess gerist stundum þörf og mig langar samhliða því að landið verði gert að einu kjördæmi að leggja enn og aftur til að þingmönnum verði fækkað niður í fjörutíu eða fimmtíu. Stór hluti þingmanna er óþekktur landsmönnum. Fækkun þingsæta — sem myndi um leið gera þau eftirsóknarverðari — er ein leið til að fá hæfara fólk til starfa. Og gleymum því ekki að misvægi atkvæða er misvægi mannréttinda. Reglan á að vera einn maður — eitt atkvæði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Töfrar amfetamíns

Óttar Guðmundsson skrifar: Töfrar amfetamíns
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðanað ég æli

Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðanað ég æli
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar
EyjanFastir pennar
08.03.2024

Steinunn Ólína skrifar: Áunnið heyrnarleysi

Steinunn Ólína skrifar: Áunnið heyrnarleysi
EyjanFastir pennar
07.03.2024

Svarthöfði skrifar: Minningargrein um lifandi mann

Svarthöfði skrifar: Minningargrein um lifandi mann