fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

„Man fólk eftir Landsréttarmálinu?“

Eyjan
Sunnudaginn 1. maí 2022 14:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir ekki flókið að skýra út hvaða hlutverki Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, átti að gegna við Íslandsbankasöluna. Ekki þurfi að horfa lengra aftur í tíman en að Landsréttarmálinu til að setja hlutina í samhengi.

Hann vekur athygli á þessu á Facebook. Salan á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka á lokuðu útboði hefur harðlega verið gagnrýnd undanfarnar vikur og hafa flest spjót beinst að fjármálaráðherra vegna þeirra meintu annmarka sem á sölunni voru.

Eitt af því sem hefur verið gagnrýnt er að Bjarni hafi ekki yfirfarið tilboðsgjafa áður en tilboð þeirra voru samþykkt. Sjálfur hefur Bjarni bent á að það hafi ekki verði hans hlutverk og vísað í því samhengi til armslengdarsjónarmiða. Hans aðkoma hafi falist í því að samþykkja magn þeirra bréfa sem seld og voru og verðið, sem hann hafi og gert.

Björn Leví hafnar þessari skýringu og líkir málinu saman við Landsréttarmálið. En fyrir þá sem þurfa að rifja upp það mál þá fólst það í því að dómarar voru skipaðir við Landsrétt þrátt fyrir að hafa ekki verið á lista yfir hæfustu umsækjendur samkvæmt mati sérstakrar dómnefndar.  Málið leiddi til afsagnar Sigríðar Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, og komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að þessi skipan hafi brotið gegn mannréttindasáttmálanum.

Man fólk eftir Landsréttarmálinu?

Björn skrifar um þetta:

„Fyrir fólk sem heldur enn að fjármálaráðherra hafi ekki átt að gera neitt nema skrifa undir verð og magn þegar hann seldi Íslandsbanka …

Prófum smá samlíkingu. Man fólk eftir Landsréttarmálinu? Þar tók þáverandi dómsmálaráðherra við rökstuddu mati á skipun 15 dómara frá hæfnisnefnd. Ráðherra skoðaði listann og var ekki sátt við niðurstöðuna og skipti út nokkrum sem áttu að verða dómarar fyrir aðra umsækjendur.

Það efaðist nákvæmlega enginn um að dómsmálaráðherra mætti fikta í listanum. Ráðherra þurfti bara að gera það á málefnalegum forsendum – sem hún gersamlega klúðraði. Það stóð ekki steinn yfir steini í röksemdafærslu hennar.“

Mátti fikta en bara faglega

Björn Leví segir að þó svo að líkindin við Íslandsbankasöluna séu ekki augljós þá sé þó hægt að líta á Bankasýsluna sem eins konar hæfnisnefnd sem hafi verið fengið það hlutverk að sjá um „ráðningarferli“ eða með öðrum orðum að ákveða hverjur fengu að taka þátt í lokaða útboðinu.

„Bankasýslan framkvæmir á sama hátt söluferlið. Á nákvæmlega sama hátt og hæfnisnefnd skilar rökstuddu mati á umsækjendum skilar Bankasýslan rökstuddu mati um hvaða tilboð standast kröfur.“

Líkt og í máli Sigríðar Á. Andersen hafi Bjarni mátt „fikta“ eins og hann vildi í málinu, en það hafi hann þurft að gera á faglegan hátt.

„Til þess að koma í veg fyrir að mismuna þeim sem senda inn tilboð. Alveg nákvæmlega eins og hann má ekki mismuna umsækjendum í stöðu dómara.

Segjum sem svo að einn af umsækjendunum væri fjölskyldumeðlimur ráðherra. Myndi fólk telja ráðherra vera hæfan til þess að kvitta upp á ráðninguna? Nei, auðvitað ekki. Meira að segja þó hæfnisnefndin hefði metið viðkomandi fjölskyldumeðlim hæfan – því það er alveg til sá möguleiki að það sé ekki satt. Ráðherra gæti fundið eitthvað að í þeim rökstuðningi sem hæfnisnefndin/Bankasýslan skilar inn til ráðherra. En ráðherra getur ómögulega lagt óvilhalt mat á það þegar einn af umsækjendunum er fjölskyldumeðlimur.“

Það er bara einfaldlega ekki satt

Þar vísar Björn Leví til þess að faðir Bjarna, Benedikt Sveinsson, var einn þeirra sem fengu að kaupa í útboðinu og þó að Bjarni hafi skýrt tekið fram að hann hafi komist að kaupum föður síns eftir að útboðið hafði farið fram, þá haldi sú skýring ekki vatni.

„Það er ekki einu sinni hægt að afsaka sig með því að „hafa ekki vitað“. Ástæðan fyrir því eru téð fjölskyldutengsl. Vegna þeirra er ómögulegt að sýna fram á það með óyggjandi hætti að viðkomandi hafi ekki fengið einhvers konar forskot vegna tengsla eða óformlegra upplýsinga sem fjölskyldutengsl bjóða upp á.

Eina afsökunin sem væri til, er ef útboðið hefði verið opið og almennt. En það var það ekki. Það er vel viðurkennt, sama hvað reynt er að rembast við að reyna að segja að þetta hafi verið opið útboð meðal hæfra fjárfesta. Það er bara einfaldlega ekki satt og mjög auðvelt að sjá af hverju ekki í öllum gögnum málsins. Sumir fengu símtal, aðrir ekki. Sumir voru skertir meira en aðrir — með huglægu mati.“

Þarna vísar Björn Leví til þess að þátttakendur í útboðinu höfðu hug á að kaupa meira en þeir fengu og var hlutur þeirra skertur eftir að því er virðist vera matskenndri ákvörðun Bankasýslunnar. Því sé erfitt að sjá hvort að faðir Bjarna hafi þar fengið minni skerðingu en aðrir sökum tengsla – eða hvort hann hafi verið skertur líkt og aðrir í hans stöðu.

Þetta er ekki flókið

Bjarni hafi einnig spurt hvort að faðir hans hafi ekki mátt kaupa líkt og allir aðrir. Björn Leví svarar því til að ekki sé verið að halda því fram að Benedikt hafi ekki mátt kaupa í útboðinu, það hafi þó falið í sér að einhver annar en sonur hans yrði að samþykkja það tilboð.

„Önnur málsvörn sem verið er að reyna er „mátti hann ekki kaupa?“. Jú, væntanlega ef hann uppfyllir öll skilyrðin. En rétta spurningin þá er „mátti fjármálaráðherra selja honum?“ og svarið þar er mjög skýrt nei. Fjármálaráðherra er vanhæfur til þess að selja fjölskyldumeðlimum banka í lokuðu útboði þó fjölskyldumeðlimirnir séu hæfir til þess að kaupa.

Þetta er ekki flókið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins