fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Augljósir gallar prófkosninga

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 20. mars 2022 17:43

Valhöll. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Fyrir landsfund Sjálstæðisflokksins 1970 voru tveir ungir menn, Friðrik Sophusson og Ellert B. Schram, fengnir til að semja landsfundarályktun með Magnúsi Jónssyni frá Mel, sem þá var fjármálaráðherra í viðreisnarstjórninni. Ungu mennirnir lögðu til að haldnar yrðu prófkosningar til að velja á lista flokksins fyrir alþingiskosningarnar sem fram færu ári síðar en fyrir borgarstjórnarkosningarnar þetta sama ár hafði verið efnt til prófkjörs og alls greiddu 6.812 manns atkvæði. Fram til þessa tíma hafði röðun á lista fyrir kosningar verið í höndum uppstillingarnefndar og þær tillögur síðan bornar undir fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Þó hafði verið haldið prófkjör við val á lista fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík 1945 en það var undantekning.

Lýðræðisbylting

Ungu mennirnir höfðuðu til frelsis allra flokksmanna til að taka ákvörðun um val á framboðslista og lögðu þannnig áherslu á að ákvarðanir væru teknar af flokksfólkinu sjálfu — fjöldanum — en ekki þröngum hópi manna líkt og verið hafði. Svo fór að tillagan var samþykkt og í reynd var þetta lýðræðisbylting.

Alls tók 9.271 þátt í prófkjörinu fyrir alþingiskosningarnar 1971 sem er gríðarlegur fjöldi í ljósi þess að 44.935 greiddu atkvæði í kosningunum í Reykjavík það ár. Sjálfstæðimenn í borginni ákváðu aftur að halda prófkjör fyrir alþingiskosningar 1978, en það fór fram í nóvember 1977. Hvorki fleiri né færri en 43 gáfu kost á sér og 9.877 greiddu atkvæði. Í prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningarnar sama ár greiddu enn fleiri atkvæði eða 10.762. Miðað við fjölgun borgarbúa myndi það samsvara því að um 15.500 manns kysu í prófkjöri nú. Þessi mikla þátttaka undirstrikaði að prófkjörin höfðu fest sig í sessi.

Eftir alþingiskosningarnar 1978 var mynduð vinstristjórn undir forystu Ólafs Jóhannessonar. Sú stjórn leystist upp í október 1979 eftir 13 mánaða stuttan, stormasaman og stefnulausan valdaferil. Boðað var til kosninga á nýjan leik sem háðar skyldu 2. og 3. desember 1979. Sjálfstæðismenn í Reykjavík ákváðu þá að efna aftur til prófkosninga. Geir Hallgrímsson varð efstur í kjörinu, Albert Guðmundsson annar, Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrverandi borgarstjóri, kom nýr inn á lista og varð þriðji, Gunnar Thoroddsen fjórði, Friðrik Sophusson fimmti, Ellert B. Schram hafnaði í sjötta sæti og Ragnhildur Helgadóttir varð sjöunda. Geir Hallgrímsson hafði fengið því framgengt að þátttakendur í prófkjörinu merktu við þingmannsefni með númerum, frá einum upp í átta í stað þess að krossa við átta nöfn eins og gert var í prófkjörinu í nóvember 1977. Guðni Th. Jóhannesson segir í ævisögu Gunnars Thoroddsen að hefði sama aðferð verið notuð aftur í prófkjörinu 1979 hefði Gunnar fallið niður í áttunda eða níunda sæti og pólitískum ferli hans líklega lokið þar með.

Verkalýðsleiðtogarnir, Pétur Sigurðsson sjómaður og Guðmundur H. Garðarsson, formaður VR, höfnuðu í áttunda og níunda sæti listans. Allir fyrir ofan þá á listanum höfðu lögfræðipróf nema Albert Guðmundsson stórkaupmaður. Þetta fór illa saman við kjörorð flokksins „stétt með stétt“ og gat engan veginn talist sigurstrangleg röðun á lista. Þarna komu gallar prófkjaranna berlega í ljós — þau gátu leitt af sér einsleita lista eða illa samsetta af öðrum ástæðum.

Þrautaganga reykvískra sjálfstæðismanna heldur áfram

Prófkjörin hafa ýmsa aðra ákosti en hættuna á einsleitni; kostnaður frambjóðenda getur orðið óheyrilegur og með þeim er oft alið á sundrungu innan hópsins. Í prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014 röðuðust þrír miðaldra karlmenn í þrjú efstu sætin. Fjórum árum síðar var ákveðið að velja eingöngu oddvita með kosningu en öðrum var stillt upp á lista. Við blasir að kjörnefnd fórst það verk illa úr hendi og varla nokkur þeirra sem þá var valinn hefur vakið athygli fyrir störf sín að borgarmálum. Flest er það fólk jafnóþekkt nú og það var fyrir fjórum árum.

 

Það var því ekki að undra að almennur vilji væri fyrir prófkjöri allra flokksmanna að þessu sinni en því lauk í gær. Aðeins 5.545 greiddu atkvæði en það er fróðlegt að bera saman við prófkjörið fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1978 þegar 10.762 tóku þátt. Þá voru Reykvíkingar 83 þúsund en eru 132 þúsund nú. Raunar misstu sjálfstæðismenn meirihlutann í borgarstjórn 1978 en fjórum árum fyrr höfðu þeir fengið 57,9% atkvæða í borgarstjórnarkosningum og í alþingiskosningum sama ár hlaut flokkurinn 50,1% atkvæða í Reykjavík. Nú er hún Snorrabúð stekkur því samkvæmt könnun Prósents fyrir Fréttablaðið sem birt var í vikunni sem leið nýtur Sjálfstæðisflokkurinn aðeins stuðnings fimmtungs borgarbúa. Það verður því á brattann að sækja fyrir Hildi Björnsdóttur, nýjan oddvita sjálfstæðismanna í borginni. Hún á erfitt verk fyrir höndum að sameina stríðandi fylkingar flokksmanna. Gamalkunnir ókostir prófkjara koma hér í ljós.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund