fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Staðan í Úkraínu – Þetta vitum við núna

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 25. febrúar 2022 07:12

Þessi kona særðist í árás Rússa fyrr á árinu. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er hart barist í Úkraínu þar sem rússneski herinn sækir að mörgum bæjum og borgum, þar á meðal höfuðborginni Kyiv. Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, segir að hernaði Rússa í Úkraínu ljúki innan nokkurra daga.

Hér tökum við stöðuna á gangi mála eins og hún blasir við núna en rétt er að hafa í huga að málin þróast hratt í Úkraínu og getur staðan breyst á skömmum tíma.

Enn er margt óljóst um gang mála á vígvöllunum en eftir sprengjuárásir gærdagsins og í nótt virðist sem rússneskar hersveitir séu að umkringja höfuðborgina Kyiv. Úkraínskir herforingjar segja að úkraínska hernum hafi tekist að stöðva sókn rússneska hersins víðast hvar.

Volodymyr Zelenskij, forseti, sagði í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi að rússneskar hersveitir væru nálægt Kyiv. Hann sagðist reiðubúinn til viðræðna við Rússa en sagði að Úkraína hafi verið skilin eftir ein af heimsbyggðinni. Hann sagði að hann og fjölskylda hans væru á öruggum stað. Ekki var skýrt frá hvaðan hann ávarpaði þjóðina.

Bardagar stóðu yfir í alla nótt víða um landið. Í gærkvöldi sögðu yfirmenn rússneska hersins að markmið dagsins hefðu náðst. Úkraínumenn viðurkenndu að hafa orðið fyrir miklu tjóni en sögðu að áfram verði barist.

Zelenskij sagði að 137 Úkraínumenn hefðu fallið í gær og 316 særst. Í tilkynningu frá úkraínska varnarmálaráðuneytinu í morgun segir að 800 rússneskir hermenn hafi fallið í gær, sjö rússneskar flugvélar og sex þyrlur hafi verið skotnar niður og að 30 rússneskir skriðdrekar hafi verið eyðilagðir.

Rússar hafa ekki birt neinar tölur yfir mannfall. Herinn sagði í nótt að 200 hernaðaraðgerðir hafi verið framkvæmdar fram að þessu. Rússar segja að hér sé um „sérstaka aðgerð“ að ræða en það hugtak getur fallið undir grein 51 í sáttmála SÞ um lögmætar aðgerðir en á móti telst stríð eða innrás ekki lögmæt aðgerð.

Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, sagði í gærkvöldi að Rússar hafi ekki í hyggju að hernema Úkraínu en að þessi „sérstaka aðgerð“ sé gerð til að vernda íbúa í lýðveldunum Donetsk og Luhansk sem Rússar hafa viðurkennt sem sjálfstæð ríki. Hann sagði að aðgerðunum í Úkraínu ljúki innan nokkurra daga.

Rússar hertóku Antonovflugvöllinn, sem er nærri Kyiv, snemma í gær en í nótt sögðust Úkraínumenn hafa náð honum aftur á sitt vald. Hann er sagður mjög mikilvægur fyrir væntanlega árás á Kyiv því Rússar eru sagðir ætla að flytja hermenn þangað flugleiðis. Þeir eiga síðan að ráðast á Kyiv.

Breskar leyniþjónustustofnanir segja að Rússar hafi náð kjarnorkuverinu í Tjernobyl á sitt vald eftir harða bardaga.

Tugir þúsunda Úkraínumanna hafa lagt á flótta eftir að Rússar réðust inn í landið í gær. Mörg þúsund hafa komist til Moldóvu en yfirvöld þar lýstu í nótt yfir 60 daga neyðarástandi. Sífellt fleiri leita í átt að landamærum nágrannaríkjanna en talsmaður SÞ sagðist í nótt telja að um 100.000 Úkraínumenn væru nú á flótta í Úkraínu eða stefni vestur á bóginn. Rússnesk yfirvöld segja að rúmlega 100.000 manns hafi flúið frá Donetsk og Luhansk til Rússlands.

Í gærkvöldi og nótt fylgdu vestræn ríki fordæmingum sínum á innrás Rússa eftir með því að tilkynna um refsiaðgerðir gegn þeim. Umfang þeirra er af áður óþekktri stærðargráðu. Joe Biden, Bandaríkjaforseti, sagði í gærkvöldi að Rússar beri einir ábyrgð á stríðinu og að vegna þess verði eignir rússneskra banka og fjármálastofnana í Bandaríkjunum frystar. Auk þess verður fjórum rússneskum bönkum meinað að stunda viðskipti á vestrænum fjármálamörkuðum. Rússneskum fyrirtækjum verður almennt séð meinað að sækja sér fé á Vesturlöndum. Auk þess verður gripið til refsiaðgerða gegn nafngreindum olígörkum, auðmönnum, stjórnmálamönnum og háttsettum herforingjum. Miklar takmarkanir verða settar á útflutning tölvubúnaðar og hátæknivara til Rússlands.

Refsiaðgerðir Bandaríkjanna eru mjög svipaðar þeim sem Evrópusambandið grípur til. Ekki verður lokað á aðgang Rússa að Swift greiðslukerfinu en mikið hefur verið rætt um það. Biden sagði ESB og G7 ríkin hafi ekki viljað það. Ef Rússar verða útilokaðir frá því mun það valda evrópskum neytendum miklum vandræðum því þá geta orkufyrirtæki ekki lengur fjármagnað og greitt fyrir kaup á gasi og olíu frá Rússlandi.

Ástralar tilkynntu einnig um refsiaðgerðir gegn Rússum í nótt. Þær ná til 25 nafngreindra Rússa og nú ætla Ástralar að samræma refsiaðgerðir sínar með vestrænum bandamönnum sínum.

Í nótt opnaðist það sem má kannski kalla nýja víglínu en þá brutust tölvuþrjótar inn á vefsíðu rússneska fréttamiðilsins RT, sem er undir stjórn valdhafa í Kreml, og lokuðu henni. Tölvuþrjótarnir tilheyra hópi sem kallar sig Anonymous. Einnig var ráðist á aðrar vefsíður sem tengjast rússneskum yfirvöldum. Anonymous segjast nú vera í stríði við Rússland.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Katrín vildi Geir Haarde í fangelsi – hefur ekki beðist afsökunar

Orðið á götunni: Katrín vildi Geir Haarde í fangelsi – hefur ekki beðist afsökunar
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Katrín með forskot á Baldur – Halla Hrund sækir í sig veðrið

Katrín með forskot á Baldur – Halla Hrund sækir í sig veðrið
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kúrekar og jakkafatalakkar Alþingis – „Fólkið í fínu fötunum, með fínu skoðanirnar og fínu brosin“

Kúrekar og jakkafatalakkar Alþingis – „Fólkið í fínu fötunum, með fínu skoðanirnar og fínu brosin“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt