fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Heimir skrifar: Þjóðin sem kunni ekki að eiga lággjaldaflugfélag

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 2. febrúar 2022 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er ekkert smáborgaralegra en að kalla landa sína smáborgaralega, en stundum er erfitt að láta það eiga sig. Eins og þegar við komum saman sem þjóð og kenndum Dönum um að hafa ekki komist áfram á EM í handbolta eftir tvöfalt tap í milliriðli. Eða eins og þegar allir áttu háttsettan frænda hjá Pfizer sem sagði þeim að Kári Stefánsson ætlaði persónulega að bólusetja okkur öll í næstu viku.

Í gær áttum við svona „móment,“ en þá gerði æstur netmúgur, flestir á Twitter og enginn þeirra fyndinn, aðsúg að Play fyrir að ætla ekki að bjóða þeim beint flug inn á einn dýrasta flugvöll heims á lággjaldafargjaldi. Í staðinn sýndi Play þá bíræfni, þá ósvífni, það blygðunarleysi og þá ófyrirleitni að bjóða Íslendingum, Íslendingum, upp á flug á sveitavöll.

Og varð þá allt vitlaust.

„Eini ókosturinn…fyrir utan það að vera ca 100 km frá NYC,“ sagði einn netverji sem má greinilega engan tíma missa.

Annar benti kollegum sínum í athugasemdakerfinu þá jafnframt á að: „Maður getur alveg eins flogið til Boston og keyrt til New York þaðan.“  Vonandi gerir sá ágæti aðili það bara og kaupir farmiða til Boston á helmingi hærra verði.

Í viðtali við forstjóra Play, Birgi Jónsson, í gærkvöldi leiðrétti hann ýmsan misskilninginn sem flaut um samfélagsmiðla í gær. Auðvitað var það þannig að Play var búið að sjá við þessu, þó flugfélagið hafi örugglega ekki gert ráð fyrir því hve tími Íslendinga, sérstaklega virkra í athugasemdum, er ógurlega verðmætur.

„Í sinni einföldustu mynd er þetta þannig að þú lendir á þessum flugvelli, hann er lítill, þú ert svona hálftíma í gegnum hann og þú ferð beint upp í rútu ef þú vilt það, farið kostar 20 dollara, og hún er svona klukkutíma og 20 mínútur til Manhattan. Í rútunni er þráðlaust net og salerni, “ sagði Birgir enn fremur.

Forstjórinn skólaði svo Twitter blómin til í gangverki samkeppnismarkaðar: „Auðvitað þarf þetta að skoðast í því samhengi að miðinn á mann kostar svona 200 til 250 dollurum undir því sem samkeppnin er að bjóða. Ef um par er að ræða þá er þetta 50-60 þúsund króna sparnaður, enn meira ef fjölskylda er að ferðast. Það eru alvöru peningar. Segjum sem svo að þú sért hálftíma lengur inn í bæ og borgir 20 dollara fyrir lestaferð, þá er þetta alvöru sparnaður, við erum lággjalda flugfélag og stílum inn á þann markhóp, höfðum til fólks sem vill frekar gera vel við sig í fríinu en eyða of miklum peningum í rándýran flugmiða. Ef fólk vill það ekki þá eru aðrir kostir í boði, það er fegurð hins frjálsa markaðar,“ sagði forstjórinn.

Fegurðin við lággjaldaflugfélög er einmitt þetta val. Val um að kaupa strípaðan miða án farangurs. Val um að fljúga á JFK eða Stewart… eða fljúga til Boston og taka bússinn suðureftir. Nú lítur einmitt allt út fyrir það að Íslendingar eigi í fyrsta skipti alvöru lággjaldaflugfélag. Spurningin er bara hvort við munum nokkurntímann læra að meta þann valkost.

Svo er lexían auðvitað sú að það er ekki hægt að gera öllum til geðs, og að fólkið sem aldrei er ánægt hefur alltof greiðan aðgang að fjölmiðlum.

Sjálfur fagna ég fjölbreytninni og hlakka til að fljúga á þennan sveitavöll þar sem engar eru biðraðirnar, enda annálaður bjartsýnismaður hvers glas er alltaf hálf fullt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið
EyjanFastir pennar
10.03.2024

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam
EyjanFastir pennar
07.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum
EyjanFastir pennar
03.03.2024

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð